Hjónaband hennar og mín
Í hópnum Málspjall á Facebook var nýlega spurt hvers vegna við segjum fyrir þína hönd þar sem þína er í þolfalli, en fyrir hennar hönd þar sem hennar er í eignarfalli, þótt setningafræðileg staða orðanna sé sú sama – bæði standa með nafnorðinu hönd. Ástæðan er sú að þína og hennar eru mismunandi tegundir fornafna. Þína er eignarfornafn og þau sambeygjast nafnorðinu sem þau standa með, þ.e. standa í sama kyni, tölu og falli – þína stendur í kvenkyni, eintölu, þolfalli, eins og hönd.
En eignarfornöfn eru bara til í fyrstu og annarri persónu, minn og þinn, en ekki í þriðju persónu (nema afturbeygða eignarfornafnið sinn sem ekki á við í þessu samhengi). Í þriðju persónu verðum við þess vegna að nota persónufornöfn í staðinn. En þau hafa aðra setningafræðilega eiginleika – persónufornafn sem stendur með nafnorði sambeygist því ekki, heldur stendur í eignarfalli sem stýrist af nafnorðinu og því segjum við hennar / hans hönd. Sama gildir um nafnorð – fyrir Jóns hönd / hönd Jóns, fyrir Guðrúnar hönd / hönd Guðrúnar, o.s.frv.
Þetta er samt ekki alveg einfalt eins og sést þegar við notum bæði þriðju og fyrstu eða aðra persónu saman með nafnorði. Við segjum vinur hennar og vinur minn, og þegar þessu er steypt saman til að tvítaka ekki nafnorðið myndi maður búast við vinur hennar og minn. Ýmsum finnst það eðlilegt, en mörgum virðist finnast eðlilegra að segja vinur hennar og mín – þó að öllum þyki væntanlega *vinur mín alveg ótækt. Í Fálkanum 1938 segir t.d.: „þjer getið þó hugsað yður hjónaband hennar og mín innan takmarka möguleikans“, og ýmis önnur dæmi má finna á netinu.
Þarna er ljóst að mín er ekki eignarfornafn – ef svo væri hlyti það að sambeygjast nafnorðinu og vera vinur minn og hjónaband mitt í dæmunum hér að framan. Hins vegar getur mín líka verið eignarfall af fyrstu persónu fornafninu ég, og það hlýtur að vera það sem um er að ræða í þessum dæmum. Öðru máli gegnir ef fyrsta persónan kemur á undan þeirri þriðju, nær nafnorðinu. Þá er stundum hægt – og verður í máli sumra – að nota eignarfornafn, þannig að vinur minn og hennar og hjónaband mitt og hennar er í góðu lagi, en *vinur mín og hennar og *hjónaband mín og hennar ótækt.
Það er því eins og sumum finnist ekki megi rjúfa samband nafnorðs og eignarfornafns – þegar persónufornafn (eða nafnorð) í eignarfalli er komið næst á eftir nafnorðinu sé ekki hægt að nota eignarfornafn þar á eftir eins og við væri að búast, heldur verði að halda áfram að nota persónufornafn í eignarfalli, mín. Málhafar voru spurðir um setningar af þessu tagi í rannsókninni „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“ og niðurstöður birtar í 2. bindi samnefndra bóka, bls. 267-270. Það kom í ljós að margir málnotendur höfnuðu báðum gerðum slíkra setninga, en dæmin með persónufornafni (hennar og mín) fengu heldur betri dóma en hin.