Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvort hægt væri að nota lýsingarorðið háborinn í sambandinu til háborinnar fyrirmyndar. Fyrirspyrjandi bætti við: „Maður er svo vanur neikvæðri merkingu með þessu orðasambandi.“ Lýsingarorðið háborinn merkir bókstaflega 'ættgöfugur' og það er fyrsta skýring orðsins bæði í Íslenskri orðabók og Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Önnur skýring í síðarnefnda ritinu er 'uhyre stor' eða 'afarstór, afarmikill' með dæminu það er háborin skömm og sama dæmi er notað í Íslenskri orðabók. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er bókstaflega merkingin ekki nefnd og líklega horfin úr málinu – orðið kemur þar aðeins fyrir í samhenginu til háborinnar skammar sem er skýrt 'það er hneisa, það er skömm að því'.
Þegar háborinn hefur ekki bókstaflega merkingu er orðið alveg frá upphafi eingöngu notað í neikvæðu samhengi. Í Suðra 1883 segir: „slíkt er Íslendingum til háborinnar háðungar.“ Í Þjóðviljanum 1890 segir: „hann hafði áður [...] orðið sér til háborinnar vanvirðu.“ Í Heimskringlu 1894 segir: „En ég er frænda mínum gramur [...] fyrir það, að vera sá háborinn afturhaldsmaður.“ Í Ísafold 1901 segir: „vegabréfið mátti að hábornum skriffinskusið ekki senda meðal póstbréfa.“ Í Heimskringlu 1903 segir: „þar kemur fram eitt hið hábornasta!! skammarstryk, sem Greenwaystj. gerði.“ Í Freyju 1905 segir: „sulturinn kúgaði hann til hlýðni við háborinn níðing.“ Í Reykjavík 1910 segir: „það væri hin hábornasta svívirðing.“
Elsta dæmi um sambandið til háborinnar skammar er í Nýjum kvöldvökum 1906: „þetta er ykkur til háborinnar skammar.“ Nokkur önnur neikvæð lýsingarorð koma fyrir í þessu samhengi, einkum framan af – háðung og vanvirða hafa verið nefnd áður en fleiri má telja. Í Skeggja 1918 segir: „það er til háborinnar minkunnar fyrir þorpið.“ Í Sjómannablaðinu Víkingi 1949 segir: „umhverfi skólans er til háborinnar vansæmdar.“ Í DV 2000 segir: „hún er forráðamönnum menntamála á undanförnum áratugum til háborinnar hneisu.“ En nafnorðið skömm hefur þó alla tíð verið nær einhaft í þessu sambandi, og mjög algengt – á tímarit.is eru rúm tvö þúsund dæmi um til háborinnar skammar og í Risamálheildinni eru dæmin rúmlega þrjú þúsund.
En undir síðustu aldamót fór sambandinu til háborinnar fyrirmyndar að bregða fyrir. Elsta dæmi sem ég finn um það er í auglýsingu í Morgunblaðinu 1992: „Hollí – til háborinnar fyrirmyndar ...“ Í DV 2002 segir: „Þórir [...] sagði framkomu og umgengni keppenda hafa verið til „háborinnar fyrirmyndar“ eins og hann orðaði það.“ Í Morgunblaðinu 2006 segir: „á heildina litið er þátturinn alveg til háborinnar fyrirmyndar eins og maðurinn sagði.“ Á Twitter 2009 segir: „Þess vegna er til háborinnar fyrirmyndar 🙂 að fjárlög skuli gera ráð fyrir 5 milljarða „ófyrirséðum útgjöldum“.“ Samhengið, og broskallinn í síðasta dæminu, bendir til þess að sambandið sé þarna fremur notað í gamansemi en í fullri alvöru. En það er kannski að breytast.
Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Og svo er nostalgían kringum Brynju-ísinn vitaskuld óviðjafnanleg og til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „við smökkuðum jafnframt á lambaskanka sem var til háborinnar fyrirmyndar.“ Í DV 2018 segir: „Kvikmyndataka, stíll og sérstaklega tónlist er til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þetta var svakalega flott hjá honum og eiginlega bara til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „Eldhúsið er einstaklega glæsilegt og efnisvalið til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Vísi 2021 segir: „Varnarleikur ÍR-inga afleitur en hittni heimamanna til háborinnar fyrirmyndar.“ Í Morgunblaðinu 2022 segir: „stuðningurinn sem bæði lið fengu var til háborinnar fyrirmyndar.“
Ég sé ekki annað en þessi dæmi, og flest önnur nýleg dæmi um til háborinnar fyrirmyndar, séu í fullri alvöru þótt vitanlega sé oft erfitt að meta það. Það er ljóst að sambandið hefur breiðst mikið út á síðustu árum – alls eru rúm 160 dæmi um það í Risamálheildinni, þar af rúm 60 sem eru ekki af samfélagsmiðlum. Vitanlega er bókstafleg merking orðsins háborinn fremur jákvæð en neikvæð og þess vegna má svo sem halda því fram að það sé ekkert óeðlilegt að nota það með jákvæðu orði eins og fyrirmynd. En í þessu tilviki er þó ljóst að í heila öld var orðið nánast eingöngu notað í sambandinu til háborinnar skammar og það er almennt séð óæskilegt að hrófla við föstum orðasamböndum. Þess vegna er til háborinnar fyrimyndar óheppilegt orðalag.

+354-861-6417
eirikurr