Samstundis, réttstundis – og svipstundis

Í gær rakst ég á orðið svipstundis í frétt á mbl.is – „Rýma þurfti sjöundu hæð svipstundis þegar mygla fannst þar.“ Þótt ég þekkti ekki orðið var það auðskilið út frá samhengi og einnig út frá orðinu samstundis og sambandinu á svipstundu, en vegna þess að það er ekki að finna í neinum orðabókum lét ég mér detta í hug að þessu tvennu hefði slegið saman í huga blaðamanns. Við nánari athugun kom þó í ljós að svo er ekki – a.m.k. hefur þá sams konar samsláttur átt sér stað hjá fleirum. Á tímarit.is er að finna 37 dæmi um orðið, það elsta í Skírni 1864: „hvorugum þeirra klæja svo lófarnir, að þeir svipstundis þrífi til vopnanna.“ Næsta dæmi kemur ekki fyrr en 1919, og svo eru örfá (2-8) dæmi frá hverjum áratug. Í Risamálheildinni eru níu dæmi.

Þótt atviksorðið svipstundis sé sárasjaldgæft og komi ekki til fyrr en á 19. öld gegnir öðru máli um nafnorðið svipstund sem kemur fyrir þegar í fornu máli – „en það var svipstund ein, áður stofan brann, svo að hún féll ofan“ segir t.d. í Egils sögu. Bæði að fornu og nýju kemur orðið þó aðallega fyrir í atvikslega sambandinu á (einni) svipstund(u) sem hefur lengi verið mjög algengt. Orðið svipstund merkir 'stutt stund, örskotsstund, andartak, augnablik' segir Íslensk orðabók og sambandið á svipstundu er skýrt 'mjög fljótt' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Sama merking er í svipstundis sem er rétt myndað og eðlilegt orð, en fjöldi íslenskra atviksorða er myndaður með viðskeytinu -is sem á rætur í eignarfalli svonefndra ija-stofna.

Annað sjaldgæft atviksorð myndað með viðskeytinu -is af nafnorðinu stund er réttstundis sem er skýrt 'á réttum tíma, stundvíslega' í Íslenskri orðabók. Þetta orð kemur ekki fyrir í fornu máli og virðist ekki vera gamalt – elsta dæmi á tímarit.is er úr Ísafold 1908: „Næsta sinn er þau skyldu hittast, kom Nanna réttstundis, en Baldur of seint, því hann var úr-laus.“ Orðið komst líka inn í Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. Um það eru rúm 800 dæmi á tímarit.is og það var mjög algengt á bilinu 1930-1960, en hefur síðan verið á hraðri niðurleið og frá áratugnum 2010-2019 er aðeins eitt dæmi um það á tímarit.is. Það virðist því af einhverjum óskýrðum ástæðum hafa horfið úr málinu og er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók.

En þótt svipstundis eigi hliðstæðu í nafnorðinu svipstund eru engin dæmi um nafnorðið *réttstund – og ekki heldur um *samstund, en þriðja orðið sem hefur seinni hlutann -stundis er samstundis. Það kemur líka fyrir í fornu máli en ólíkt hinum tveimur er það mjög algengt í nútímamáli og hefur lengi verið. Guðrún Kvaran hefur bent á að búast hefði mátt við i-hljóðvarpi í orðinu (og þá líka réttstundis og svipstundis) eins og verður í öðrum -is-atviksorðum ef skilyrði eru fyrir hendi. Þá hefði orðið verið samstyndis og sú mynd kemur fyrir í bréfi frá 1499 „sem sýnir ef til vill að samstundis hefur þótt framandleg orðmynd“ segir Guðrún. En bæði svipstundis og réttstundis eru lipur orð sem eru vannýtt og mætti nota meira.