Gjöf fyrir þig eða gjöf handa þér?
Að margra mati er merkingarmunur á því hvort sagt er þetta er gjöf fyrir þig eða þetta er gjöf handa þér. Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Auglýst var: Þessi vara er sérstaklega framleidd fyrir þig. Réttara væri: ... framleidd handa þér. (Ath.: ... framleidd fyrir þig ætti fremur að merkja: ... til þess að þú þurfir ekki að framleiða hana sjálf(ur).)“ Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson: „Þetta er framleitt fyrir þig er rétt orðalag í merkingunni 'Þetta er framleitt fyrir þig svo að þú þurfir ekki að gera það sjálfur.' Hins vegar er það ekki íslenskulegt í merkingunni 'til þess að þú notir það'. Þá væri rétt að segja: „Þetta er framleitt handa þér“.“ En í máli mjög margra er þó enginn merkingarmunur á fyrir og handa í þessum samböndum.
Vissulega geta sambönd með fyrir haft þá merkingu sem ein er talin rétt í Gætum tungunnar og Íslensku málfari. Þannig er t.d. í Ísafold 1911: „Góð gjöf fyrir foreldra að gefa bömum sínum, er barnablaðið 'Æskan'“. Í Vísi 1937 segir: „Í fyrra fóru skátar um bæinn og söfnuðu fatnaði og allskonar gjöfum fyrir Vetrarhjálpina.“ Í þessum dæmum eru foreldrar og Vetrarhjálpin ekki þiggjendur gjafanna, heldur er þetta í þeirra þágu. En ég man að ég kom af fjöllum þegar ég las í Gætum tungunnar að rangt væri að nota fyrir með þiggjanda – ég held að ég hafi alltaf notað fyrir og handa jöfnum höndum, án verulegs merkingarmunar. Og ég er ekki einn um það, þótt vissulega þyki ýmsum eðlilegt að gera mun á fyrir og handa í umræddum samböndum.
Enginn vafi er þó á því að eldra er að nota forsetninguna handa í slíkum dæmum. „Nú var safnað töluverðum gjöfum handa fólkinu“ segir í Fjölni 1836; „Amtmenn og sýslumenn skulu með tilstyrk merkra manna gángast fyrir að safna gjöfum handa þeim er liðið hafa tjón af kláðafaraldrinum“ segir í Þjóðólfi 1857; og allmörg sambærileg dæmi eru frá 19. öld. Elsta dæmi sem ég hef fundið um fyrir í hliðstæðri merkingu er í titli rits sem kom út 1884 og heitir „Kvöldvaka í sveit eða jóla og nýárs-gjöf fyrir fólkið“. Í Eimreiðinni 1896 segir: „Auk þessa hefur fjelagið mjög opt haft jólatrje með gjöfum fyrir börn fátæklinga“ og í Lögréttu 1907 segir: „Góð, hentug og mátulega dýr tækifærisgjöf fyrir unga og fullorðna.“
Annars eru fá dæmi um fyrir í þessari merkingu í íslenskum blöðum fram um 1920. Hins vegar er fjöldi dæma í vesturíslensku blöðunum, Lögbergi, Heimskringlu og fleiri, og liggur beint við að álykta að þar sé um að ræða áhrif frá ensku forsetningunni for sem er notuð í sambærilegum dæmum. En um 1920 fer dæmum um fyrir fjölgandi í íslenskum blöðum. „Smekklegustu og nýtustu jólagjafirnar fyrir unga og gamla“ segir í Vísi 1920, „Spegiltöskur eru hin fallegasta gjöf fyrir ungar fermingarstúlkur; fást nú fallegar, vandaðar og ódýrar“ segir í Vísi 1923, „Saga Oddastaðar er góð jólagjöf fyrir þá, sem fremur unna þjóðlegum fræðum og sögulegum rannsóknum, en tilbúnum (misjöfnum) skáldskap“ segir í Morgunblaðinu 1932.
Þrátt fyrir að ég telji mig nota fyrir og handa nokkurn veginn jöfnum höndum finnst mér geta verið blæbrigðamunur á þeim eftir því hvort verið er að lýsa hugmynd eða orðnum hlut. Þannig finnst mér eðlilegt að segja þetta væri upplögð gjöf fyrir mömmu þegar gjöfin hefur ekki verið keypt en aftur á móti myndi ég kannski fremur segja ég keypti gjöf handa mömmu. En ég veit ekki hvort ég er einn um þessa tilfinningu. Hvað sem því líður er ljóst að notkun fyrir í sömu merkingu og handa í ýmsum samböndum er mjög algeng í málinu og á sér a.m.k. hundrað ára óslitna sögu, og því kemur ekki annað til greina en telja þessa notkun rétt mál. En vitanlega er sjálfsagt að þau sem gera áðurnefndan mun á fyrir og handa haldi því áfram.