hliðiná

Nýlega var mér bent á að ungt fólk væri farið að nota hliðiná í stað sambandsins við hliðina á, t.d. ég stóð hliðiná henni, húsið er hliðiná búðinni. Ég hafði ekki tekið eftir þessu en slæðingur af dæmum finnst með gúgli og í Risamálheildinni eru 17 dæmi. Talsvert fleiri dæmi, 76 talsins, eru um við hliðiná, þar sem fyrri forsetningin heldur sér en nafnorðið og sú seinni renna saman. Slíkur samruni er vitaskuld fullkomlega eðlilegur í framburði en venjulega ekki viðurkenndur í ritmáli, þar sem reglan er sú að fara eftir uppruna – þótt stundum sé ritað oní, niðrí, uppí o.fl. samræmist það ekki ritreglum.

Elstu dæmin sem ég finn á tímarit.is um að hliðiná sé skrifað í einu lagi eru frá 1983 – í smásögu þar sem fjölmörg önnur dæmi eru um að sambönd sem eiga að vera í tvennu lagi samkvæmt stafsetningarreglum séu í einu orði, s.s. bakvið, inná, þarsem, einsog o.fl. Kringum aldamótin fer svo að sjást dálítið af dæmum um hliðiná, yfirleitt með við á undan. Ekki er ástæða til að ætla að sú fjölgun sýni einhverja breytingu á framburði þessa sambands eða tilfinningu málnotenda fyrir því, heldur ber hún væntanlega vott um að stafsetningarreglum sé ekki fylgt jafnstíft eftir.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um hliðiná eitt og sér er í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1998 þar sem bréfritari segir frá reynslu sinni af nýrri tegund strætisvagna: „Þegar hann svo lagði af stað sá ég strax eftir því að hafa ekki tekið eyrnahlífar með mér, þar sem ég hafði sest hliðiná vélinni.“ Auk áðurnefndra dæma í Risamálheildinni eru einstöku dæmi um það í blöðum og tímaritum frá allra síðustu árum að hliðiná sé notað á þennan hátt, sem sjálfstæð forsetning án við. Og þetta hefur líka sést í prentuðum bókum.

Í sjálfu sér er þetta mjög eðlilegt. Við höfum sérstakar forsetningar fyrir ýmiss konar afstöðu milli fólks og hluta – á, undir, yfir, hjá, við o.fl. Stundum er ekki til eitt orð fyrir einhverja afstöðu, heldur notað orðasamband, en það hefur þá tilhneigingu til að styttast eða renna saman eins og áður eru nefnd dæmi um – oná, niðrí, bakvið. Í þessu tilviki er um að ræða þriggja orða samband þar sem fyrsta orðið, við, er mjög áherslulítið í framburði og leggur í raun lítið af mörkum til merkingarinnar og því eðlilegt að það falli brott.

Það er ekki einsdæmi að forsetningar verði til á þennan hátt. Hér var áður nefnt bak við sem á að rita í tvennu lagi samkvæmt uppruna og er oftast ritað þannig, en eðlilegast væri að líta á sem eitt orð, forsetninguna bakvið. Sambandið hefur reyndar oft verið ritað í einu lagi – á tímarit.is eru hátt í 19 þúsund dæmi um bakvið, allt frá því snemma á 19. öld. Upprunalega er þetta þriggja orða samband, á bak við, þ.e. forsetning – nafnorðið bak – forsetning, og getur vissulega verið það enn, en hægt hefur verið að sleppa á frá því á 16. öld.

Annað dæmi má taka af forsetningunum sakir (einhvers) og sökum (einhvers), eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið. Í báðum tilvikum er upphaflega um að ræða nafnorðið sök í fleirtölu, annars vegar í þolfalli í sambandinu fyrir sakir (einhvers) og hins vegar í þágufalli í sambandinu af/fyrir sökum (einhvers). „Er og Grettir frægur maður fyrir sakir afls og hreysti“ segir í Grettis sögu; „því að eg er nú fyrir elli sökum til engis fær“ segir í Víga-Glúms sögu. Í fyrra tilvikinu fellur forsetningin fyrir brott á 13. öld, en elsta dæmi um brottfall af/fyrir á undan sökum er frá upphafi 14. aldar.

Enn eitt dæmi er handa. Sú forsetning er mjög algeng í nútímamáli en ekki til í fornu máli – þar er notaður forsetningarliðurinn til handa (einhverjum) þar sem handa er eignarfall fleirtölu af hönd. „Tekur Njáll nú upp goðorðið til handa Höskuldi“ segir í Njálu, og fjölmörg önnur dæmi eru í fornmáli um þetta samband. Nafnorðið hönd stýrir þá þágufalli eins og nafnorð gera í sumum tilvikum (dativus sympatheticus). En á 16. öld fellur forsetningin brott og eftir stendur aðeins handa, sem málnotendur fara þá að skynja sem forsetningu.

Það er því að sjá að málið sé að nota þessa sömu aðferð, að fella forsetningu framan af nafnorði, til að koma sér upp nýrri forsetningu, hliðiná. Það er auðvitað hægt að amast við þessari breytingu ef fólk vill og kalla þetta hina örgustu málvillu. Mér finnst þetta hins vegar bráðskemmtilegt dæmi um að íslenskan er sprelllifandi og getur jafnvel bætt orðum í hóp forsetninga sem venjulega er talinn lokaður orðflokkur. Þessi breyting á sér líka skýrar hliðstæður í tilurð forsetninga sem engum dettur í hug að hafa nokkuð á móti. Mér finnst að við eigum að taka hliðiná fagnandi.