Henni var byrlað
Notkun sagnarinnar byrla hefur verið að breytast upp á síðkastið. Nú er hún oftast notuð um þann svívirðilega verknað að lauma einhverju efni í drykk fólks, einkum ungra kvenna, til að valda sljóleika eða meðvitundarleysi og nýta það ástand síðan til að brjóta kynferðislega á þeim sem fyrir þessu verða. Í þessu samhengi er sögnin iðulega notuð án andlags, í setningum eins og einhver byrlaði henni og mér var byrlað. Þarna er þá undirskilið nafnorð eins og ólyfjan, eitur, eiturlyf, svefnlyf eða eitthvað slíkt. Þessi notkun er ekki gömul – elsta dæmi sem ég fann um hana í fljótu bragði er frá 2014 þótt væntanlega megi rekja hana eitthvað lengra aftur. En hlýtur ekki einhver merking að glatast þegar andlagi er sleppt?
Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 er fyrsta merkingin sem gefin er fyrir byrla 'skænke for og række en en Drik' og önnur merking 'blande forskellige Drikke sammen, komme n-t i en Drik, f. Eks. Gift'. Í Íslenskri orðabók, sem tekur mikið beint upp eftir Blöndal, er fyrsta merkingin 'hella á bikar' og önnur merking 'blanda' með notkunardæminu „byrla e-m eitur“. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er bara gefin merkingin 'gefa (e-m) (eitur)'. Notkun sagnarinnar byrla í jákvæðri eða hlutlausri merkingu virðist því vera horfin úr málinu að mestu eða öllu leyti, líklega fyrir nokkrum áratugum, og undanfarið hefur sögnin eingöngu verið notuð í sambandinu byrla eitur/ólyfjan eða eitthvað slíkt.
Þegar tiltekin orð koma oftast eða alltaf fyrir saman er eðlilegt að málnotendur fari að skynja þau sem merkingarlega einingu, þar sem orðasambandið í heild fær ákveðna merkingu í stað þess að merkingin sé summa af merkingu orðanna í sambandinu. Þannig er það með byrla – við þekkjum hana eingöngu með andlögum af mjög þröngu og afmörkuðu merkingarsviði. Þess vegna er hægt að stytta sambandið og sleppa andlaginu – merking þess færist þá eiginlega inn í sögnina. Við það bætist að venjulega er ekki ljóst hvað það var nákvæmlega sem fólki var byrlað – svefnlyf, deyfilyf o.þ.h. Með því að sleppa andlaginu komumst við hjá því að tilgreina það nánar. Annað dæmi af sama merkingarsviði er vera í neyslu. Þar er yfirleitt ekki tiltekið hvers er neytt – en við vitum að átt er við einhvers konar fíkniefni.
Nafnorðið byrlun er einnig notað án skýringar – grunur um byrlun, kært vegna byrlunar o.s.frv. Þetta er sjaldgæft orð, og er t.d. hvorki að finna í Íslenskri orðabók né Íslenskri nútímamálsorðabók, og ekki heldur í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, en það er þó ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Iðunni 1886, í grein um „lífs-elixír“: „Það varð að taka fleiri verkamenn, en byrlunina annaðist Hermann sjálfur.“ Hér hefur byrlun greinilega merkinguna 'blöndun'. Samsetningin eiturbyrlun er þó miklu algengari, og bæði orðin eru í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en þó aðeins í eintölu. Fleirtalan er samt til – í Heimsljósi Halldórs Laxness segir: „Í fjölskyldublaðinu Heimilinu voru einnig skráðar lángar frásagnir um bánkarán, innbrotsþjófnaði, eiturbyrlanir og dopulmorð.“
Þegar byrla tekur andlög eru þau yfirleitt tvö, það fyrra í þágufalli og það seinna í þolfalli – byrla henni eitur (þótt reyndar séu líka dæmi um tvö þáguföll, byrla henni eitri). Þegar slíkar setningar eru settar í þolmynd verður þolfallið að nefnifalli og ákveður kyn og tölu lýsingarháttarins. Þetta sést vel á öðrum sögnum sem taka þágufall + þolfall eins og gefa – einhver gaf henni bókina verður í þolmynd henni var gefin bókin þar sem gefin er kvenkyn eintala eins og bókin. Þegar einhver byrlaði henni ólyfjan er breytt í þolmynd ætti útkoman því að verða henni var byrluð ólyfjan – byrluð er kvenkyn eintala eins og ólyfjan. Þetta er vissulega algengt, en í Risamálheildinni er hvorugkynsmyndin byrlað hátt í það jafn algeng.
Sú mynd er auðvitað eðlileg ef um er að ræða hvorugkynsorð, henni var byrlað eitur – en hvers vegna er hún algeng með kvenkynsorðinu ólyfjan þar sem hún virðist ekki eiga heima? Líklegasta skýringin er sú að fyrir mörgum sé ólyfjan hvorugkynsorð – það eru til hvorugkynsorð sem enda á -an, eins og líkan. Önnur hugsanleg skýring – en langsóttari – er sú sem nefnd er hér að ofan, að andlagið með byrla sé oft ekki skynjað sem sjálfstæður setningarliður heldur eiginlega sem hluti af sögninni og missi þar með setningafræðilega stöðu sína sem andlag. En ef sögnin hefur ekki andlag þá hefur lýsingarhátturinn ekki neitt til að samræmast og kemur þá fram í hlutlausri mynd, sem er hvorugkyn eintala.
En hvað á að segja um setningar eins og þær sem nefndar voru í upphafi, þar sem byrla er notuð án andlags? Er þetta rétt mál? Hér hefur margoft verið vitnað í viðurkennda skilgreiningu á réttu máli og röngu – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju.“ Það er ljóst að þessi notkun byrla hefur ekki tíðkast fram undir þetta, en jafnframt er ljóst að notkunin hefur breiðst mjög út að undanförnu og er á hraðri leið með að verða málvenja margra, ef hún er ekki þegar orðin það. Þegar við bætist að um er að ræða mjög skiljanlega breytingu sem á sér fjölda hliðstæðna í málinu er tæpast ástæða til að berjast gegn henni. Í raun og veru var það miklu meiri breyting þegar byrla hætti að merkja 'blanda' og fór að merkja 'eitra fyrir'.