Fyrirsögnin „Leigubílstjórar kölluðu til lögreglu vegna hvors annars“ vakti athygli mína á mbl.is í dag, og einnig orðalagið „Tveir leigubílstjórar óskuðu eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna hvers annars“ í texta fréttarinnar. Þarna er í tveimur atriðum vikið frá málstaðli – því sem venjulega er talið „rétt mál“. Annað atriðið varðar notkun fornafnanna hvor og hver. Í Málfarsbankanum segir: „Óákveðna fornafnið hvor á við þegar rætt er um annan af tveimur“ og „Fornafnið hver á við þegar rætt er um einn af þremur eða fleirum.“ Þarna er innbyrðis ósamræmi í fréttinni – fornafnið hvor er réttilega notað í fyrirsögninni miðað við þetta, en í texta fréttarinnar er fornafnið hver notað þrátt fyrir að bílstjórarnir séu aðeins tveir.
Hitt atriðið þar sem vikið er frá málstaðli er fallið á hvor/hver og staða forsetningarinnar í samböndunum. Í Málfarsbankanum segir: „Orðin hvor og annar eiga ekki að beygjast saman. Orðið hvor á að standa í sama falli og gerandinn (venjulega í nefnifalli) en annar stendur nær aldrei í nefnifalli.“ Síðan eru tekin nokkur dæmi um þetta, m.a. „Þeir óku hvor til annars (ekki: „til hvors annars“)“ – forsetningin á sem sé að standa næst á undan orðinu sem hún stjórnar. Þetta dæmi er sambærilegt við dæmin í fréttinni nema þar er notuð forsetningin vegna en ekki til, en báðar stjórna eignarfalli. Í fyrirsögninni og fréttinni hefði því þurft að standa hvor vegna annars en ekki vegna hvors/hvers annars til að orðalagið samræmdist því sem talið er „rétt“.
Þegar málfar sem víkur frá málstaðli sleppur í gegnum nálaraugað á vefmiðlum er algengt, a.m.k. á mbl.is, að því sé fljótlega breytt og fært í viðurkennt horf – væntanlega ýmist vegna þess að starfsfólk miðilsins sjálfs veitir því athygli að þetta er ekki í samræmi við staðalinn, eða vegna utanaðkomandi ábendinga. En þetta orðalag hefur staðið óhaggað bæði í fyrirsögninni og texta fréttarinnar síðan upp úr klukkan hálf átta í morgun, eða í hátt í tólf tíma þegar þetta er skrifað. Það hlýtur að benda til þess að engin taki eftir orðalagi af þessu tagi, eða það trufli lesendur ekki neitt. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart – ég er nokkuð viss um að „ranga“ orðalagið er í góðu samræmi við málkennd meginþorra málnotenda en það „rétta“ alls ekki.
Þetta staðfestist í raun fyrir nokkrum árum í viðamikilli rannsókn sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stóðum fyrir, eins og ég hef áður skrifað um. Þar var fólk á öllum aldri beðið að leggja mat á ýmsar setningar, þar á meðal þeim líkar vel hvorum við annan sem er sambærilegt við hvor vegna annars og þeim líkar vel við hvorn annan sem er sambærilegt við vegna hvors annars. Verulegur hluti fólks í öllum aldurshópum taldi að fyrri setningin, sú „rétta“, væri annaðhvort „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“. Aftur á móti taldi yfirgnæfandi meirihluti fólks í öllum aldurshópum að seinni setningin, sú „ranga“, væri annaðhvort „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“, en mjög fáum fannst hún „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“.
„Ranga“ notkun sambandsins hvor annar má rekja alveg aftur á sextándu öld og í rannsókn sem Dagbjört Guðmundsdóttir gerði á notkun sambandanna fyrir tíu árum fann hún á áttunda þúsund dæma frá tuttugustu öld um „ranga“ notkun þess á tímarit.is. Í ljósi þess sem að framan segir má spyrja hvaða tilgangi það þjóni, og hvaða vit sé í því, að halda áfram að kenna málnotkun sem er greinilega í andstöðu við málkennd venjulegra málnotenda sem hina einu réttu, en telja almenna málnotkun „ranga“. Mín skoðun er sú að það geri ekki annað en rugla málnotendur í ríminu og eina vitið sé að taka hina „röngu“ notkun í sátt, við hlið hinnar „réttu“. Það er ekkert að því að málnotendur eigi val – íslenskan þolir það alveg.

+354-861-6417
eirikurr