Posted on

Um málfarsgrín í áramótaskaupi

Einhver ykkar hafa skilið afsökunarbeiðni sem ég setti inn í „Málspjall“ í gærmorgun þannig að ég væri að biðjast afsökunar á upphaflegum pistli frá því á nýársdag um málfarsfordóma í áramótaskaupinu. Svo er alls ekki – ég stend við allt sem segir í þeim pistli. Ég var að biðjast afsökunar á færslu sem ég setti inn, og tók svo út, um frétt um gagnrýni á áramótaskaupið. Einhver hafa skilið mig svo að ég telji að ekki hefði mátt gera grín að menntamálaráðherra yfirleitt – „Ef það má ekki gera grín að menntamálaráðherra og ambögunum sem hann lætur út úr sér, þá getum við auðvitað bara lagt þetta niður“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson. En ég hef til dæmis ekkert við það að athuga að grín skyldi gert að ambögum í enskunni hjá ráðherranum.

Ástæðan fyrir því að mér fannst óviðurkvæmilegt að gera grín að málfari menntamálaráðherra er ekki sú að ekki megi gera grín að ráðafólki, heldur sú að það sem gert var grín að hjá honum voru ekki sérkenni á íslensku hans, engar „ambögur“, heldur eðlilegt mál tugþúsunda Íslendinga – mál sem elítan hefur áratugum saman notað til að gera lítið úr fólki og halda því niðri. Grínið beindist því ekki bara að ráðherranum, heldur einnig og ekki síður að öllu því fólki sem hefur mátt þola það að vera hætt og spottað fyrir að tala „rangt mál“ – mál sem það hefur alist upp við og því er eðlilegt. Þau sem aldrei hafa orðið fyrir slíku átta sig kannski ekki á því að það svíður undan þessu, en það var ljóst af umræðum að sum þekkja þetta af eigin raun.

Ég var ekki að krefjast ritskoðunar enda hef ég auðvitað ekkert vald til þess. Ég var bara að segja þá skoðun mína að málfarsfordómar af því tagi sem þarna birtust, og mörgum þykja sjálfsagðir og eðlilegir, séu engu betri en fordómar vegna fötlunar, kynhneigðar, hörundslitar, holdafars o.s.frv. – fordómar sem yfirleitt þykja ekki lengur við hæfi á opinberum vettvangi. Á Facebook og í einkaskilaboðum fæ ég iðulega þakkir frá fólki sem er jaðarsett í tungumálinu af ýmsum ástæðum fyrir að halda málstað þess á lofti. Þess vegna er mér slétt sama þótt ég sé kallaður húmorslaus „gamall skarfur“, talinn „fórnarlamb like-menningar“ sem ástundi dyggðaskreytingu, og vera það sem er skelfilegast af öllu – „woke“. Ég ætla að halda því áfram.