Posted on

Frostbit

Nafnorðið frostbit var eitt sinn til umræðu í „Málspjalli“ og einnig í öðrum málfarshópum á Facebook. Sumum finnst augljóst að orðið sé tekið hrátt úr ensku vegna þess að þar er til orðið frostbite sem merkir 'kal' og þess vegna er stundum amast við því. Af uppruna þess fer þó tvennum sögum, og auk þess hefur komið fram í umræðum í áðurnefndum hópum að fólk er ekki á einu máli um hvað orðið merki – hvort það hafi sömu merkingu og kal sem er skýrt 'sár á húð (t.d. á fingrum) af völdum frosts' í Íslenskri nútímamálsorðabók, eða hvort það hafi vægari merkingu og vísi ekki beinlínis til skemmda á húð heldur til þess þegar húðin verður rauð eða blá af kulda og með fylgir jafnvel sársauki eða tilfinningaleysi.

Elsta dæmi um frostbit er í Heimskringlu 1891: „Og við taugatognun, mari, bruna, frostbiti o. s. frv. á hún engan sinn líka.“ Heimskringla var auðvitað gefin út í Winnipeg og því líklegt að þarna sé um ensk áhrif að ræða, og öll elstu dæmin eru úr vesturheimsblöðum. Þrjú dæmi eru úr blöðum gefnum út á Íslandi fram til 1950, en tvö þeirra eru í textum þýddum úr ensku og eitt frá manni sem hafði dvalið langdvölum í enskumælandi löndum. En frá því um 1950 og fram yfir 1990 eru margir tugir dæma um orðið á tímarit.is, nær öll úr krossgátum þar sem það er skýring á kal – sem er hentugt orð í krossgátum vegna þess að það er stutt og samsett úr algengum bókstöfum. Eftir 1990 hverfa krossgátur að mestu úr blöðunum og dæmum fækkar.

Þó má finna slangur af dæmum um orðið og ekki alltaf auðvelt að ráða í merkinguna. Í DV 1988 segir: „Er það gert vegna mikillar hættu á kali og frostbiti fyrir skíðamenn.“ Þarna virðist gert ráð fyrir að kal og frostbit sé ekki það sama. En eftir aldamótin virðist frostbit oft notað í sömu merkingu og kal. Það er t.d. augljóst í Fréttablaðinu 2001 þar sem segir: „15 ára gamall Serpi, sem missti fimm fingur vegna frostbits í fyrra, er yngsti maður sem klifið hefur hæsta tind í heimi.“ Varla er þó átt við kal í dæmum eins og „Frostbit í kinnar og útivist er kannski aðdráttarafl út af fyrir sig?“ í Akureyri 2012, eða „Kuldakrem ver húðina fyrir frostbiti“ í Morgunblaðinu 2016, eða „Ég sé frostbitið fólk bisa við að hlýða Víði“ í Fréttablaðinu 2020.

Nafnorðið frostbit er ekki að finna í helstu orðabókum en öðru máli gegnir um lýsingarorðið frostbitinn sem er skýrt 'rauður eða blár (í andliti eða á höndum) af völdum frosts' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það orð er líka eldra en nafnorðið og ekki að sjá að það megi rekja til ensku – kemur fyrst fyrir í kvæði eftir Matthías Jochumsson í Þjóðólfi 1874: „Sá nákaldi veturinn, Norðurlandsbygð / hefir nætt um þín frostbitnu sár.“ Alls eru um 250 dæmi um orðið á tímarit.is – allnokkur hluti úr vesturíslensku blöðunum, hugsanlega fyrir áhrif frá frostbitten sem merkir 'kalinn'. Sambandið frostið bítur er líka vel þekkt. Í Skeggja 1919 segir: „Frostið bítur heljuhart.“ Í 19. júní 1920 segir: „Bjóðist geisli, er blæs hann kalt / og bíti frost og hríðar.“

Nafnorðið frostbit er rétt myndað íslenskt orð og enda þótt það kunni að vera myndað með hliðsjón af frostbite í ensku á það sér líka skýrar rammíslenskar hliðstæður í lýsingarorðinu frostbitinn og sambandið frostið bítur. Út frá þeim samböndum væri eðlilegt að það merkti ‚rauð eða blá húð af völdum frosts‘ eða eitthvað slíkt, fremur en ‚sár á húð af völdum frosts‘ eins og kal, og það virðist oftast vera raunin, t.d. í nýlegum dæmum í Risamálheildinni. En þá er líka rétt að hafa í huga að í daglegu máli er kal a.m.k. stundum notað í vægari merkingu en orðabókarmerkingunni sem tilgreind er hér að framan. Mér finnst sem sé ekkert að því að tala um frostbit en vitanlega mikilvægt að muna eftir orðinu kal og nota það þar sem við á.