Í Facebook-færslu um daginn skrifaði Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir: „Hvers vegna eru ekki öll heimili með bidet (íslensk þýðing óskast) eða bidet úðara tengdan við klósettið?“ Mörg tóku undir þessa færslu sem vakti svo mikla athygli að Ugla var fengin til að ræða málið í „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni. Þetta væri auðvitað ekki viðfangsefni málspjalls nema vegna svigagreinarinnar „íslensk þýðing óskast“ – það vantar sem sé gott íslenskt orð um þetta fyrirbæri. Fyrirsögn viðtalsins á Vísi er „Ættu öll íslensk heimili að vera með skolskál – Bidet?“ og það orð hefur vissulega verið notað sem þýðing á bidet, t.d. í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi frá 1984 og í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.
Orðið skolskál er hins vegar ekki flettiorð í íslenskum orðabókum þótt það hafi lengi verið eitthvað notað – en í ýmsum merkingum. Elsta dæmi um það er í auglýsingu í Morgunblaðinu 1928, en það er þar í upptalningu á ýmsum vörum og útilokað að sjá hver merkingin er. En í elsta dæmi þar sem hægt er að átta sig á merkingunni, í Morgunblaðinu 1937, er hún greinilega ekki 'bidet': „Skálar þessar voru kallaðar „skolskálar“ hjer áður fyr og notaðar í matarveislum greifanna þarna um slóðir. Þær voru látnar á borðið, og glösin fylt með vatni. Þegar greifinn gaf merki, tóku gestirnir hver sitt glas og supu á. Vatninu var þó ekki rent niður, heldur tóku nú allir að skola kverkarnar af miklum móð.“ Nokkrar aðrar merkingar koma líka fyrir í skolskál.
Í Árbók Tannlæknafélags Íslands 1942 segir: „Þyrfti þá að ætla tannlækninum sérstakt herbergi í skólahúsinu búið þeim tækjum, sem erfiðast er að flytja, t.d. [...] skolskál.“ Í Melkorku 1945 segir: „Þessari tegund vaska er auðvelt að breyta í tvöfaldan uppþvottavask með því að fella sérstaklega gerða skolskál úr ryðfríu stáli niður í skolpvaskinn á meðan þvegið er upp.“ Í Vikunni 1958 segir: „til hreinlætisauka eru á borðum skolskálar með sítrónusneiðum, svo að fólk geti skolað af fingrunum eftir máltíðina.“ Það er fyrst í auglýsingu í Íþróttablaðinu 1958 sem merkingin ‚bidet‘ kemur fram: „Hreinlætistæki, svo sem [...] Skolskálar (Bidets) [...].“ Þessi auglýsing var birt margsinnis í ýmsum blöðum og tímaritum fram um 1970.
Í þeim fáu dæmum sem finnast um orðið frá síðustu áratugum hefur það oftast merkinguna 'bidet' en þá oft greinilega talin þörf á að skýra það. Í Tímanum 1982 segir: „Skolskálar (bitet) munu ekki vera mikið keyptar en þó eitthvað.“ Í Morgunblaðinu 1989 segir: „Víða erlendis eru svokallaðar skolskálar (bidet) algengar, en þær virðast aldrei hafa fest fullkomlega í sessi hér á landi.“ Aðrar merkingar eru þó einnig í gangi. Í DV 1993 segir: „Þeir sitja við hringlaga borð og hafa við hlið sér skolskálar.“ Í Vikunni 2000 segir: „Sums staðar eru bornar fram litlar skálar með vatni til að fólk geti skolað fingur sína. Sumir kalla þetta skolskálar sem er fremur ljótt orð og á ekki við.“ En vegna þessarar margræðni orðsins er það tæpast heppilegt fyrir bidet.
Í Íðorðabankanum er þó að finna íslenska þýðingu á bidet – það er orðið klyftalaug. Þetta orð sást fyrst í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands 1985 en í DV 1995 sagði höfundur orðsins, Halldór Halldórsson prófessor, sögu þess. „Orðið klyftalaug er samsett úr orðinu klyftir (kvk., flt.), sem merkir „klof“, en hefir þó kurteislegri blæ. Það mætti því segja, að þetta væri skrauthverft orð. Síðari hluti orðsins, laug, merkir „bað“ eða öllu heldur „þvottatæki". Orðið klyftalaug ætti því engan að meiða og hefir þann kost að vera myndað á sama hátt og handlaug og mundlaug, þ.e. fyrri hluti orðsins táknar þann líkamshluta, sem þveginn er.“ Halldór taldi „klyftalaug vera smekklegra en rassbað, bossabað og önnur slík“ sem hann hefði heyrt um bidet.
Síðastnefndu orðin eru þess eðlis að varla er hægt að búast við mörgum dæmum um þau á prenti, en í Morgunblaðinu 1997 segir þó: „Eitt tæki, sem var þó nokkuð algengt fyrir áratug eða svo, er nú að mestu horfið. Það var kallað„bidett“, ýmist kallað á íslensku rassbað eða fótabað og var einkum ætlað konum til hreinlætis.“ En klyftalaug hefur ekki heldur náð fótfestu – engin dæmi eru um það á tímarit.is nema þau sem áður eru nefnd, í grein Halldórs um orðið og í orðalista í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands. Orðið klyftir er nánast óþekkt og hvort sem fólk þekkir það eða ekki virðist það ekki hafa „kurteislegri blæ“ en klof í huga málnotenda. Þetta er því dæmi um misheppnað nýyrði – og enn vantar gott íslenskt orð yfir bidet.

+354-861-6417
eirikurr