Algengustu orðmyndir málsins

Hér að neðan er tafla þar sem 25 algengustu orðmyndir íslensks nútímamáls (einkum ritmáls) eru sýndar í fjórum fremstu dálkunum, samkvæmt fjórum heimildum – tíðnikönnun Ársæls Sigurðssonar 1940, Íslenskri orðtíðnibók 1991, Markaðri íslenskri málheild 2012 og Risamálheild 2020. Athugið að margar af þessum orðmyndum tilheyra fleiri en einu uppflettiorði og ekki er greint þar á milli. Þannig getur verið nafnháttarmerki, samtenging og forsetning; á getur verið forsetning, atviksorð, sagnmynd, og mynd af tveimur mismunandi nafnorðum; við getur verið forsetning og persónufornafn; o.s.frv.


Eins og sjá má eru nokkurn veginn sömu orðin á öllum þessum listum þótt innbyrðis röð þeirra sé svolítið breytileg; en , og, í og á eru alltaf í fjórum efstu sætunum. Þegar taflan er skoðuð sést glöggt að langflest orðin eru svokölluð kerfisorð, þ.e. orð sem hafa málfræðilegt hlutverk, sýna innbyrðis vensl orða í setningum – einkum samtengingar, forsetningar og hjálparsagnir, en einnig persónufornöfn og atviksorð. Ekkert nafnorð, lýsingarorð eða sögn, nema myndir hjálparsagnanna vera og hafa, er meðal þessara orða (þótt einhverjar orðmyndir sem tilheyra þessum flokkum hafi væntanlega slæðst með dæmum um á o.fl.).

Þessi orð eru nokkurn veginn óháð innihaldi textans, og eru þess vegna yfirleitt þau sömu hvaða íslenskur texti sem er skoðaður. Ef við greinum listann eftir orðflokkum og skoðum algengustu nafnorð, sagnir (að frátöldum hjálparsögnum) og lýsingarorð verður niðurstaðan allt önnur. Nafnorð eins og maður og ár, lýsingarorð eins og margur, mikill og góður, sagnir eins og koma, fara og segja eru reyndar alltaf mjög ofarlega, en eftir því sem farið er neðar í tíðnilistanum verða niðurstöðurnar ólíkari eftir textum vegna þess að þá fer umfjöllunarefnið að hafa áhrif á orðanotkun.

Í fimmta dálknum eru sýndar 25 algengustu orðmyndirnar í talmáli (samtölum) samkvæmt Íslenskum talmálsbanka (ÍS-TAL) sem safnað var til um síðustu aldamót. Athugið að efniviðurinn er þar ekki nema tæp 200 þúsund lesmálsorð. Orðmyndirnar eru að miklu leyti þær sömu og í ritmálinu, en þó eru þarna fimm orð sem ekki eru meðal algengustu orða ritmálsins og mega teljast dæmigerð talmálsorð – , bara, sko, svona, nei og hérna. Auðvitað eru ýmis fleiri orð bundin við talmál þótt þau komi ekki fram meðal algengustu orða hér, t.d. jæja. Takið líka eftir að og, í og á sem eru meðal fjögurra algengustu orðmynda í öllum ritmálskönnununum eru í sjötta til áttunda sæti í talmálinu.

Í aftasta dálknum eru svo til samanburðar sýndar 25 algengustu orðmyndirnar í fornu máli. Þessi listi er byggður á Íslendingasögum, Sturlungu, Heimskringlu og Landnámabók. Þetta eru að mestu leyti sömu orðmyndir og í nútímamálslistunum sem sýnir stöðugleik málsins. Fornafnið hann er þó mun ofar þarna sem skýrist af því að um frásagnarbókmenntir er að ræða. Þá eru forsetningarnar í og til álíka algengar að fornu en í nútímamáli er í fjórum til fimm sinnum algengari en til. Eina orðið á fornmálslistanum sem ekki er í hópi algengra orða í nútímamáli er neitunin eigi sem hefur að mestu leyti verið skipt út fyrir ekki. Ef tíðni þessara tveggja orða í fornu máli væri lögð saman yrði neitunin á svipuðum stað í röðinni og í nútímamáli.