Eitt sinn var spurt á Vísindavefnum „Hvernig bregður maður einhverjum í þátíð?“ og með fylgdi skýringin: „Orðin að bregða einhverjum eru sjaldan notuð í þátíð. Hvað segir maður þegar maður er nýbúinn að bregða einhverjum? Ég bregðaði þér?“ Í svari Guðrúnar Kvaran segir: „Ein ástæða þess að þátíð er sjaldan notuð í annarri persónu eintölu er að sambandið þú brást mér merkir yfirleitt 'þú hefur svikið mig' og sambandið þú brást mér það er 'lést mér bregða' gæti valdið misskilningi.“ Þetta er í sjálfu sér rétt en hins vegar var ekki spurt um aðra persónu eintölu heldur fyrstu persónu sem ætti að vera ég brá þér. Það gæti vissulega misskilist líka – merkingin er augljóslega önnur í „Ég brá þér á sniðglímu og þú lást“ í Fálkanum 1965.
Það virðist þó vera rétt að í þeirri merkingu sem hér um ræðir er sögnin sjaldan notuð í þátíð – en hið sama gildir reyndar um nútíðina. Í nær öllum dæmum sem ég hef fundið um sögnina í hinni nýju setningagerð með nefnifallsfrumlagi og þágufallsandlagi stendur hún nefnilega í nafnhætti en ekki í persónuhætti. Þetta sést á notkunardæminu í Íslenskri nútímamálsorðabók – hættu að bregða henni sífellt – og í dæmum í fyrri pistli mínum um bregða. Örfá dæmi um persónuhátt má þó finna á samfélagsmiðlum, t.d. „Ég tek aldrei eftir því að hann sé sofandi fyrr en kennarinn bregður honum“ á Hugi.is 2009, „Hún brá honum illilega“ á Twitter 2014, og „Ef hún fer í fýlu þá bregður henni“ á Twitter 2016. En þetta eru algerar undantekningar.
Þótt sögnin bregða sé að þróa með sér nýja setningagerð og þar með bæta við sig merkingu virðist hún því ekki komin alla leið í þessu ferli – málnotendur geta notað hana á nýjan hátt í nafnhætti en af einhverjum ástæðum mun síður í persónuháttum. Vissulega gæti slík notkun valdið misskilningi vegna samfalls eins og áður er nefnt, en það er þó ekki nægileg skýring á þessum mun. Í fyrsta lagi er líka samfall í nafnhætti sem ætti þá eins að geta valdið misskilningi – ég reyndi að bregða þér getur merkt bæði 'ég reyndi að láta þér bregða' og 'ég reyndi að fella þig'. Í öðru lagi eru ótal dæmi í málinu um samfall beygingarmynda sem virðist ekki valda neinum vandræðum. Hugsanlega eru þarna bara eðlileg stig í þeirri þróun sem um er að ræða.
Um þátíðina bregðaði sem nefnd var í spurningunni á Vísindavefnum eru ýmsar munnlegar heimildir en mjög litlar skriflegar. Henni mun lengi hafa brugðið fyrir en líklega þó einkum í máli barna, bæði í merkingunni 'gera hverft við' og '(reyna að) fella' og e.t.v. fleiri merkingum sagnarinnar. Það er þó hugsanlegt að hún sé í seinni tíð fremur notuð í merkingunni 'gera hverft við' til að forðast samfall við merkinguna '(reyna að) fella' þannig að ég brá þér merki 'ég reyndi að fella þig' en ég bregðaði þér merki 'ég gerði þér hverft við'. Þetta er þó aðeins tilgáta en flest þeirra fáu ritmálsdæma sem ég hef um bregðaði virðast fremur hafa merkinguna 'gera hverft við' þótt stundum skorti samhengi til að skera úr um merkinguna með vissu.
Í Risamálheildinni eru aðeins tíu dæmi um myndina bregðaði en í þeim flestum er réttmæti hennar reyndar dregið í efa. Á Hugi.is 2007 segir: „ég fór þarna bakvið gaurinn og bregðaði? honum“ og í athugasemd segir: „bregðaði -> brá (sama hversu skringilega það kann að hljóma).“ Á Bland.is 2007 segir: „Hann bregðaði mér er eitt ljótasta orðskrípi sem ég hef heyrt.“ Á Bland.is 2011 segir: „þetta gæti vel verið vitlaust orðað hjá mér en bregðaði er allavega ekki til.“ Einnig eru fimm dæmi um lýsingarháttinn bregðað – á Bland.is 2015 segir: „Hann virðist hafa kitlað og gripið um upphandlegg hennar í framhaldi af því að hafa bregðað henni.“ Það er þó ekki að sjá að þessar myndir séu í verulegri notkun í máli fullorðinna – enn sem komið er.

+354-861-6417
eirikurr