Posted on

Að taka sér göngutúr

Í nýlegu innleggi í „Málvöndunarþættinum“ sagðist höfundur hafa heyrt ungling segja ég tók mér göngutúr í staðinn fyrir ég fór í göngutúr sem höfundur sagðist alltaf segja. Hann sagðist aldrei hafa heyrt þetta orðalag áður en vita að það væri „tekið upp úr amerísku“ en á breskri ensku væri það I had a walk sem væri ég fékk mér göngutúr á íslensku. Vissulega er sagt I took a walk í ensku, frekar amerískri en breskri, en þýðir það endilega að ég tók mér göngutúr sé komið úr ensku – og þótt svo væri, er það næg ástæða til að amast við því? Og hvað þá með ég fékk mér göngutúr – bendir eitthvað til þess að það orðasamband sé undir breskum áhrifum? Sögnin er önnur, en ekki hafa sem væri bein yfirfærsla, þótt vissulega merki have oft 'fá sér'.

En því fer fjarri að orðalagið taka sér göngutúr sé nýtt í íslensku. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Gjallarhorninu 1903: „við skulum taka okkur dálítinn göngutúr úti undir berum himni.“ Þetta dæmi, og annað í sama blaði ári síðar, er úr þýddri sögu og vitanlega gæti frumtextinn hafa haft áhrif á orðalagið, og sama gildir um nokkur dæmi úr vesturíslensku blöðunum sem ég sleppi að tilfæra. En það eru líka til fjölmörg gömul dæmi um orðalagið í textum frumsömdum á íslensku. Í Norðra 1912 segir: „Hann hafði tekið sér göngutúr einn úti.“ Í Alþýðublaðinu 1921 segir: „Ef þú, lesari góður, vilt taka þér göngutúr og hrista af þér miðbæjarrykið.“ Í Íþróttablaðinu 1928 segir: „Taki maður sér t.d. göngutúr snemma morguns um götur bæjarins.“

Sambandið fá sér göngutúr virðist vera álíka gamalt. Í Frækorni 1909 segir: „Hann fékk sér göngutúr til að hugsa um, hvað hann skyldi gera.“ Í Vísi 1911 segir: „Þessvegna legg jeg bókina frá mjer á milli og fæ mjer göngutúr úti í skóginn.“ Í Vísi 1913 segir: „Hvað er gagnlegra en að fá sjer „göngutúr“ suður í Sundskála.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Og vart mun höfuðstaðarbúum annað hollara en fá sér göngutúr á fögru sumarkveldi.“ Um þetta samband gildir svipað, að mörg dæmi eru úr þýðingum, en sum einnig úr textum frumsömdum á íslensku. Einnig er talað um að ganga sér göngutúr – „Eg geng mér göngutúr á hverju kvöldi“ segir í Gjallarhorninu 1911; „þá gekk hann […] langan göngutúr“ segir í Læknablaðinu 1916.

Sögnin fara sést ekki með göngutúr fyrr en í Þrótti 1919: „Til þess að prófa nýtízkuferðalag fór eg […] þriggja daga göngutúr í sumar.“ En það samband sem nú er algengast, fara í göngutúr, kemur fyrst fyrir í Verkamanninum 1928: „A. fer í göngutúr út úr bænum kl. 9 í fyrramálið.“ Í Ljósberanum 1932 segir: „eldri börnin áttu að fá að fara í göngutúr langt út í skóg.“ Í Ungherjanum 1936 segir: „Á sumrin […] er oft farið í göngutúra og skógartúra á sunnudögum.“ Ef marka má tímarit.is virðist þetta samband ekki hafa orðið ýkja algengt fyrr en eftir 1980 þegar tíðni þess margfaldast á fáum árum. Sambandið fá sér göngutúr hefur verið algengt allan tímann, en taka sér göngutúr var fremur sjaldgæft á seinni hluta tuttugustu aldar.

Í Risamálheildinni sem sýnir málnotkun á tuttugustu og fyrstu öld er fara í göngutúr langalgengasta sambandið – um það eru meira en níu þúsund dæmi. Dæmin um fá sér göngutúr eru tæplega 1350, og um taka sér göngutúr rúm 950. Það er margfalt hærra hlutfall en á tímarit.is og bendir til þess að notkun sambandsins fari mjög í vöxt en talsverður meirihluti dæma um það er úr óformlegu máli samfélagsmiðla. Það er sem sé ljóst að taka sér göngutúr er a.m.k. 120 ára gamalt í málinu og þótt það kunni að vera tilkomið fyrir áhrif þýðinga hefur það auðvitað unnið sér hefð í íslensku. Hitt er líka nokkuð ljóst að aukna notkun þess á síðustu árum má rekja til enskra áhrifa – er það næg ástæða til að amast við því? Þið metið það bara.