Fiskari eða sjómaður?
Hneykslunaralda fer nú um samfélagsmiðla yfir því að „orðskrípið“ fiskari hafi verið sett inn í íslenska löggjöf í stað orðsins sjómaður. Þar er vísað í Lög um áhafnir skipa nr. 82/2022 sem tóku gildi nú um áramótin þar sem orðið fiskari kemur þrisvar fyrir og er skilgreint sem íðorð í orðskýringagrein laganna: „Fiskari er hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut.“ En í öllum tilvikum kemur fiskari í stað orðsins fiskimaður í eldri lögum, en ekki í stað orðsins sjómaður – síðarnefnda orðið kemur 25 sinnum fyrir í lögunum, reyndar mun oftar en í eldri lögum. Það er því alger misskilningur að það sé á einhvern hátt verið að hrófla við orðinu sjómaður í þessum lögum.
Í greinargerð með lagafrumvarpinu er útskýrt hvers vegna orðið fiskari er notað: „Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er markmið þess að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum. Í frumvarpinu hefur verið leitast við að draga úr karllægni í orðfæri.“ Síðar í greinargerðinni segir: „Lagt er til að hugtakið fiskari verði notað í stað fiskimanns til að minnka kynlæga orðanotkun í lagatexta.“ Reyndar er þetta orð ekki nýjung í lagamáli – það var hið venjulega orð stjórnsýslunnar um fiskimenn í í upphafi 20. aldar, t.d. í „Tilskipun fyrir Ísland um tilhögun á löggæzlu við fiskiveiðar fyrir utan landhelgi í hafinu umhverfis Færeyjar og Ísland“ frá 1903 þar sem það kemur margoft fyrir.
En ef seinni hlutinn -maður í fiskimaður þykir óheppilegur, hvers vegna er orðið sjómaður þá látið standa óbreytt? Í nýlegu viðtali sagði samskiptastjóri Samgöngustofu „að við mótun laganna hafi sérstaklega hafi verið gætt að því að orðalag þeirra væri kynhlutlaust, en þó ekki þannig að það nái til tiltekinna hugtaka sem hafa unnið sér til hefðar að vera sérstaklega kynjuð“. Þótt seinni hluti málsgreinarinnar sé ekki mjög skýr og e.t.v. eitthvað brenglaður geri ég ráð fyrir að þarna sé átt við orð eins og sjómaður sem er margfalt algengara orð en fiskimaður, og því hafi ekki þótt ástæða til að hrófla við því. Enda er sjómaður, öfugt við fiskari, ekki notað sem íðorð í lögunum og því ekki skilgreint þar sérstaklega.
Fólk getur auðvitað haft þá skoðun að fiskari sé „orðskrípi“ en nýyrði er það sannarlega ekki eins og áður segir. Það kemur meira að segja fyrir í fyrstu bók sem var prentuð á íslensku, þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu 1540. Þar segir: „Fylgið mér eftir og eg mun gjöra yður að fiskörum manna.“ Orðið er líka notað í Vídalínspostillu og ýmsum ritum frá 17., 18. og 19. öld. Það er í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, og Halldór Laxness notar það m.a. í Brekkukotsannál: „Í öðrum löndum mundi sá maður heita fiskimaður eða fiskari, sem rær út á skektu í bítið á mornana og er kominn með fiskinn að dyrum manna um fótaferð. Sjálfur var afi minn líka dálítið einsog fiskarar á útlendum málverkum [...].“
Þar fyrir utan hefur Nanna Rögnvaldardóttir bent á að um miðja 19. öld virðist fiskari hafa verið hið vanalega starfsheiti. Þannig eru hátt í 150 skráðir fiskari í manntalinu 1845, en aðeins sjö eru skráðir fiskimaður. Þar er reyndar enginn sjómaður – elsta dæmi um það orð er ekki eldra en frá 1830, og á 19. öld var orðið sjófólk líka nokkuð notað. Auðvitað er lengi hægt að deila um einstök orð og mörgum finnst ósk um kynhlutleysi ekki gild ástæða til að breyta þeirri orðanotkun sem hefur tíðkast undanfarið. En hvað sem því líður er ómögulegt að halda því fram að verið sé að fremja einhver málspjöll með því að taka upp orðið fiskari í stað fiskimaður. Þar er þvert á móti verið að endurvekja gamalt orð og gamla hefð.