Leghafar og aðrir -hafar
Undanfarna daga hef ég séð á nokkrum stöðum á Facebook ótrúlegar umræður um orðið leghafi. Mörgum finnst þetta ljótt orð og um það er vitanlega þýðingarlaust að ræða, að öðru leyti en því að minna á að það tekur yfirleitt alltaf nokkurn tíma að venjast nýjum orðum. En þetta orð er a.m.k. rétt myndað og gagnsætt – -hafi merkir yfirleitt 'sem hefur eitthvað' og leghafi vísar því til fólks sem hefur leg. Annað orð sem stundum er notað er legberi og um það gildir allt hið sama og um leghafi.
Sá misskilningur er áberandi í umræðunni að orðið leghafi sé samheiti við kona og eigi jafnvel að leysa það orð af hólmi vegna einhvers pólitísks rétttrúnaðar. En það er fjarri sanni. Það eru ekki allar konur með leg. Sumar hafa undirgengist legnám og aðrar eru fæddar án legs, þ. á m. transkonur. Hins vegar er til fólk sem skilgreinir sig ekki sem konur en er samt með leg. Það getur verið kynsegin fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu, og einnig transkarlar sem ekki hafa farið í legnám.
Því er ljóst að leghafar geta verið kvenkyns, karlkyns og hvorugt, þ.e. skilgreint sig utan kynjatvíhyggju. Af þeirri ástæðu er fráleitt að halda því fram að þessu orði sé ætlað að koma, eða geti komið, í stað orðsins kona. Orðið leghafi er í raun íðorð, einkum ætlað til nota í læknisfræðilegu samhengi en ekki í almennu máli. Orðið var t.d. notað í vetur í tengslum við frumvarp heilbrigðisráðherra um skimunarskrá. Þar er m.a. fjallað um skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það segir sig sjálft að slík skimun tekur til fólks með leg, óháð kyni.
Þetta er því gagnlegt orð, en einungis í ákveðnu og þröngu samhengi og yfirleitt um hóp, tæpast um einstaklinga. En af einhverjum ástæðum virðist sumt fólk ekki skilja þetta, eða ekki vilja skilja. Þess í stað verða til langir þræðir af hneykslun þar sem fólk talar um hvað þetta sé óþarft og fáránlegt orð, og margar konur segja að þær vilji alls ekki nota það – eða láta nota það um sig. Vitanlega ræður fólk sjálft hvaða orð það notar en hæpið er að fólk geti hafnað því að um það séu notuð tiltekin íðorð sem ekki eru annað en skilgreining.
Í umræðunni hefur líka verið spurt hvers vegna ekki séu notuð sambærileg orð um karlmenn – ég hef séð orð eins og punghafi, eistnahafi, tittlingshafi, blöðruhálskirtilshafi og fleiri. Við því er það að segja að væntanlega hefur ekki verið þörf á þessum orðum hingað til, en auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að nota þau ef þörf krefur. Þau eiga það sameiginlegt með leghafi að þau geta vísað til fólks af fleiri en einu kyni. Ef teknar væru upp skimanir fyrir eistnakrabbameini eða krabbameini í blöðruhálskirtli væru viðkomandi orð gagnleg.
Orðin leghafi og legberi hafa verið notuð í greinum þar sem ráðist er á transfólk eða hæðst að því, og merking þeirra og notkun þar skrumskæld. Ég ætla ekki þeim sem amast við þessum orðum að vilja taka undir þá afstöðu sem fram kemur í þessum greinum, en með því að fordæma orðin er fólk samt að leggja lóð á vogarskálar þeirrar transfóbíu sem því miður virðist fara vaxandi. Gefum þessum orðum þegnrétt í málinu – þau hvorki spilla íslenskunni né smætta konur eins og stundum er haldið fram.