meðvirkur
Nýlega var ég spurður hvort réttara væri að segja meðvirkur kerfinu eða meðvirkur með kerfinu. Þetta er ekki alveg einfalt eins og ég komst að þegar ég fór að skoða sögu orðsins. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'standa með e-m á rangri braut vegna misráðinnar góðsemi eða ótta' og tekið fram að það sé „einkum um aðstandanda alkóhólista“. Skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'haldinn meðvirkni', en meðvirkni er 'hegðunarmynstur, t.d. hjá aðstandanda alkóhólista, þar sem hegðun og líðan aðstandandans stjórnast af áhrifavaldinum'. Í viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er orðið hins vegar þýtt sem medvirkende sem merkir fremur 'þátttakandi'.
Orðið meðvirkur er hvorki að finna í fyrstu útgáfu Íslenskrar orðabókar frá sama ári né annarri útgáfu frá 1983, en það er þó talsvert eldra – elsta dæmi sem ég finn um það er í blaðinu Hæni 1928 þar sem segir „Halldór Stefánsson er meðvitandi og meðvirkur í löggjöfinni um sitt embætti“. Í Verklýðsblaðinu 1932 segir „Í kommúnistaflokkunum eru það meðlimirnir, sem öllu ráða og allt skipulag flokksins miðað við það, að allir séu starfandi og meðvirkir um öll mál.“ Einnig er oft talað um meðvirka orsök. Í þessum dæmum er ljóst að meðvirkur merkir 'virkur', 'þátttakandi í', 'einn af', og sama máli virðist gegna um öll dæmi fram til 1990. Trúlegt er að orðið sé komið úr dönsku þar sem medvirkende merkir einmitt þetta eins og áður segir.
Fyrsta dæmi sem ég finn um þá merkingu sem nú er gefin í orðabókum er í Pressunni 1990, þar sem segir: „Sá eða sú sem giftist eða fer í sambúð með fíkli verður meðvirkur, en það þýðir einfaldlega að hann fer að styðja við fíknina og gera ástandið verra.“ Tveimur árum seinna er svo grein um áfengis- og fíknimeðferð í Morgunblaðinu sem hefst svo: „„Meðvirkni“ er eitt af nýyrðunum í tungumáli okkar og langt frá því að það hafi skipað sér fastan sess.“ Í eldri dæmum um meðvirkni á tímarit.is merkir það 'þátttaka', en frá 1990 er það alltaf notað í tengslum við áfengissjúklinga. Upp úr því fjölgar dæmum um bæði meðvirkur og meðvirkni mjög og nýja merkingin festist í sessi en sú eldri hörfar.
Þetta er skemmtilegt dæmi um orð sem hafa breytt um merkingu – að því er virðist án þess að við höfum tekið eftir því, og án þess að nokkur hafi amast við því. Ástæðurnar fyrir því að það gat gerst eru nokkrar. Í fyrsta lagi voru bæði lýsingarorðið meðvirkur og nafnorðið meðvirkni sjaldgæf, einkum það síðarnefnda – um það eru aðeins fjögur dæmi á tímarit.is fram til 1990, en um 80 um það fyrrnefnda. Dönsk áhrif voru líka orðin hverfandi þannig að merking medverkende í dönsku var málnotendum ekki ofarlega í huga. Á níunda áratugnum voru viðhorf til áfengissýki og annarra fíknisjúkdóma að breytast og umræða um þessi mál að aukast, og það kallaði á nýjan orðaforða. Þessi orð voru því strax mikið notuð í nýju merkingunni og það styrkti hana í sessi.
En komum aftur að upphafsspurningunni – hvort á að segja meðvirkur kerfinu eða meðvirkur með kerfinu? Lengst af var meðvirkur notað án þess að taka með sér nafnorð í aukafalli eða forsetningarlið – það var talað um meðvirka orsök, meðvirka ástæðu, meðvirka þátttakendur, meðvirka þjóðfélagsþegna, og einnig að vera meðvirkur í einhverju, meðvirkur um eitthvað o.s.frv. Elsta dæmi sem ég finn um meðvirkur einhverju(m) er í Lögbergi 1932 þar sem segir: „Það er eins og hinn andlegi, óforgengilegi líkami sé meðvirkur anda mannsins, þegar jarðneski líkaminn sefur og er meðvitundarlaus.“ En slík dæmi eru sárafá.
Elsta dæmi sem ég finn um að meðvirkur taki með sér forsetningarlið, meðvirkur með einhverjum, er í Tímariti hjúkrunarfræðinga 1997, þar sem segir: „Smám saman rann það upp fyrir mér að ég var orðin meðvirk með konunni.“ Þessi málnotkun breiddist svo ört út og um hana má finna fjölda dæma frá síðustu tveimur áratugum. Í Risamálheildinni er meðvirkur með einhverjum rúmlega sjö sinnum algengara en meðvirkur einhverjum. Aftur á móti verður nafnorðið meðvirkni að taka með sér forsetningarlið í þessari merkingu, meðvirkni með einhverjum. Ef notað er nafnorð í eignarfalli í staðinn, meðvirkni einhvers, er merkingin önnur – vísar til þess sem er meðvirkur en ekki þess sem meðvirknin beinist að.
Það er auðvitað mjög algengt að sami orðhlutinn (sama myndanið) sé bæði forliður í samsettu orði og forsetning eða atviksorð sem samsetta orðið tekur með sér. Þetta eru dæmi eins og eftirspurn eftir, áhugi á, aðlögun að, tillit til, umsókn um, viðbrögð við, yfirlit yfir, afskipti af, úrval úr, meðmæli með og mörg fleiri. Stundum er amast við þessari tvítekningu – Gísli Jónsson hafði t.d. ímugust á mörgum slíkum samböndum og skrifaði oft um þau í þáttum sínum í Morgunblaðinu. Stundum er vissulega hægt að komast hjá tvítekningunni en oftast verður samt merkingin önnur ef orðhlutanum er sleppt á öðrum hvorum staðnum.
Þyki fólki fara illa á tvítekningu er vissulega hægt að komast hjá henni með því að segja meðvirkur kerfinu, og dæmi um sambandið með nafnorði í aukafalli eru líka eldri en dæmin um forsetningarlið, þó dæmin séu reyndar svo fá að á þeim er lítið að byggja. Tvítekning er hins vegar óhjákvæmileg með nafnorðinu meðvirkni eins og áður segir, og hugsanlega væri heppilegt að nota hana þá líka með lýsingarorðinu. Það er þó ómögulegt að segja að annað sé réttara en hitt og á endanum er þetta smekksatriði.