Posted on

Mannanafnarugl

Í framhaldi af umræðu í „Málspjalli“ um nafnið Ranimosk sér Morgunblaðið ástæðu til að spyrja formann mannanafnanefndar út í úrskurði og verklagsreglur nefndarinnar. Svörin sýna glöggt út í hvaða fen nefndin er komin en þótt ég telji að hún sé oft á villigötum í úrskurðum sínum er henni nokkur vorkunn – það er útilokað að framfylgja gildandi lögum en taka um leið eðlilegt tillit til þeirra þjóðfélagsbreytinga og hugarfarsbreytinga sem hafa orðið á undanförnum þrjátíu árum. Þess vegna er brýnt að endurskoða lögin og undarlegt að núverandi dómsmálaráðherra skuli ekki vera með áform um það í þingmálaskrá sinni, í ljósi þess að flokkur hennar, Viðreisn, lagði mikla áherslu á það fyrir fáum árum að lögunum yrði breytt.

Í viðtalinu er sagt að samkvæmt verklagsreglum mannanafnanefndar séu erlend tökunöfn „tekin upp á mannanafnaskrá svo lengi sem þau eru skrifuð á sama hátt og í landinu sem þau eru frá“. „Eins og með nafnið Charles, ef einhver vill heita það á Íslandi væri hægt með vísan til þessarar reglu að fá það samþykkt með rithættinum Charles en ekki Tjarles.“ Nafnið Charles er reyndar þegar á skrá þannig að á þetta reynir ekki, en í verklagsreglunum segir einnig: „Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.“ Samkvæmt þessu ætti rithátturinn Tjarles að vera heimill því að hann samræmist óneitanlega almennum íslenskum ritreglum betur en Charles – ýmis orð byrja á tja-, svo sem tjara, tjald o.fl. Hins vegar væri Tsjarles óheimilt.

Í verklagsreglum mannanafnanefndar stendur að ritháttur teljist hefðbundinn „sé hann gjaldgengur í veitimáli“ en bætt við: „Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.“ Ef þetta er skilið bókstaflega, sem og orð formannsins um að tökunöfn sem „eru skrifuð á sama hátt og í landinu sem þau eru frá“ séu leyfð, táknar það að nöfn úr málum sem ekki nota latneska stafrófið verði ekki leyfð. Hugsanlega er ákvæðið um að heimilt sé „að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum“ túlkað þannig að leyfilegt sé að umrita nöfn úr tungumálum sem rituð eru með öðru stafrófi en því latneska – að öðrum kosti er þarna um að ræða augljóst misrétti milli tungumála.

Í viðtalinu segir: „Breytingar voru gerðar árið 2021 og var þá slakað á kröfunum sem gerðar eru til nýrra nafna á skrá.“ Þarna er ekki vísað til breytinga á lögunum sjálfum heldur breytinga á þeim verklagsreglum sem mannanafnanefnd setur sér sjálf. Umræddar breytingar voru ótvírætt til bóta, en hins vegar er umdeilanlegt hvaða svigrúm nefndin hefur í þessu efni. Formaðurinn telur „að reglur mannanafnanefndar séu skýrar“ og ákvæði um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé „eina ákvæðið sem mat er á“. En það er ekki rétt. Það er mjög matskennt hvort nafn brýtur í bága við íslenskt málkerfi, og mannanafnanefnd hefur komið sér upp ýmsum vinnureglum við mat á því, sumum hverjum umdeilanlegum og jafnvel afar hæpnum.

En það er ekki nóg með að nefndin hafi breytt verklagsreglum sínum hvað varðar hefð og rithátt. Túlkun hennar á því hvort nafn geti tekið eignarfallsendingu virðist líka hafa breyst án þess að það komi nokkurs staðar fram í reglum. Í úrskurði frá 2018 segir: „Ekki er hefð fyrir því í íslensku að eignarfallsendingunni -ar sé bætt við stofn sem endar á -e.“ En í nýlegum úrskurði segir: „Eiginnafnið Harne (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Harnear, og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn.“ Engar skýringar er að finna á þessari breyttu túlkun. Það er vitaskuld óheppilegt og varla í anda góðrar stjórnsýslu þegar nefndin breytir túlkun sinni án þess að breytingin sé tilkynnt, hvað þá skýrð eða rökstudd.