Posted on

Hjólböruútgáfa

Þegar ég var að skrifa um orðið hjólbörur í gær rakst ég á orð sem ég þekkti en var búinn að gleyma – hjólböruútgáfa. Þetta nafnorð var stundum notað um þykkar bækur, mikla doðranta, og er auðvitað mjög gagnsætt. Orðið er ekki í neinum orðabókum enda tæplega við því að búast, og ég finn aðeins þrjú dæmi á tímarit.is, þar af tvö úr sömu greininni eftir Guðmund G. Hagalín í Vísi 1946: „Mér leiðast bókarflísar, sem varla er hægt að binda í almennilegt band eða finna í skáp – leiðast þær álíka og hjólböruútgáfurnar […] og sárlega kvíði eg því, þegar afturhvarfið kemur frá hjólböruútgáfunum.“ Þriðja dæmið er í grein eftir Guðrúnu Nordal í Morgunblaðinu 1985: „Þetta er mjög myndarleg rit, stórt og þykkt, sannkölluð hjólböruútgáfa.“

Það er vitanlega dálítil gamansemi í þessu orði og þess vegna má halda því fram að það sé frekar óformlegt og því ekki von á mörgum dæmum um það á prenti. En ekkert dæmi er samt um orðið í Risamálheildinni þar sem þó er mikið af óformlegum textum og Google finnur aðeins eitt dæmi á netinu, í Facebook-færslu frá versluninni Bókinni 2023: „Þá verður boðin upp svokölluð „hjólböruútgáfa“ af Einari Ben., mjög flott eintak útgefið af stuðningsmönnum Einars.“ Þótt þetta orð sé orðið a.m.k. áttatíu ára gamalt bendir því margt til þess að það hafi eingöngu lifað í þröngum hópi bókaáhugafólks en aldrei orðið almenningseign. Mér finnst þetta samt skemmtilegt orð sem full ástæða sé til að halda lífi í og nota þegar færi gefst.