Af nokkrum gömlum tökuorðum sem hafa komið í málið úr dönsku eru til tvímyndir sem hafa ýmist einhljóðið ú eða tvíhljóðið ó. Þekktast þeirra er líklega tómatur / túmatur. Það er vissulega langoftast með ó en á tímarit.is eru þó nokkuð á annað hundrað dæmi um myndir með ú og í Risamálheildinni eru rúmlega 250 dæmi um slíkar myndir. Töluverður hluti síðarnefndu dæmanna sýnir reyndar ekki virka notkun myndanna heldur er verið að gera grín að þeim, furða sig á þeim eða hafna þeim, en það sýnir samt sem áður að þær eru talsvert þekktar í nútímamáli. Orðið er upphaflega komið úr tungumálinu nahuatl sem Toltekar og Astekar í Mexíkó töluðu, og var þar tomatl, eins og Erla Erlendsdóttir rekur í grein í Orði og tungu 2005.
Í dönsku varð ritmyndin tomat og í þeirri mynd barst orðið til Íslands undir lok nítjándu aldar. Í Ísafold 1890 segir: „Alls konar þurkaðar súpujurtir mjög ódýrar (Tomater, Persille, Porrelög, Grönkaal, Rödkaal, Hvidkaal, Gulerödder og Julienne).“ Í Andvara 1894 segir: „Mikið er og komið undir því, að uppskeran á „tomat“-ávextinum heppnist vel.“ Í Kvennablaðinu 1897 segir: „„Tomaterne“ eru skornar í bita“ – eins og Erla Erlendsdóttir bendir á í áðurnefndri grein er orðið þarna í kvenkyni. En fljótlega fékk það íslenska ritmynd – í Þjóðólfi 1894 segir: „Í verzlun H.Th.A. Thomsens fæst […] fisk- og tómat-sósa.“ Í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónasson frá 1896 er danska orðið tomat þýtt tómat.
Myndin tómat getur formsins vegna annaðhvort verið endingarlaust sterkt karlkynsorð eða hvorugkynsorð og oft er útilokað að skera úr því hvort er. Þó má snemma finna ótvíræðar karlkynsmyndir – í Fanney 1906 segir: „Einn borðaði t.d. að eins eitt epli, annar einn tómat […] o.s.frv.“ og í sömu grein kemur fram fleirtölumyndin tómatar. En ótvíræðar hvorugkynsmyndir má einnig finna – í Frey 1911 segir: „á tómötin komu græn ber.“ Karlkyn með nefnifallsendingunni -ur sést fyrst 1936. Veika myndin tómati kemur fram um svipað leyti – í Nýja dagblaðinu 1934 segir: „þar sem bíður þeirra tómati og gráðaostur.“ Orðið er einnig til sem veikt kvenkynsorð – í Tímanum 1925 segir: „Ekki veit eg, hvaðan nafnið tómata er komið.“
Elsta dæmi um ritmynd með ú er í Íslendingi 1919: „Sardínur í olíu og túmat.“ Ótvíræð karlkynsmynd sést fyrst í Vísi 1928: „Nýkomið: Túmatar og kartöflur.“ Veika karlkynsmyndin túmati kemur fyrst fram í Vikunni 1961: „hún sagði, að hann væri rjóður og kringluleitur eins og túmati.“ Þar sem hægt er að greina kynið ótvírætt á annað borð virðist alltaf vera um karlkyn að ræða. En ástæðan fyrir tvímyndunum er væntanlega árekstur ritháttar og framburðar. Sennilegt er að rithátturinn tómat(ur) hafi verið valinn vegna líkinda við danskan rithátt, en í dönsku er orðið borið fram [toˈmæˀd], með einhljóði, ekki tvíhljóði eins og íslensku ó, og þótt danska hljóðið sé ekki nákvæmlega eins og íslenskt ú hljómar það svipað í íslenskum eyrum.
Annað dæmi þar sem ég held að hliðstæðar tvímyndir hafi þekkst þótt ég finni litlar heimildir um það er apótek / apútek. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er þó eitt dæmi um apútek, úr Vefarinn með tólfkóngaviti frá 1854: „Jeg er ekki óhrædd um það, að apúteks meðölin fari að rata hingað eptirleiðis.“ Önnur dæmi hef ég ekki fundið nema á vefnum fastinn.is þar sem segir m.a.: „Frábær staðsetning þar sem örstutt er í Hagkaup, Vínbúðina, apútek og fleira.“ Þetta er ekki innsláttarvilla því að það sést víðar á sama vef. Sérhljóðið er þarna í áhersluleysi milli tveggja áhersluatkvæða og sennilega sjaldnast borið fram sem skýrt ó heldur einhvers konar óráðið kringt uppmælt hálfnálægt sérhljóð, [ʊ], sem getur verið skynjað ýmist sem ú eða ó.
Þriðja orðið þar sem hliðstæð víxl koma fram er kommúnisti / kommónisti, en þar eru það myndir með ú sem eru yfirgnæfandi. Elsta dæmi um orðið er í bréfi frá 1849: „sumir eru kommúnistar, þeir heimta jöfn réttindi, jafna nautn.“ Þegar leitað er að dæmum um myndir með ó á tímarit.is finnast hátt á annað hundrað dæmi en flest þeirra reynast vera ljóslestrarvillur. Einstöku dæmi með ó má þó finna. Í Þjóðviljanum 1980 segir: „Hér áður var fullt af þorski í Grindavík en engir kommónistar.“ Í Degi 1981 segir: „Þetta eru einkum kommónistar og framsóknarmenn.“ Í Skessuhorni 2007 segir: „Það frétti peysu- lopa- lið / og lagsmenn kommónista.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Svo er oft með kommónista, verkalýðsrekendur og lýðsleikjur.“
Í Risamálheildinni eru þrjátíu dæmi með ó, langflest nýleg af samfélagsmiðlum sem sýnir að eitthvert líf er í þessum myndum. Athyglisvert dæmi er úr endurminningum Ragnars Stefánssonar, Það skelfur, frá 2013: „Á þessum árum þótti kommónisti sterkara skammaryrði en kommúnisti.“ Þetta bendir til þess að myndir með ó hafi verið talsvert meira notaðar en ritaðar heimildir sýna, enda sáust talmálsmyndir sjaldan í ritmáli fyrir daga samfélagsmiðla. Þarna gildir sama og um apótek / apútek að sérhljóðið sem um ræðir er í áhersluleysi milli tveggja áhersluatkvæða og sennilega oftast borið fram sem einhvers konar millihljóð sem getur verið skynjað ýmist sem ú eða ó – og líka sem o, kommonisti, sem fáein dæmi eru um.

+354-861-6417
eirikurr