Til varnar tilbrigðum
Í gær setti ég inn í hópinn Málspjall á Facebook vangaveltur um það hvenær föt yrðu að þvotti, og síðan aftur að fötum. Ég setti þetta svo sem aðallega inn mér og öðrum til gamans, en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Í þeim fjörugu umræðum sem spunnust út frá þessu kom nefnilega í ljós, eins og mig grunaði, að fólk dregur mörkin á mismunandi stöðum – sem þýðir að merkingin sem fólk leggur í orðið þvottur er dálítið mismunandi.
Og þegar að er gáð gegnir örugglega sama máli um mikinn fjölda algengra orða – orða sem við notum jafnvel á hverjum degi. Höskuldur Þráinsson gerði einu sinni könnun á því hvernig fólk skilgreindi jafn hversdagslegt orð og bolli og þá kom í ljós að því fór fjarri að fólk væri sammála um hvað helst skilgreindi bolla og um hvers konar hluti væri hægt að nota það orð.
Auðvitað er þetta einmitt það sem við er að búast ef við höfum í huga hvernig við lærum málið. Við lærum merkingu orða ekki af orðabókarskilgreiningum, heldur af því hvernig þau eru notuð. Það erum við sjálf, hvert fyrir sig, sem byggjum upp málkerfi okkar og málkunnáttu úr því hráefni sem málumhverfið lætur okkur í té – út frá meðfæddum hæfileikum okkar til málnáms.
Þegar við lærum nýtt orð komum við okkur upp hugmynd um grunnmerkingu þess, en ekki endilega nákvæma afmörkun. Þess vegna getur afmörkunin orðið svolítið öðruvísi en hjá þeim sem við lærum orðið af. Merkingarmunurinn er samt venjulega svo lítill eða léttvægur að við áttum okkur sjaldnast á honum – og þá sjaldan það gerist truflar hann okkur yfirleitt ekki.
Lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er sá að málið þolir ágætlega tilbrigði. Það þolir vel að málnotendur leggi ekki allir nákvæmlega sömu merkingu í orð, jafnvel þótt um algeng og hversdagsleg orð sé að ræða. Það þolir líka vel að stundum séu notuð mismunandi orð um sama fyrirbærið; að ýmis orð séu ekki beygð eins í máli allra; að sumar sagnir stýri ekki sama falli í máli allra; og að sum orð og hljóðasambönd séu borin fram á mismunandi hátt.
Málið sér um það sjálft að halda tilbrigðunum innan hæfilegra marka þannig að það geti gegnt hlutverki sínu sem samskiptatæki. Og rétt eins og við þurfum ekki að segja – og getum ekki sagt – að tiltekin merkingarleg afmörkun orðsins þvottur sé réttari en önnur þurfum við ekki heldur að segja að ein merking orðs sé réttari en önnur, ein beygingarmynd réttari en önnur, ein fallstjórn réttari en önnur, einn framburður réttari en annar. Málið plumar sig ágætlega án þess að tilbrigðum sé mismunað.