Enskættað orðalag
Erlend orðasambönd hafa alla tíð streymt inn í málið og yfirleitt klæðst íslenskum búningi að mestu eða öllu leyti, í þeim skilningi að þau innihalda engin framandi hljóð, öll orðin í þeim eru oftast íslensk og beygjast á hefðbundinn hátt. Þau bera það því ekki með sér að þau séu erlend að uppruna og til að átta okkur á því þurfum við að þekkja þau í upprunamálinu. Lengi vel komu slík sambönd úr dönsku og margir minnast þess úr skólagöngu sinni að amast hafi verið við algengum orðasamböndum eins og fyrst og fremst, til að byrja með og fjölmörgum öðrum sem eru hluti af daglegu máli okkar. Nú fá þessi sambönd og önnur álíka að vera í friði víðast hvar nema helst í MR.
Nú eru dönskuslettur alveg fyrir bí, eins og einhvern tíma var sagt, og jafnvel talað um að friða þær. En enskan er yfir okkur og allt um kring, og engin furða að ýmis ensk orðasambönd laumist inn í íslensku. Eitt þeirra er eins og enginn sé/væri morgundagurinn sem er augljóslega íslensk gerð af orðasambandinu as if there were no tomorrow eða like there is no tomorrow. Þetta er ekki gamalt í málinu – elsta dæmið á tímarit.is er frá 2005, en á síðustu 10 árum hefur notkunin stóraukist. Ég kunni ekki við þetta samband í fyrstu en er farinn að venjast því og sé svo sem ekkert athugavert við það.
Önnur nýjung í málinu, greinlega ættuð úr ensku, er að segja sama hvað, án nokkurs framhalds eða skilyrðis. Þrjú dæmi frá þessu ári af tímarit.is:
- „Það er svo mikil gróska og samhugur hjá öllu þessu frábæra tónlistarfólki á Íslandi, að gera hlutina sama hvað.“
- „En ef náttúra er á annað borð til þá er hún eitthvað sem lætur ekki alveg að stjórn, á það til að sullast út fyrir, sama hvað.“
- „Mér finnst þetta ekki allt byggjast á því að búa til atvinnu sama hvað.“
Til skamms tíma hefði orðið að koma eitthvert framhald – sama hvað tautar og raular, sama hvað þú segir, sama hvað gerist, o.s.frv. Enginn vafi er á að þetta eru áhrif frá enska sambandinu no matter what sem einmitt er notað svona.
Enn eitt nýlegt orðalag sem er ættað úr ensku er að segja af ástæðu án þess að nokkurt ákvæðisorð – lýsingarorð eða fornafn – fylgi nafnorðinu. Þrjú nýleg dæmi af tímarit.is:
- „Þeir ungu leikmenn sem eru komnir í liðið núna eru þar af ástæðu.“
- „Lokið á salerninu er staðsett ofan á klósettinu af ástæðu en er ekki bara til skrauts.“
- „Við erum í kór af ástæðu, við viljum alltaf vera að syngja.“
Í íslensku hefur fram til þessa þurft að skilgreina ástæðuna eitthvað nánar – segja af góðri ástæðu, af ákveðinni ástæðu, af þeirri ástæðu o.s.frv. En í ensku er hægt að segja for a reason án nánari útskýringa og þaðan er þetta væntanlega komið.
Erlendur uppruni einn og sér er ekki gild ástæða til að amast við einhverju orðalagi, og þótt samböndin eins og enginn væri morgundagurinn, sama hvað og af ástæðu séu greinilega öll komin úr ensku finnst mér ástæða til að gera upp á milli þeirra. Fyrstnefnda sambandið hvorki breytir né útrýmir einhverju sem fyrir er í málinu – það má alveg segja að það auðgi málið. Í síðarnefndu samböndunum tveimur er aftur á móti verið að breyta hefðbundnu íslensku orðalagi að ástæðulausu. Betra væri að halda sig við hefðina.