Posted on

Hvað merkir „fara á svig við alþjóðalög“?

„Aðgerðir Bandaríkjamanna í Caracas, höfuðborg Venesúela, í nótt fóru á svig við þjóðarrétt og alþjóðalög að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra“ segir á mbl.is. En hvað merkir fara á svig við? Í fornu máli hafði sambandið bókstaflega merkingu, 'sveigja hjá, krækja fyrir' og í Íslenskri orðabók er ganga á svig við eitthvað skýrt 'fara í sveig fram hjá e-u, forðast e-ð' – sama máli gegnir um Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924 þar sem fara, ganga á svig við eitthvað er skýrt 'gaa uden om, søge at undgaa n-t'. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefin yfirfærð merking sambandsins og nokkuð afdráttarlaus – þar er beinlínis sagtfara á svig við sannleikann merki 'segja ekki satt'.

Bókstafleg merking sambandsins var ennþá algeng á nítjándu öld – í Ísafold 1894 segir: „Þýzku hersveitirnar gengu tvöfalt og þrefalt á við hinar frönsku, […], fóru á svig við þær í langa króka og langt fram úr þeim.“ Í Dagskrá 1896 segir: „Við göngum á svig við tvo þrjá bestu veiðistaðina.“ En yfirfærð merking tíðkaðist einnig á þessum tíma – í Austra 1897 segir: „Það þarf til þess höfuð og hjarta í óvilhöllum manni, sem ekki er hræddur við að halda uppi lögunum, og lætur ekki múta sér til þess að fara á svig við þau.“ Í Þjóðólfi 1898 segir: „Er veiting þessi ný sönnun þess, hvernig stjórnin gengur á svig við menntastofnanirnar hér heima.“ Þarna er ljóst að fara á svig við merkir ‚sniðganga, líta fram hjá, taka ekki mark á‘.

Þegar talað er um að fara á svig við lög er stundum átt við að nýta sér einhverjar gloppur í lögum, ganga gegn anda laganna eða eitthvað slíkt. En oftast er samt beinlínis um það að ræða að lög eru brotin og þannig er það í þessu tilviki. Ég hef lesið færslur virtra lögfræðinga sem eru sammála um að aðgerðir Bandaríkjamanna í Venesúela séu skýrt brot á alþjóðalögum. Þá er spurningin hvaða merkingu utanríkisráðherra leggur í sambandið fara á svig við alþjóðalög. Á hún við að aðgerðirnar gangi gegn anda laganna, eða telur hún að alþjóðalög hafi verið brotin en veigrar sér við að segja það og notar þess í stað sambandið fara á svig við alþjóðalög sem eins konar skrauthvörf? Við eigum kröfu á að ráðafólk tali skýrt í alvarlegum aðstæðum.