Í „Málvöndunarþættinum“ var tilfærð setningin „Síðar stigu tvær konur til viðbótar fram með ásakanir gegn leikaranum sem hefur ekki borið sitt barð síðan“ úr frétt í DV og spurt „Hvaða barð?“. Þetta er ekki óeðlileg spurning vegna þess að í venjulegri gerð orðasambandsins sem um er að ræða er notað orðið barr en ekki barð – sambandið bera ekki sitt barr er skýrt 'ná sér ekki aftur' í Íslenskri orðabók. Í fljótu bragði mætti því ætla að þarna hafi misskilningur eða misheyrn valdið því að notað sé rangt en hljóðlíkt orð, barð í stað barr – eða einfaldlega sé um prentvillu að ræða. En við nánari athugun kemur í ljós að málið er ekki endilega svo einfalt –umrætt orðasamband á sér forvitnilega sögu og er til í ýmsum myndum allt frá sautjándu öld.
Í kvæðum eftir séra Jón Magnússon frá miðri sautjándu öld segir: „þaðan af aldrei beið sitt barð“ og „Svo á holdinu aldrei barð sitt beið“. Í kvæði frá seinni hluta átjándu aldar segir: „Aldrei meir sitt biðu barð.“ Í kvæði eftir Benedikt Jónsson Gröndal frá því um 1800 segir: „En hvört minn fífill bíður barð.“ Í Safni af íslenzkum orðskviðum eftir Guðmund Jónsson frá 1830 segir: „Ég bíð aldrei mitt bar.“ Í Fróða 1882 segir: „að hann máske bíður aldrei sitt barð.“ Í Lögbergi 1906 segir: „og hefir aldrei beðið sitt barð síðan.“ Í Íslenskum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar frá því í byrjun tuttugustu aldar segir: „og beið Eiríkur eigi sitt barð síðan.“ Ekki verður betur séð en merkingin í þessum dæmum sé svipuð og í bera ekki sitt barr.
Undir lok nítjándu aldar hverfa dæmi um bíða sitt barð að mestu en sögnin bera kemur í stað bíða. Í Fjallkonunni 1893 segir: „Ekkjan ber aldrei barð sitt rétt upp frá því.“ Í Landskjálftum á Íslandi eftir Þorvald Thoroddsen frá því um 1900 segir: „fjölda margir munu aldrei bera sitt barð eða verða jafngóðir.“ Í Fjallkonunni 1900 segir: „síðan hefir Spánn aldrei borið sitt barð.“ Í Heimskringlu 1922 segir: „Og beri Alþjóðafélagið barð sitt eftir þetta.“ Í Heimskringlu 1943 segir: „Bar Rosseau-nýlendan ekki barð sitt eftir þetta.“ Í Heimskringlu 1946 segir: „Þó jafnvel þjóðirnar [...] reisi þeim nú í þakkarskyni níðstöng, munu Bandaríkin barð sitt bera.“ Dæmin þrjú frá tuttugustu öld eru öll úr vesturíslensku sem sýnir að þetta hefur varðveist lengur þar.
Nútíðarmynd sambandsins, bera ekki sitt barr, kemur fyrst fyrir í orðabók Björns Halldórssonar, Lexico Islandico-Latino-Danicum, frá síðari hluta átjándu aldar að því er Jón G. Friðjónsson segir í Merg málsins. En þar er reyndar notuð myndin bar – „Hann ber ekki sitt bar úr þessu“. Sama máli gegnir um öll nítjándu aldar dæmi á tímarit.is, það elsta í Skírni 1861: „bar ekki sitt bar hin næstu 100 ár.“ Myndin barr kemur ekki fyrir í þessu sambandi fyrr en í Heimskringlu 1909: „En eftir það kvaðst hann aldrei hafa borið sitt barr.“ Allmörg dæmi eru þó um myndina barr í öðru samhengi á tímarit.is frá síðustu áratugum nítjándu aldar, en fyrst hún kemur ekki fyrir í umræddu sambandi má spyrja hvort barr og bar sé endilega sama orðið.
Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er bar sérstakt flettiorð sem er skýrt 'fræ fífunnar' og 'frjóangi' en einnig sem 'barr' – þessar skýringar er einnig að finna í Íslenskri orðabók. Það er sem sé vel hugsanlegt að merking orðsins bar í bera ekki sitt bar sé ekki 'barr'. Í Merg málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Líkingin er dregin af barrtré sem fellir nálarnar.“ Mér finnst þetta ekki endilega líkleg skýring í ljósi þess að þegar sambandið kom fram voru engin barrtré á Íslandi. Auðvitað gæti þetta verið komið úr dönsku eða myndað út frá dönskum aðstæðum, en önnur skýring liggur þó beinna við – að bar merki þarna 'frjóangi' eða 'brumhnappur' – sem raunar er ein skýring myndarinnar barr í Íslenskri orðabók, með dæminu bera ekki sitt barr.
Hér eru komnar fjórar myndir sambandsins: bíða sitt barð, bera sitt barð, bera sitt bar, bera sitt barr – og sú fimmta, bíða sitt barr, kemur fyrir í kvæði eftir Stephan G. Stephansson: „Er hitnaði skap hans þá beið hann sitt barr.“ Reyndar eru samböndin langoftast höfð með neitun – bíða/bera ekki sitt barð/bar/barr. Spurningin er hvernig hægt sé að koma þessu heim og saman. Byrjum á sögninni sem er upphaflega bíða en verður síðar bera. Þegar sögnin bíða tekur þolfallsandlag merkir hún yfirleitt 'hljóta, fá, öðlast'. Það má því hugsa sér að bíða ekki sitt bar(r) merki 'bruma ekki', 'fá ekki frjóanga' eða eitthvað slíkt, og bera ekki sitt bar(r) hefur þá sömu merkingu – 'bera ekki brum', 'bera ekki frjóanga' eða eitthvað í þá átt.
Þá er eftir að skýra barð. Það orð getur haft ýmsar merkingar en engin þeirra sem er gefin upp í orðabókum virðist eiga við þarna. Eina skýringin sem mér kemur í hug er sú að barð hafi getað merkt það sama og bar(r). Kvæði Benedikts Jónssonar Gröndal sem áður var vitnað til og heitir „Heilsan“ finnst mér geta bent til þess: „Á haustin allir fíflar fölna / en furðuverk ei lítið er: / Þeir hljóta fyrst að sortna og sölna, / svo endurlifni þeirra fjer [þ.e. fjör]; / en hvört minn fífill bíður barð / blinduð skynsemi tvíla varð.“ Þarna virðist barð merkja bókstaflega 'fræ' eða 'frjókorn'. En hvað sem um þetta er, og hvernig sem tengslum mismunandi mynda orðasambandsins er háttað, virðist orðalag áðurnefndrar fréttar DV eiga fullan rétt á sér.

+354-861-6417
eirikurr