Í umræðu um gleðileg jól og gleðilega hátíð í dag bar sambandið gleðilega rest á góma en það tíðkaðist talsvert áður fyrr, a.m.k. á fyrri hluta síðustu aldar. Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1989 vitnar Jón Aðalsteinn Jónsson í Halldór Halldórsson prófessor sem „segist segja við menn milli jóla og nýárs: Gleðilega rest, og tekur fram, að honum sé þetta tamt frá barnsaldri, en hann er fæddur og uppalinn á Ísafirði“. Halldór var fæddur 1911 og þetta rímar við það að elsta dæmið um gleðilega rest á tímarit.is er í Vestra 1910 en það blað var gefið út á Ísafirði. Í Vísi 1921 segir: „Gleðilega „rest“ segja Reykvíkingar þegar liðin er aðal jólahelgin. Þetta er smekklaus ambaga sem er að ryðja sér til rúms úti um landið og þarf að útrýma.“
Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Hvar sem menn hittast kveða við árnaðaróskirnar: „Gleðileg jól“ og „gleðileg hátíð“. Það er sjálfsagt. En svo lenda menn í vandræðum með að orða árnaðaróskirnar þegar komið er fram á annan jóladag og þá grípa menn að láni setningu frá gömlu sambandsþjóðinni og segja „Gleðileg Rest“. – Sumir kunna ekki við dönskuna. Þeir segja sem vafalaust er rjett; við erum sjálfstætt fólk og þurfum ekki að fá neitt að láni hjá neinum. Við getum borið fram okkar árnaðaróskir á eigin tungu. Þeir segja því „gleðilegan afgang“, sem gerir alveg sama gagn og hitt. Fáum dettur í hug að halda áfram að segja bara gleðileg jól, þó að það sje gamall og góður siður, að halda jól þar til á þrettándanum.“
Þetta var þó á undanhaldi um miðja öldina. Í Morgunblaðinu 1948 segir: „Fyrir hádegi í gær hafði jeg ekki hitt einn einasta mann, sem bauð „gleðilega rest“. – Þessi gamli, leiði ósiður er gjörsamlega að hverfa úr málinu – og mátti enda missa sig.“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Aldrei skal ég aftur segja gleðilega rest. Það er nefnilega komin upp sterk hreyfing á móti gleðilegri rest.“ Í Vísi 1956 segir: „Einu sinni sögðu menn oft gleðilega „rest“, þegar þeir hittust á götu eftir jólin og þótti það góður siður. Nú er þessi siður að leggjast niður, og verður satt að segja ekki eftir séð.“ Í Vísi 1960 segir: „Sem betur fer er nú að hverfa úr málinu sú leiða dönskusletta, sem lengi var hér tízku, að segja: „Gleðilega rest“, þegar menn hittust eftir hátíðisdagana.“
Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 2003 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson að orðalagið gleðilega rest myndi „trúlega vera horfið“. Það er þó ofmælt, en augljóslega hefur dregið verulega úr tíðni þess – í Risamálheildinni eru aðeins um 25 dæmi um sambandið. Eins og fram kom hér á undan er orðið rest komið úr dönsku og sést fyrst í íslensku kringum aldamótin 1700. Þótt orðið falli í sjálfu sér ágætlega að málinu og rími við orð eins og lest og pest (sem bæði eru reyndar tökuorð, en eldri) var það ætterni þess sem olli því að barist var gegn sambandinu gleðilega rest, eins og fram kemur í tilvitnunum hér að framan, og það hefur hlotið sömu örlög og fjölmargar aðrar „dönskuslettur“ í íslensku. Kannski er engin eftirsjá að því – eða hvað?

+354-861-6417
eirikurr