Posted on Færðu inn athugasemd

Hvers kyns er ökumaður?

Töluverð umræða hefur spunnist hér af pistli mínum um íþróttamann ársins eins og oft vill verða þegar kynjað orðfæri ber á góma. Einn þátttakenda í umræðunni benti á fyrr í dag að ökumaður bifreiðar „þarf ekki að vera karl“ og „afar fáir myndu taka þannig til orða að „ökukona Toyotunnar virti ekki biðskyldu á gatnamótunum““. Það er alveg rétt að lítil hefð er fyrir orðinu ökukona þótt það sé sannarlega til í málinu – á tímarit.is eru tæp fjörutíu dæmi um það, hið elsta frá 1913. En þótt ökumaður sé vissulega orðið sem er venjulega notað í vísun til allra kynja táknar það ekki að orðið sé fullkomlega kynhlutlaust – a.m.k. sé ég yfirleitt fyrir mér karlmann þegar það er nefnt. Og notkun orðsins í textum sýnir að ég er ekki einn um það.

Á tímarit.is eru samtals 43 dæmi um orðasamböndin ökumaður(inn) (sem) var kona / kvenmaður og í Risamálheildinni eru samtals 22 dæmi um þessi sambönd. Aftur á móti eru aðeins sex dæmi um ökumaður(inn) (sem) var karl(maður) á tímarit.is og jafnmörg í Risamálheildinni. Það er sem sé margfalt algengara að tilgreina kyn ökumanns ef um konu er að ræða en ef karlmaður ekur. Líklegasta skýringin sem ég sé á því er sú að í huga margra málnotenda sé það sjálfgefið að ökumaður sé karlkyns og þess vegna þurfi venjulega ekki að taka það fram. Þegar kona er ökumaður er það frávik frá norminu og þess vegna frekar tekið fram. Þetta bendir til þess að orðið ökumaður sé fjarri því að vera kynhlutlaust í huga fólks.

Einhverjum gæti reyndar dottið í hug að þessi munur hefði ekkert með orðið ökumaður að gera, heldur stafaði einfaldlega af því að karlar ækju bílum mun meira en konur. Frávikið frá norminu sem ylli því að kynið væri tekið fram fælist þá í því að kona væri að aka, ekki í því að orðið ökumaður vísaði til konu. Þetta er vissulega hugsanlegt, en þá ætti sami munur að koma fram í öðrum orðum sömu merkingar, eins og bílstjóri. Um samböndin bílstjóri(nn) (sem) var kona / kvenmaður eru samtals tíu dæmi á tímarit.is og í Risamálheildinni – um bílstjóri(nn) (sem) var karl(maður) eru þrjú dæmi á tímarit.is en ekkert í Risamálheildinni. Tölurnar eru vissulega lágar en munurinn er miklu minni, og einnig rétt að hafa í huga að -stjóri er karlkynsorð.

Ég er nokkuð viss um að svipaðar niðurstöður fengjust við athugun á ýmsum samsetningum af -maður. En ég legg samt áherslu á að ég er ekki að leggja til að orðinu ökumaður verði ýtt til hliðar og kynhlutlaust orð fundið í stað þess, og ég er ekki heldur að leggja til að ökumaður verði framvegis eingöngu notað um karlmenn en lífi verði blásið í orðið ökukona og það notað í stað ökumaður um konur sem aka bílum. Ég er bara að benda á að sú tilfinning margra að orðið maður og samsetningar af því hafi sérstök tengsl við karla í huga málnotenda er ekki ímyndun eða uppspuni heldur birtist hún áþreifanlega í málnotkun fólks. Andstaða við notkun þessara orða í almennri vísun er því skiljanleg, en engin einföld leið til breytinga er í augsýn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fámennur kúastofn

Um daginn var hér spurt hvort til væri lýsingarorð sambærilegt við fámennur „sem nær yfir aðrar tegundir en mannskepnuna?“. Fyrirspyrjanda fannst til dæmis fámennur kúastofn ekki hljóma gáfulega, enda er rótin -menn- í seinni hluta orðsins sú sama og í orðinu maður og fámennur er skýrt 'með fáu fólki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það má samt finna dæmi um að fámennur stofn sé notað um annað en fólk. Í Þjóðviljanum 1965 segir t.d.: „þó þykir það alltaf nokkrum tíðindum sæta ef ernir sjást utan varpstöðvanna sökum þess hve fámennur stofninn er orðinn.“ Í Degi 1994 segir: „Ríkið veitir geitaeigendum styrk til að halda um 200 geitur í landinu en skyldleikaræktun skapar vandamál í svo fámennum stofni.“

Þótt þessi dæmi hljómi kannski óeðlilega í eyrum flestra eru þau í raun hliðstæð þeirri þróun sem hefur orðið í fjölda samsettra orða sem hafa slitnað að meira eða minna leyti frá uppruna sínum. Hér hefur oft verið tekið dæmi af orðinu eldhús sem er ekki lengur sérstakt hús (og oft ekki einu sinni sérstakt herbergi) og þar sem yfirleitt brennur ekki lengur eldur – orðið merkir bara 'staður þar sem matseld fer fram'. Það má alveg hugsa sér og er ekki ólíklegt að fámennur fari smátt og smátt að merkja 'með fáum einstaklingum' í stað 'með fáu fólki' og þessir einstaklingar geti verið bæði fólk og dýr, og jafnvel hlutir. Slík þróun væri hvorki einsdæmi né óeðlileg á nokkurn hátt, heldur dæmigerð fyrir það hvernig merking orða breytist iðulega.

Í umræðum var nefnt að hugsanlegt væri að tala um fáliðaðan kúastofn og þótt fáliðaður sé vissulega skýrt 'sem hefur fáa menn‘' í Íslenskri nútímamálsorðabók eru þess mörg dæmi að talað sé um fáliðaðan stofn ýmissa dýrategunda. Í umræðu um rjúpuna í Samvinnunni 1948 segir t.d. „sjálfsagt að vernda þann fáliðaða stofn, sem eftir var“. Í Tímanum 1950 segir um sama efni: „við vildum stuðla að því, að sá fáliðaði stofn, sem eftir var, fengi að vaxa upp sem fyrst.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Lífið í þýzku skógunum varð þessum fáliðaða stofni þvottabjarna sannkölluð paradís.“ Í Náttúrufræðingnum 2013 segir: „Skýringin á því er líklega nátengd fátæklegri fánu og tiltölulega fáliðuðum stofnum villtra spendýra.“

Í fornu máli eru orðin fámennur og fáliðaður ekki notuð um hópa, heldur um konunga eða aðra höfðingja og vísa til herafla þeirra – „Hergeir konungur var fáliðaður“ segir t.d. í einu handriti Hálfdanar sögu Eysteinssonar en í öðru handriti segir „Hergeir konungur var fámennur“. Það er ljóst að fáliðaður er komið lengra frá uppruna sínum en fámennur en síðarnefnda orðið er þó farið að fjarlægjast upprunann nokkuð ef vel er að gáð. Það er t.d. mjög algengt að tala um fámennan hóp fólks eða fámennan hóp manna en í raun og veru ætti fámennan hóp að vera nóg ef merkingin 'maður' er innifalin í fámennur. Tíðni sambandanna fámennur hópur fólks / manna bendir til þess að tengslin við maður séu eitthvað farin að dofna í huga málnotenda.

Posted on Færðu inn athugasemd

Notum viðeigandi málsnið

Í gær var hér spurt hvort orðalagið hvert er besta lagið með … og hvað er besta lagið með … væri jafngilt. Fyrirspyrjandi sagðist hafa fengið ábendingu um að það fyrrnefnda væri réttara, en sér fyndist það einhvern veginn stífara. Í umræðum kom líka fram hjá ýmsum að þeim hefði verið kennt að nota hvert í þessu samhengi, og í Málfarsbankanum segir vissulega: „Frekar skyldi segja hvert er (vanda)málið en „hvað er (vanda)málið“.“ Fornafnið hver, sem getur bæði verið spurnarfornafn og óákveðið fornafn, hefur þá sérstöðu að af því eru til tvær mismunandi myndir í nefnifalli og þolfalli eintölu í hvorugkyni, hvert og hvað, sem hafa með sér ákveðna verkaskiptingu. Sama gildir um samsetningarnar einhver og sérhver.

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir um verkaskiptingu myndanna hvert og hvað: „Í hvorugkyni eintölu er orðmyndin hvert notuð hliðstætt, þ.e. með nafnorði: Þetta veit hvert barn. Orðmyndin hvað er notuð sérstætt: Heyrðirðu hvað hann sagði?“ Við þetta má bæta því að þegar spurnarfornafnið tekur með sér fornafn eða nafnorð í eignarfalli er notuð myndin hvert hvert þeirra / barnanna gerði þetta?, ekki *hvað þeirra / barnanna gerði þetta?. Þetta er óumdeilt og ekkert flökt á notkun myndanna í slíkum tilvikum svo að ég viti. En í dæmum eins og hvert / hvað er besta lagið með … stendur spurnarfornafnið ekki beinlínis hliðstætt með nafnorðinu lagið þótt það vísi vissulega til þess – sögnin kemur þarna á milli.

Þess vegna er ekkert óeðlilegt að sérstæða myndin hvað sé oft notuð í slíkum setningum, enda er það raunin. Svo að vitnað sé í dæmi Málfarsbankans eru rúmlega 8.700 dæmi um hvað er málið? í Risamálheildinni en aðeins 33 um hvert er málið?. Gífurleg aukning varð í notkun sambandsins hvað er málið? upp úr síðustu aldamótum og þess vegna mætti halda því fram að það sé fast (tísku)orðasamband og ekki marktækt í þessu sambandi. Hlutföllin milli hvað er vandamálið? og hvert er vandamálið? eru líka vissulega miklu jafnari, en þó eru um 390 dæmi um fyrrnefnda sambandið en 150 um það síðarnefnda. Það er því enginn vafi á því að sambönd þar sem hvað er notað í samböndum eins og hvað er besta lagið eru góð og gild íslenska.

Það táknar ekki að ábending Málfarsbankans, eða það sem fólki hefur verið kennt, sé rangt. Það er vissulega rétt að hvert er besta lagið er formlegra en hvað er besta lagið, eins og fyrirspyrjandi nefndi, og hæfir því betur við ákveðnar aðstæður, í ákveðnu samhengi. En við aðrar aðstæður og í öðru samhengi á betur við að segja hvað er besta lagið. Þetta snýst sem sé ekki um „rétt“ eða „rangt“, heldur um málsnið – að nota það orðalag sem er við hæfi hverju sinni. Það er því miður mjög algengt að fólk líti svo á – fyrir áhrif kennslu og málfarsleiðbeininga – að formlegt málsnið sé hin eina rétta íslenska en óformlegt málsnið sé rangt. Þannig er það alls ekki – vandað mál felst ekki síst í því að nota viðeigandi málsnið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íþróttamaður ársins

Í síðustu viku var tilkynnt um niðurstöður í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Stundum hefur titillinn verið gagnrýndur á þeim forsendum að hann sé of karllægur vegna þess að orðið maður og samsetningar af því tengist karlmönnum meira en konum í huga margra. Þetta var m.a. til umræðu hér í hópnum fyrir tveimur árum og þá birti einn hópverja svar stjórnarmanns í Samtökum íþróttafréttamanna við bréfi um þetta mál. Stjórnarmaðurinn sagði „alveg rétt að þetta mætti vera betur í takt við tímann“ og „við munum taka þetta fyrir á næsta aðalfundi hjá okkur í vor með það í huga að breyta þessu“. Mér er ekki kunnugt um hvort tillaga um breytingu kom fram, en hafi svo verið hefur henni greinlega verið hafnað.

Vitanlega er það rétt sem oft er bent á að þótt orðið maður vísi oft til karla hefur það líka almenna merkingu – vísar til tegundarinnar sem við erum öll af, karlar, konur og kvár. En það breytir því ekki að orðið hefur oft karllæga slagsíðu, ekki síst þegar það er notað um tiltekinn einstakling eins og í tilviki íþróttamanns ársins. Þetta kom vel fram í kynningu á þeim tíu sem fengu flest atkvæði í kjörinu. Í þeim hópi voru fjórir karlar og sex konur. Karlarnir voru allir kynntir með samsetningu af -maðurknattspyrnumaður (tveir), handknattleiksmaður, sundmaður. Konurnar voru hins vegar allar kynntar með samsetningu af -konaknattspyrnukona (tvær), fimleikakona, sundkona, lyftingakona, kraftlyftingakona.

Þetta er fullkomlega eðlilegt og mér hefði fundist mjög óeðlilegt og hljóma undarlega ef t.d. hefði verið talað um Ástu Kristinsdóttur fimleikamann eða Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingamann. Þess vegna hljómar óneitanlega svolítið sérkennilega að tala um Íþróttamann ársins, Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu – en vitanlega hefði samt ekki gengið að kalla hana Íþróttakonu ársins. En Íþróttamaður ársins hefur verið kjörinn í nærri sjötíu ár og það er auðvitað ekki einfalt að breyta þessum titli, enda ekki augljóst hvað ætti að koma í staðinn – hugsanlega íþróttamanneskja, með vísun til þess að Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefur undanfarin ár valið manneskju ársins í stað manns ársins eins og áður var.

Óvíst er þó að því orði yrði vel tekið – í áðurnefndu bréfi sagðist stjórnarmaður í Samtökum íþróttafréttamanna „ekki hrifinn af orðinu manneskja“ og fyndist það „bara ljótt“, en hins vegar væri hægt að finna „eitthvað annað hlutlaust“, til dæmis íþróttahetja. Orðið íþróttamanneskja hefur þó eitthvað verið notað í sambærilegum titlum, t.d. hefur „íþróttamanneskja ársins“ verið kosin nokkur undanfarin ár í Borgarbyggð og Strandabyggð, og nú hafa Fjarðabyggð og Akranes bæst í hópinn og e.t.v. fleiri sveitarfélög. Hugsanlegt er að þessi notkun breiðist út þótt mér finnist orðið íþróttamanneskja ekki að öllu leyti heppilegt. Ég tel samt æskilegt að reynt verði að finna titil sem ekki er jafn karllægur og íþróttamaður ársins óneitanlega er.