Sterka sögnin bregða er með algengari sögnum málsins og hefur ýmsar merkingar eins og títt er um slíkar sagnir. Ein þeirra er 'verða hverft við, verða bilt við, kippast til' og í þeirri merkingu tekur sögnin þágufallsfrumlag sem vísar til þeirra sem bregður, eins og „Mér brá og stóð alveg stjarfur“ í Skessuhorni 2020. Í þessari merkingu kemur sögnin fyrir í fornu máli í samböndum eins og bregða í brún og bregða við. Í Laxdæla sögu segir: „Þá brá Guðrúnu mjög í brún um atburð þenna.“ Í Brennu-Njáls sögu segir: „Þeir Grímur og Helgi komu heim áður borð voru ofan tekin og brá mönnum mjög við það.“ Einnig kemur þessi merking fyrir í lýsingarhættinum brugðið – í Bárðar sögu Snæfellsáss segir: „Ekki sáu þeir presti brugðið um nokkuð.“
En á seinustu árum er sögnin í þessari merkingu farin að sjást í nýrri setningagerð þar sem hún hefur geranda og fær þar með merkinguna 'gera (e-m) bilt við, hverft við'. Í stað þess að hafa þágufallsfrumlag hefur hún þá nefnifallsfrumlag og þágufallsandlag, í setningum eins og „Ég fór á bak við hurð og ætlaði að bregða honum í góðu gríni“ í Fréttablaðinu 2013. Frumlagið vísar þá til þeirra sem gera einhverjum bilt við en þágufallsliðurinn hefur sama hlutverk og í hinni setningagerðinni þótt hér sé hann ekki frumlag heldur andlag. Þessi notkun sagnarinnar virðist vera nýleg – hún er hvorki nefnd í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 né síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar en er hins vegar gefin í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran að það sé „einkum í máli barna“ sem notkun bregða með nefnifallsfrumlagi og þágufallsandlagi komi fyrir. Svarið er frá 2002 og þetta bendir til þess að þessi notkun hafi verið nýjung á þessum tíma og aldur dæma á tímarit.is bendir til hins sama. Elsta örugga dæmið sem ég hef fundið um þessa notkun er í Fjarðarpóstinum 1991: „Bregða honum, því þá hrekkur hann í kút.“ Í Tímanum 1993 segir: „áhorfandinn [...] sér lítið annað en andlit söguhetjunnar og veit þá að nú á að bregða honum.“ Í DV 2006 segir: „Vargas ætlað að hjálpa rúmlega tvítugum frænda sínum [...] að losna við hiksta með því að bregða honum hressilega.“ Í DV 2010 segir: „Ég ætla ekkert að drepa hann – bara bregða honum smá.“
Í grein Guðrúnar segir enn fremur: „Sambandið að bregða einhverjum er vel þekkt, meðal annars í glímu, um að gera tilraun til að fella einhvern. Sambandið að láta einhverjum bregða merkir að 'láta einhvern hrökkva við', til dæmis ,,lét ég þér bregða?“ Þessum samböndum slær oft saman, einkum í máli barna, þannig að sagt er t.d. ,,ég ætlaði ekki að bregða þér,“ það er 'láta þig hrökkva við' eða ,,brá ég þér?“ 'lét ég þig hrökkva við'.“ Þótt aðrar merkingar sagnarinnar geti vissulega hafa haft áhrif þarna er engin nauðsyn að líta svo á að þarna sé samböndum að slá saman. Eðlilegast er að segja að sögnin bregða í tiltekinni merkingu sé að þróa með sér nýja setningagerð með bæði frumlagi og andlagi í stað eintóms frumlags.
Þarna er sem sé að verða til parið þér brá – ég brá þér. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að sögn sem hefur verið notuð án geranda komi sér upp geranda ef hægt er að hugsa sér einhvern slíkan, eins og auðvelt er í þessu tilviki. Allnokkur dæmi eru í málinu um sagnir sem ýmist eru notaðar með þágufallsfrumlagi án geranda eða nefnifallsfrumlagi sem táknar geranda og þágufallsandlagi, t.d. fénu fjölgaði – hann fjölgaði fénu. Sögnin bregða virðist vera að ganga inn í það mynstur. Einnig eru til sambærileg víxl þar sem nefnifallsfrumlag sem ekki táknar geranda verður að þolfallsandlagi þegar gerandi bætist við, t.d. garðurinn stækkaði – hún stækkaði garðinn. Sögnin streyma hefur nýlega bæst í það mynstur eins og ég hef skrifað um.

+354-861-6417
eirikurr