Stafsetning og læsileiki texta
Það er enginn vafi á því að séríslenskir bókstafir hafa talsvert tákngildi í sjálfsmynd Íslendinga. En skipta þeir einhverju máli fyrir þróun tungumálsins? Stafir eru bara tákn – þeir eru ekki tungumálið sjálft. Það er samkomulagsatriði hvaða form við notum til að tákna hljóð málsins. Íslendingar – og íslenskan – komust vel af án ð í 400 ár. Á fyrstu árum netsins var ekki hægt að nota íslenska stafi þegar tölvupóstur var sendur til útlanda. Þennan póst skrifaði ég t.d. snemma árs 1993:
Það var svo sem ekkert mál að venja sig á þetta. Flest lá tiltölulega beint við – maður skrifaði broddlausa stafi í stað broddstafa, d í stað ð, th eða bara t í stað þ, ae í stað æ og oe eða bara o í stað ö. Nú er oftast ekkert mál að nota íslensku í tölvupósti og yfirleitt á netinu, en það er þó ekki alveg einhlítt. Íslensku stafirnir eru ekki heldur alltaf til taks í símum. En yfirleitt vefst ekkert fyrir manni að skrifa eða skilja texta án þeirra þótt vissulega geti komið upp vafamál í túlkun einstöku sinnum. En þýðir þetta að íslensku stafirnir séu óþarfir, og við gætum losað okkur við þá án þess að það ylli nokkrum vandkvæðum? Það myndi vissulega leysa ýmis vandamál og koma í veg fyrir alls konar umstang og kostnað. En hefði það einhver áhrif á þróun málsins?
Það má halda því fram að stafsetning sé límið í íslenskri málsögu. Stafsetningin er íhaldssöm og eltir ekki ýmsar hljóðbreytingar sem verða í töluðu máli. Gott dæmi um þetta er broddur yfir sérhljóðstáknum sem táknaði langt hljóð í fornu máli eins og gert var ráð fyrir í tillögum Fyrsta málfræðingsins. Síðan hefur sérhljóðakerfi málsins breyst í grundvallaratriðum og brodduð og broddlaus sérhljóðstákn standa nú ekki lengur fyrir löng og stutt afbrigði sömu hljóða, heldur tvö ólík hljóð – brodduðu táknin oft fyrir tvíhljóð. Þetta truflar okkur ekkert og fæstir vita nokkuð af því; en það leiðir til þess að við getum lesið mörg hundruð ára gamla texta þótt sumir þættir tungumálsins hafi í raun gerbreyst.
Það er alþekkt að stafsetning getur haft veruleg áhrif á það hversu aðgengilegir textar eru fyrir almenning. Árið 1943 skrifaði Kristinn E. Andrésson grein í Tímarit Máls og menningar um lög þau sem Alþingi setti 1941 og bönnuðu að íslensk fornrit væru gefin út með annarri stafsetningu en „samræmdri stafsetningu fornri“. Kristinn sagði: „Engri erlendri þjóð dettur í hug að fylgja gamalli stafsetningu í nýjum útgáfum af klassiskum ritum fyrir almenning. Enskum útgefendum t.d. dettur ekki í hug að vera að fæla þjóð sína frá lestri á leikritum Shakespeares með því að prenta þau með úreltri stafsetningu.“
Í viðtali í Sunnudagsblaði Tímans 1966 var Árni Böðvarsson cand.mag. spurður hvort hann teldi að samræmd stafsetning forn fældi fólk frá lestri fornrita. Hann svaraði: „Það er ekkert efamál, að svo er. Ég tel, að öll slík rit, sem ætluð eru almenningi, ættu að vera í búningi nútímamáls, að því er tekur til stafsetningar og orðmynda.“
En það þarf ekki að leita til fornsagna. Fyrir nokkrum árum sköpuðust talsverðar umræður um minnkandi lestur á verkum Halldórs Laxness á Facebook-síðu Illuga Jökulssonar og bloggi Egils Helgasonar. Í þeim umræðum sagði útgefandi bókanna, Jóhann Páll Valdimarsson: „Lestur á verkum hans í skólum hefur skroppið mikið saman og við höfum gert könnun meðal kennara. Eitt af því sem ástæða er til að velta fyrir sér er hvort gefa eigi verk hans út með nútímastafsetningu fyrir skólana. Sú hugmynd fékk að vísu ekki mikinn stuðning meðal kennara og ég efast ekki um að mörgum þyki það helgispjöll en mín skoðun er sú að Laxness muni ekki lifa með nýjum kynslóðum nema stafsetning sé færð til nútímahorfs. Það hrökkva svo margir frá bókum hans vegna hennar.“
Nú hafa tvær af helstu skáldsögum Halldórs verið gefnar út með venjulegri stafsetningu til að auðvelda ungu fólki lesturinn. Þó er stafsetning Halldórs ekki svo verulega frábrugðin fyrirskipaðri skólastafsetningu. Hann skrifar svokallaða „breiða sérhljóða“ á undan ng og nk í orðum eins og lángur, leingi, laung; hann skrifar ekki tvöfaldan samhljóða á undan samhljóða, í orðum eins og skemtun, trygð, alt; og hann skrifar í einu orði ýmis sambönd sem eiga að vera í tvennu lagi samkvæmt stafsetningarreglum, s.s. einsog, uppá. Fáein atriði til viðbótar má tína til, en munurinn er sannast sagna ekki ýkja mikill. Ef hann nægir þrátt fyrir það til að fæla marga lesendur frá er auðvelt að ímynda sér að brottfall íslenskra stafa, þar með talinna broddstafa, hefði gífurleg áhrif.
Í umfjöllun Morgunblaðsins um „Tyrkjarán hið nýja“ 1992 var m.a. rætt við Baldur Jónsson prófessor sem þá var forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar. Þar segist Baldur óttast „að einhverjir landar okkar leggi til að stafirnir verði felldir úr íslensku máli þar sem það taki því ekki að leggja í kostnaðarsamar breytingar. „Slíkt myndi hreinlega umturna ásýnd íslensks ritmáls og smám saman gera okkur erfitt fyrir um lestur rita sem nú þegar hafa verið gefin út. Næsta skref gæti svo allt eins orðið tillaga um að leggja málið niður.“.“
Eins og áður segir er í sjálfu sér ekkert vandamál að láta bókstafi enska stafrófsins duga til að skrifa íslensku. Út af fyrir sig myndi það ekki breyta tungumálinu sjálfu – aðeins táknun þess og yfirbragði. En þetta myndi það leiða til þess að allir íslenskir textar fram að þeim tíma, allt frá fornmáli til 21. aldar, yrðu meira og minna óaðgengilegir fyrir þá sem ælust upp við hina nýju stafsetningu. Þetta hefði ófyrirsjáanleg áhrif á íslenska menningu og ryfi samhengið í íslenskri málsögu, en stafsetning er límið í henni eins og áður segir. Það má búast við því að róttækar breytingar yrðu á tungumálinu í kjölfar slíks rofs. Erum við tilbúin að taka þá áhættu?