Í framhaldi af pistli um þrettánda(nn) fór ég að hugsa um önnur tilvik þar sem greinir er ýmist notaður eða ekki. Í mörgum sérnöfnum, svo sem staða- og fyrirtækjaheitum, er greinirinn fastur hluti af heitinu – Melabúðin, Morgunblaðið, Skeifan, Forlagið, Kaffifélagið, Norræna húsið o.s.frv. Það er í flestum tilvikum útilokað, eða a.m.k. mjög skrítið, að nota þessi heiti án greinis þegar talað er um þau. Við segjum yfirleitt ekki allt fæst í Melabúð, hann er blaðamaður á Morgunblaði, hún vinnur í Skeifu, Forlag gefur bókina út, ég sat lengi á Kaffifélagi, bókasafnið í Norræna húsi er gott. Auðvitað er hægt að segja þetta allt saman en orðin sem um ræðir eru þá ekki skilin sem sérnöfn heldur samnöfn – og væru þá ekki með stórum staf í rituðu máli.
En þótt greinirinn sé skyldubundinn þarna er það ekki algilt í þessum heitum. Ef þau eru notuð í forsetningarlið, með samböndum sem vísa til áfangastaðar og eru sett saman úr atviksorði sem táknar stefnu, eins og upp/niður/inn/út o.fl., og forsetningu, yfirleitt í eða á, þá er hægt að hafa þau án greinis. Í DV 2011 segir: „Það má stundum sjá mig hlaupa út í Melabúð eftir grilluðum kjúkling.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Um jólin 2002 mætti ungur tónlistarmaður upp á Morgunblað.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Ég tók strætisvagn númer þrjú áleiðis upp í Skeifu.“ Í Kjarnanum 2020 segir: „hann er búinn að vera að mæta niður á Kaffifélag.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „fulltrúar Besta flokksins örkuðu út í Norræna hús.“
Sama máli gegnir þegar heitin eru notuð í forsetningarlið með samböndum sem vísa til dvalarstaðar og eru sett saman úr atviksorði sem táknar staðsetningu, eins og uppi/niðri/inni/úti o.fl., og forsetningu, yfirleitt í eða á. Í Fréttablaðinu 2007 segir: „fólk er farið að stoppa mig úti í Melabúð til þess að skrá sig á námskeið.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég tala nú ekki um þegar allt er orðið tölvuvætt eins og er að gerast niðri á Morgunblaði.“ Í Alþýðublaðinu 1990 segir: „Þá ákváðum við að taka sénsinn á að halda eina ólöglega veislu uppi í Skeifu.“ Í Stundinni 2019 segir: „Ég er líka með góða yfirlesara og fyrsta flokks ritstjórn uppi á Forlagi.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Ég er til dæmis alveg gáttaður á þessu leikriti úti í Norræna húsi.“
Í pistlinum um orðið þrettándinn nefndi ég að þegar verið er að tala um daginn sjálfan verður orðið að hafa greini, t.d. í dag er þrettándinn en ekki *í dag er þrettándi, en ef orðið er aftur á móti notað í forsetningarlið í tímaviðmiðunum er oftast eðlilegra að hafa það án greinis – fram á þrettánda, síðan um þrettánda o.s.frv. Mér finnst þessari verkaskiptingu mynda með og án greinis svipa svolítið til þess sem fjallað er um í þessum pistli. Þegar orðið er notað (oftast í nefnifalli) og verið að tala um staðinn eða fyrirtækið verður greinirinn að vera með, en þegar það er notað í forsetningarlið í vísun til áfangastaðar eða dvalarstaðar er eðlilegt að hafa það án greinis. En ég veit ekki hvort þarna eru einhver tengsl á milli – a.m.k. átta ég mig ekki á þeim.

+354-861-6417
eirikurr