Posted on

„Málvilla“ getur hætt að vera „villa“

Ég var í gær að skrifa um það hversu erfitt er að þvo málvillustimpilinn af tilbrigðum sem hafa einu sinni fengið hann á sig – í sumum tilvikum algerlega að ósekju alla tíð, eins og sambandið forða slysi. Í öðrum tilvikum hefur stimpillinn vissulega átt rétt á sér í upphafi vegna þess að tilbrigðið sem um er að ræða var frávik frá málhefð á þeim tíma. En ef það hefur samt sem áður breiðst út og er nú orðið málvenja og eðlilegt mál fjölda fólks, jafnvel verulegs hluta málnotenda, þá er vitanlega engin skynsemi í því að halda áfram að líta á það sem „frávik“ eða „málvillu“. Málið hefur alltaf verið að breytast, er enn að breytast, og mun halda áfram að breytast, alveg sama hvað við berjumst gegn breytingum og berjum hausnum við steininn.

Í fjörutíu ár hefur legið fyrir almennt viðurkennd skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“ sem sett var fram í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Skilgreiningin er orðuð svo á Vísindavefnum: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Það er ljóst að fjöldi þeirra tilbrigða sem venja er að kalla „málvillur“ hljóta að teljast „rétt mál“ samkvæmt þessari skilgreiningu, svo sem hin svokallaða „þágufallssýki“ sem sannanlega er málvenja talsverðs hluta málnotenda. En það er samt enn barist gegn henni og hún talin röng.

Það sem liggur á bak við tregðu kennslubóka, kennara og málsamfélagsins til að breyta viðhorfi til útbreiddra tilbrigða í máli og hætta að telja þau „villur“ er ekki síst sú tvíhyggja sem okkur hefur verið innrætt, meðvitað og ómeðvitað – að öll tilbrigði í máli séu annaðhvort „rétt“ eða „röng“, og í hverju tilviki sé aðeins eitt „rétt“ en öll hin „röng“. Okkur finnst að ef við breytum viðhorfi til einstaks tilbrigðis, förum að telja eitthvað „rétt“ sem áður hafði verið talið „rangt“, þá leiði það jafnframt til þess að það sem hafði verið talið „rétt“ verði núna „rangt“. En auðvitað er það ekki þannig – það tilbrigði sem áður var talið „rétt“ heldur áfram að vera það svo lengi sem það er eitthvað notað. Það hafa alltaf verið tilbrigði í málinu og málið þolir það alveg.

Auk þessa finnst mörgum að ef hætt er að berjast gegn tilteknu tilbrigði sem hefur verið talið „rangt“ sé með því verið að segja að starf kennara og foreldra við að kenna börnum „rétta“ tilbrigðið og leiðrétta þau þegar þau notuðu það „ranga“ hafi verið tilgangslaust, unnið fyrir gýg – þarna sé í raun verið að henda blautri tusku í andlit þeirra sem hafi lagt líf og sál í þessa baráttu fyrir réttu og vönduðu máli. Mér finnst stundum að þegar kemur að tilvikum af þessu tagi liggi á bak við andstöðu gegn breytingum hugmynd sem mætti orða svo: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt. Þess vegna sé ekki hægt að bakka – það sé undanhald, eftirgjöf eða uppgjöf, viðurkenning á því að við höfum verið á rangri leið.

Við þurfum að breyta þessu hugarfari og átta okkur á – og viðurkenna – að það er engin minnkun að því að skipta um skoðun og breyta um viðhorf til einstakra tilbrigða í máli. Málið breytist hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þekking á því breytist líka og eykst. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að það breytist hvaða tilbrigði í málinu eru talin „rétt“. Það er hins vegar fullkomlega óeðlilegt að halda dauðahaldi í allar reglur sem okkur voru innrættar, oft fyrir mörgum áratugum, um það hvað sé „rétt“ og hvað „rangt“ – ef þessar reglur eru í andstöðu við nútíma þekkingu eða málið eins og það er notað í dag. Með því að neita að horfast í augu við breytingar – og viðurkenna þær – gerum við málinu margfalt meiri skaða en gagn.