Fyrir tæpum þrjátíu árum var ég einu sinni sem oftar að kenna nýnemum í íslensku í Háskóla Íslands og hafði m.a. lagt fyrir þau einhver verkefni til að kanna hvernig þau stæðu í ritun – sem var misjafnlega eins og við var að búast. En svo datt mér í hug að láta þau þýða stutta texta úr dönsku og ensku – ekki til að meta hversu góð þau væru í þessum málum, heldur til að skoða íslensku þýðinguna. Ég varð dálítið hissa þegar ég sá að ýmsir nemendur sem höfðu skrifað ágætan frjálsan texta skiluðu nú þýðingu fullri af ambögum og óíslenskulegu orðalagi. Ég dró þá ályktun að málkennd þeirra væri ekki nógu sterk til að standast utanaðkomandi áreiti – þau gátu skrifað góðan texta upp úr sér en þegar þau fóru að þýða flæktist frumtextinn fyrir þeim.
Mér dettur ekki í hug að þarna hafi ég verið að gera einhverja merka uppgötvun en mér fannst þetta athyglisvert á sínum tíma, og það rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar umræða um þýðingar á Storytel fór í gang á „Málspjalli“. Þar kom fram að margar „íslenskar þýðingar“ þar væru unnar á þann hátt að fyrst væri gervigreindarlíkan látið „þýða“ textann en síðan færi mannlegur þýðandi yfir hann og lagfærði. Í umræðunum kom fram að þessar þýðingar væru oft gallaðar og orðafar óíslenskulegt. Nefnt var dæmið „Hún fann hönd hans á öxl hennar“ þar sem í allri eðlilegri íslensku væri sagt öxl sinni. Á ensku er hins vegar ekki notað eignarfornafn þarna, heldur persónufornafn, on her shoulder, og það er væntanlega ástæðan fyrir hennar á íslensku.
Nú veit ég ekkert um reynslu eða kunnáttu þeirra sem lagfæra gervigreindartexta hjá Storytel en miðað við þau kjör sem mér skilst að þeim bjóðist finnst mér ekki líklegt að margir færir og þjálfaðir þýðendur fáist til verksins heldur er hræddur um að fólkið sem vinnur við þetta sé kannski á svipuðum stað og nemendur mínir sem ég sagði frá í upphafi. Ég óttast sem sé að þau búi ekki yfir nægilega sterkri og þjálfaðri málkennd og málkunnáttu til að vera fær um að taka eftir og átta sig á óíslenskulegu orðalagi og leiðrétta það. Til þess þarf nefnilega töluvert meira en að geta skrifað skammlausan texta frá eigin brjósti. Og það þarf líka umhugsun og yfirlegu sem varla er hægt að gera ráð fyrir hjá fólki sem vinnur á lágum launum og undir tímapressu.
Ég legg áherslu á að ég hef ekkert á móti gervigreindarþýðingum út af fyrir sig enda rak ég í aldarfjórðung áróður fyrir uppbyggingu íslenskrar máltækni – ekki síst í þeim tilgangi að gera vélrænar þýðingar mögulegar. Slíkar þýðingar eru frábær hjálpartæki þar sem þær eiga við, einkum við þýðingar ýmiss konar nytjatexta, og það er alveg hugsanlegt að í framtíðinni geti þær líka nýst eitthvað við þýðingu bókmenntatexta í höndunum á æfðum og færum þýðendum, þótt ég hafi efasemdir um það. En þýðingar af því tagi sem Storytel býður upp á virðast ekki bara vera svikin vara og móðgun við notendur heldur einnig tilræði við vandaðar þýðingar og færa þýðendur – og síðast en ekki síst við íslenskuna. Við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

+354-861-6417
eirikurr