Hvað merkir auðmýkjandi?
Í gær birtist frétt á Vísi um val á fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum 2024 undir fyrirsögninni „Tilfinningin er auðmýkjandi“. Fyrirsögnin var innan gæsalappa og því sett fram eins og hún væri höfð orðrétt eftir listakonunni sem um ræðir, en þegar fréttin er lesin kemur í ljós að svo virðist ekki vera, því að það sem er haft eftir henni þar er „það er auðmjúk tilfinning sem fylgir því að hafa fengið að vera valin“. Fyrirsögnin virðist því vera umorðun Vísis, og hefur reyndar verið breytt í „Hildigunnur fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2024“. Væntanlega hafa verið gerðar athugasemdir við notkun lýsingarorðsins auðmýkjandi í upphaflegri fyrirsögn, enda er hún í ósamræmi við það sem hefur verið venja.
Sú málnotkunin er þó ekki einsdæmi eins og ég skrifaði um í pistli fyrr á árinu. Lýsingarorðið auðmýkjandi er upphaflega lýsingarháttur nútíðar af sögninni auðmýkja, og af sama stofni eru lýsingarorðið auðmjúkur og nafnorðið auðmýkt. Sögnin er skýrð 'gera lítið úr (e-m), vanvirða (e-n)' í Íslenskri nútímamálsorðabók en lýsingarorðið auðmjúkur er þar skýrt 'bljúgur og undirgefinn' og nafnorðið auðmýkt er skýrt 'það að vera auðmjúkur'. Það er því merkingarmunur á auðmýkja og auðmýkjandi annars vegar og auðmjúkur og auðmýkt hins vegar, en auðmýkjandi virðist vera að breyta um merkingu og færa sig yfir í flokk með auðmjúkur og auðmýkt. Það er svo sem ekki undarlegt að eitthvað slíkt gerist.
Í fyrri pistli mínum um þessi orð sagði ég: „Það er æskilegt að halda sig við málhefð og halda áfram að gera skýran greinarmun á auðmjúkur og auðmýkt annars vegar og auðmýkja og auðmýkjandi hins vegar.“ En málið er flóknara en ég hélt. Í fornu máli er sögnin auðmýkja (auðmýkva) sig afturbeygð og merkir samkvæmt Orbog over det norrøne prosasprog 'vise ydmyghed / underdanighed / velvilje', þ.e. 'sýna auðmýkt / undirgefni / hlýhug'. Þessa merkingu hefur sögnin a.m.k. stundum allt fram á 20. öld – „Hvað getur hrifið hjarta mannsins meira eða fremur komið því til að auðmýkja sig fyrir Drottni?“ segir í Norðanfara 1877. Þarna er merkingin 'sýna auðmýkt' fremur en 'lítillækka' þótt vissulega sé stutt á milli.
Sama virðist gilda um lýsingarháttinn/lýsingarorðið auðmýkjandi. Þannig segir í Lögbergi 1889: „Það er opt og tíðum ofur auðmýkjandi, hefur mjer fundizt, að vera maður.“ Í Kennaranum 1900 segir: „Hann fær þeim korn og skilar þeim aftur peningunum. Þotta göfuglyndi hans hefur auðmýkjandi áhrif á þá.“ Í þessum dæmum, og nokkrum fleiri frá svipuðum tíma, virðist auðmýkjandi fremur merkja 'gera auðmjúkan' en 'lítillækka'. En seint á 19. öld fara að sjást dæmi þar sem sögnin er ekki notuð afturbeygð og hefur greinilega merkinguna 'lítillækka', t.d. í Ísafold 1892: „þótt ekkert sjerstakt kæmi fyrir, gerðu menn sjer að skyldu að kvelja þá og pína og auðmýkja, sem mest mátti verða.“
Á 20. öld virðist auðmýkja og auðmýkjandi yfirleitt merkja 'gera lítið úr, vanvirða‘ og vera neikvætt þótt vissulega geti það oft verið túlkunaratriði, ekki síst þegar orðin eru notuð í tengslum við trúarbrögð. Sögnin auðmýkja hefur enn þessa neikvæðu merkingu í öllum tilvikum, held ég, en á síðustu árum eru farin að sjást dæmi um lýsingarorðið auðmýkjandi í jákvæðri merkingu, eins og í fyrirsögninni sem vísað var til í upphafi. Samkvæmt því sem að framan segir má halda því fram að orðið sé með þessu að hverfa aftur til upprunans og því er kannski ekki ástæða til að amast við þessari merkingarbreytingu þótt hún sé vissulega í andstöðu við þá merkingu sem orðið hefur venjulega haft í meira en heila öld.