Elsta dæmi um nafnorðið verkstjórn á tímarit.is og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er í Ármanni á Alþingi 1829: „verkstjórnin géck mér eptir því betur og betur sem eg var lengur við hana.“ Þarna hefur orðið augljóslega merkinguna 'það að stjórna verki' eins og það er skýrt bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók og það var nánast eina merking orðsins þar til fyrir ári þótt einhver dæmi séu um merkinguna 'hópur sem stjórnar verki', svo sem í Sveitarstjórnarmálum 1967: „Annar vinnuhópurinn fékk tækifæri til þess að velja fulltrúa úr sínum hópi til þess að ræða við verkstjórnina um tilgang breytinganna.“ En á vetrarsólstöðum fyrir réttu ári bætti orðið við sig merkingu sem hefur verið mikið notuð síðan.
Þegar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kom út af ríkisráðsfundi þar sem myndun nýrrar ríkisstjórnar var staðfest sagði hún: „Þetta er verkstjórn en ekki setustjórn.“ Þarna á orðið verkstjórn sem andstæða við setustjórn augljóslega að vísa til þess að stjórnin stefni að því að vera vinnusöm – „Við ætlum að láta verkin tala“ sagði Inga Sæland á blaðamannafundi þennan sama dag og í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í febrúar sagði Ragnar Þór Ingólfsson: „Við ætlum að koma þessu í verk enda erum við verkstjórn.“ Ég veit ekki hvort Kristrún varð fyrst til að nota orðið í þessari merkingu en það er ekki ólíklegt. Hvað sem því líður er ljóst að þessi merking orðsins náði strax fótfestu í fjölmiðlum og einkum á Alþingi.
Í þingræðum undanfarið ár eru rúm hundrað dæmi um orðið verkstjórn, nær öll í hinni nýju merkingu þótt einstöku dæmi séu um þá eldri: „Þetta er verkstjórnin í þessari svokölluðu verkríkisstjórn“ sagði Sigríður Á. Andersen nýlega. Orðið er notað jafnt af stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum þótt fylkingar greini vissulega á um hvort það sé réttnefni á ríkisstjórninni. En hvergi kemur fram gagnrýni á að orðinu hafi verið gefin ný merking. Sú merking er í sjálfu sér gagnsæ og alveg eðlileg – orðið stjórn hefur mjög oft merkinguna ‚ríkisstjórn‘, og notkun orðhlutans verk- samræmist merkingu hans í orðinu verkmaður sem er skýrt 'duglegur maður, sá sem kemur miklu í verk' í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Það er auðvitað alsiða að gefa ríkisstjórnum óopinber heiti og þau hafa verið með ýmsu móti. Stjórnir hafa verið kenndar við samsetningu sína (helmingaskiptastjórnin, stjórn hinna vinnandi stétta), stefnu (vinstri stjórnin), staðinn þar sem þær voru kynntar (Viðeyjarstjórnin, Þingvallastjórnin), athafnir og áform (nýsköpunarstjórnin, viðreisnarstjórnin) og stundum við forsætisráðherrann (Stefanía, kóka-kóla stjórnin). Núverandi ríkisstjórn var í upphafi stundum kölluð sólstöðustjórnin og heitið valkyrjustjórnin sást jafnvel áður en hún var mynduð. En munurinn á orðinu verkstjórn um stjórnina og flestum eða öllum orðum um aðrar ríkisstjórnir er sá að verkstjórn er ekki hugsað sem sérnafn heldur sem lýsing á eðli stjórnarinnar.

+354-861-6417
eirikurr