Posted on

Hjólbörur

Nafnorðið hjólbörur er eitt þeirra orða sem yfirleitt eru aðeins notuð í fleirtölu, eins og t.d. buxur, skæri og ýmis fleiri. Fleirtöluna má í slíkum tilvikum stundum skýra með því að eitthvert grundvallareinkenni fyrirbæranna sem um ræðir er tvöfalt eða tvískipt – hjólbörur hafa tvo kjálka, buxur hafa tvær skálmar og skæri hafa tvo arma. Samt sem áður vísar orðið bara til eins stykkis, eins eintaks af fyrirbærinu í setningum eins og ég ek hjólbörum, ég er í buxum og ég klippi með skærum. Þess vegna væri í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt farið væri að nota þessi orð í eintölu, enda liggur ljóst fyrir hver eintala þeirra ætti að vera væri hún notuð, og í dag var nefnt í „Málspjalli“ að eintalan hjólbara væri orðin nokkuð algeng, a.m.k. hjá yngra fólki.

Orðið hjólbörur er þó aðeins sýnt í fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, og í Málfarsbankanum er sagt: „Kvenkynsnafnorðið hjólbörur er fleirtöluorð.“ Í Íslenskri orðabók er myndin hjólbara þó uppflettiorð en vísað á hjólbörur. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er eitt dæmi um eintöluna, úr þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Fáein dæmi má svo finna á tímarit.is. Í Stjörnunni 1919 segir: „Þessi gjörð hefir þá smám saman þroskast stig eftir stig þangað til að hún varð að hjólböru.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1956 segir: „vasar hafa ekki nægt fyrir vöruna, en orðið að grípa til hins þjóðlega flutningatækis, hjólbörunnar.“ Í DV 1979 segir: „Æi, þar fór illa fyrir lifandi hjólbörunni.“

Í Risamálheildinni er svo slæðingur af dæmum frá síðustu árum. Í Vísi 2013 segir: „Hjólbaran, skórinn og straujárnið voru öll á barmi þess hverfa úr spilinu fyrir fullt og allt.“ Í Vísi 2015 segir: „Hjólbaran er stelling sem reynir á báða aðila.“ Í Eyjar.net 2009 segir: „var hann með fulla hjólböru af peningum.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Enda keyrði ég hjólböruna mörg hundruð ferðir þetta sumar.“ Í Skessuhorni 2021 segir: „hann skóflar kurli í hjólböru.“ Það er eftirtektarvert að nefnifall eintölu, hjólbara(n), er mjög sjaldgæft bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni en aukaföllin mun algengari. E.t.v. stafar það af því að aukafallsmyndirnar eru allar með ö eins og fleirtalan hjólbörur og hljóma því ekki jafn framandi og nefnifallið.

En þrátt fyrir að notkun eintölunnar fari greinilega vaxandi er hún tæpast orðin útbreidd málvenja enn, og getur því ekki talist „rétt mál“ samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Í einu samhengi er orðið þó ævinlega haft í eintölu – það er í fyrri hluta samsettra orða. Við segjum hjólböruhjól, hjólböruhlass, hjólböruakstur, hjólbörudekk, o.s.frv. en ekki *hjólbar(n)ahjól, *hjólbar(n)ahlass, *hjólbar(n)aakstur, *hjólbar(n)adekk o.s.frv. Það er vel þekkt að þegar fyrri liður samsetningar er veikt kvenkynsorð stendur það oft í eignarfalli eintölu þótt fleirtala væri „rökrétt“, sbr. stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka, vöruhús o.s.frv., en það er mjög áhugavert að sama skuli gilda um orð eins og hjólbörur sem er annars yfirleitt ekki haft í eintölu.