Posted on

Að strengja eða setja sér áramótaheit

Nýlega var spurt í „Málspjalli“ hvort fólk væri hætt að strengja áramótaheit – hvort allt eins mætti setja sér áramótaheit „eins og mér finnst flestir gera í dag“ sagði fyrirspyrjandi. Því er til að svara að þótt seinna sambandið hafi vissulega rutt sér til rúms á seinustu árum fer því fjarri að hið fyrrnefnda sé horfið úr málinu. Í Risamálheildinni er vel á níunda hundrað dæma um strengja áramótaheit en rúm þrjú hundruð um setja sér áramótaheit. Orðið áramótaheit sem er skýrt 'heit sem strengt er í upphafi árs, t.d. um bætt líferni' í Íslenskri nútímamálsorðabók er reyndar ekki gamalt í málinu og er t.d. hvorki að finna í Íslenskri orðabókRitmálssafni Orðabókar Háskólans. Elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1959.

Næstelsta dæmið um orðið, í Degi 1962, fellur vel að áðurnefndri skýringu: „Væri það ekki verðugt áramótaheit, að bragða ekki vín árið 1963?“ Sambandið strengja áramótaheit sést fyrst í Vísi 1970: „þess vegna skulum við bara herða upp hugann, enda sá tími kominn, að menn fara að strengja sín áramótaheit.“ Nokkru síðar er svo farið að grennslast fyrir um áform fólks – í Dagblaðinu 1978 segir: „Dagblaðið ræddi við nokkra þeirra og spurði [...] hvort þeir ætluðu sér að strengja einhver áramótaheit.“ Í Vísi 1980 er spurt: „Ætlarðu að strengja áramótaheit?“ Í DV 1982 er spurt: „Strengdir þú eitthvert áramótaheit?“ Í Tímanum 1982 segir: „Eflaust hafa mörg ykkar strengt áramótaheit.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Margir strengja áramótaheit.“

Sambandið verður algengt á níunda áratugnum, en í upphafi þess tíunda fer sambandið setja sér áramótaheit einnig að sjást. Í Alþýðublaðinu 1991 er spurt: „Seturðu þér áramótaheit?“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Skokkhópurinn [...] setur sér áramótaheit.“ Í DV 1997 segir: „Það eru mjög margir sem setja sér áramótaheit.“ Í DV 1999 segir: „Ég hef nú bara aldrei sett mér áramótaheit.“ Upp úr því verður sambandið algengara – stöku sinnum er þó talað um heit í stað áramótaheit en þá í tengslum við áramót. Í DV 1999 segir: „Þessi áramótin hef ég ákveðið að setja mér heit.“ Í Austurglugganum 2012 segir: „Margir nota nýtt ár, nýtt upphaf til að setja sér heit um breytta hegðun.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Margir setja sér heit um áramót.“

Annað orð sömu eða svipaðrar merkingar er nýársheit sem er mun eldra þótt það sé ekki að finna í helstu orðabókum – elsta dæmi um það er í Þjóðviljanum 1888: „Og séu efndirnar bornar saman við hin árlegu nýársheit.“ Í Lögbergi 1904 er elsta dæmið um að strengja nýársheit – „Eins og allt gott fólk, höfum við strengt fallegt nýársheit.“ Framan af var orðið eingöngu notað í vesturíslensku blöðunum en um miðja öldina var farið að nota það í íslenskum blöðum, einkum eftir 1970. Um miðjan níunda áratuginn náði áramótaheit þó yfirhöndinni og hefur verið mun algengara síðan og er ellefu sinnum algengara í Risamálheildinni. Einstöku dæmi eru um setja sér nýársheit – í DV 2015 segir: „Emma var niðurlægð og setti sér nýársheit um að grenna sig.“

Sambandið strengja heit er auðvitað ævagamalt í málinu og það er vissulega hægt að halda því fram að það sé óæskilegt að breyta því og fara að nota aðra sögn með nafnorðinu heit sem er skýrt '(hátíðlegt) loforð' í orðabókum. Stundum var reyndar líka talað um að vinna áramótaheit/ nýársheit – í Morgunblaðinu 1986 segir: „Um áramót er það nokkuð algengt að fólk vinni áramótaheit.“ En þegar strengd voru heit var það jafnan gert opinberlega og yfirleitt auglýst vandlega, jafnvel með því að stíga á stokk – „Oddur stígur þá á stokk og strengir þess heit, að hann skal vís verða, hver konungur er í Görðum“ segir í Örvar-Odds sögu; „Rís upp með fjöri, stíg á stokk / og streng þess heit að rjúfa ei flokk“ segir í kvæði séra Friðriks Friðrikssonar.

Hins vegar eru áramótaheit/nýársheit nokkuð sérstök tegund heita – þau eru ekkert endilega opinber heldur ekki síður algengt að fólk haldi áramótaheitum sínum fyrir sig. Þau eru eiginlega fremur markmið sem fólk setur sér en loforð þótt auðvitað megi segja að fólk sé að lofa sjálfu sér einhverju. Sambandið setja sér markmið er gamalgróið, a.m.k. síðan í byrjun tuttugustu aldar, og ekkert óeðlilegt að sú setningagerð hafi áhrif á orðið áramótaheit og farið sé að tala um setja sér áramótaheit – stöku sinnum kemur reyndar líka fyrir strengja sér áramótaheit. Þegar við bætist að sambandið strengja áramótaheit er ekki nema 10-20 árum eldra en hitt er ljóst að engin ástæða er til að amast við því að tala um að setja sér áramótaheit.