Skrykkur, brekdans – eða bara breikdans?

Eitt af því sem ég fjallaði um í útvarpsþættinum Daglegt mál þegar ég sá um hann í tvo mánuði sumarið 1984 voru orð um breakdance. Þessi dans komst í tísku á Íslandi snemma árs 1984 – sést fyrst nefndur með þessu nafni í blöðum í mars það ár. Í maí var samnefnd kvikmynd frumsýnd á Íslandi og í dómi um hana sagði: „Þar eru gerð skil því breakdance æði sem gripið hefur Bandaríkjamenn að undanförnu, og þá einnig Íslendinga.“ Eins og þarna sést var orðið stundum haft með enskri stafsetningu en strax í mars 1984 var þó farið að skrifa það upp á íslensku, breikdans, og sú mynd hefur alla tíð verið miklu algengari. Fljótlega var þó farið að leita að íslensku heiti á dansinn og vantaði ekki að ýmsar tillögur kæmu fram.

Í Morgunblaðinu 17. júní segir: „Danskeppni í skrykk (break-dans) var haldin á skemmtistaðnum Traffic mánudaginn 3. júní sl.“ Nokkrum dögum síðar birtist í sama blaði athugasemd frá Baldri Jónssyni sem segir blaðið hafa spurt sig um íslenskt orð yfir breakdance og hann hafi stungið upp á orðinu skrykkdans eða skrykkur. Það orð var þó komið fram áður – í janúar 1984 var Heiðar Ástvaldsson danskennari spurður í DV: „Og hver er svo vinsælasti dansinn í dag?“ Hann svarar: „Ætli það sé ekki skrykkurinn.“. En í grein í Morgunblaðinu 3. ágúst stakk Baldur upp á að nota orðin skrykkir eða skrykkill um þau sem dansa skrykk. Sögnin skrykkja var líka eitthvað notuð um athöfnina. En ekki vakti skrykkurinn þó hrifningu allra.

„Mér finnst skrykkur alveg „vemmilega“ ljótt orð“ sagði Stefán Baxter í Vikunni, og Gunnar Salvarsson sagði í DV: „Oftar sitjum við þó uppi með einhver afkáraleg orð, skrípiyrði sem svo eru nefnd, eins og til dæmis skrykkur þar sem einfaldara og ólíkt smekklegra hefði verið að brúka orð eins og brek eða hreinlega breik með íslenskri stafsetningu.“ Í DV segir Páll Bergþórsson: „Mig langar að koma með aðra betri tillögu um íslenskt orð yfir breakdance. Þetta er brekdans. Orðið brek er íslensk[t] og þýðir brot samanber breksjór = brotsjór. Orðið hefur því marga kosti. Það er íslenskt, er bein þýðing á break og hljómar einnig svipað og orðið break.“ Einnig var stungið upp á að nota brokkdans um dansinn og brokkari um þau sem dansa.

Orðin skrykkur og skrykkdans voru töluvert notuð 1984 en misstu fljótt flugið – eins og dansinn gerði reyndar líka – og það fyrrnefnda kemur varla fyrir á prenti eftir 1985. Því síðarnefnda, sem komst á lista um tíu verstu nýyrði 20. aldarinnar í DV 1999, bregður hins vegar einstöku sinnum fyrir – „Skrykkdansinn er mikil list og má oft sjá nær ótrúlegar hreyfingar þegar skrykkdansarar eru í ham“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2003; „Breakið, eða skrykkdans eins og það útleggst á íslensku, hefur verið í nokkurri lægð síðustu ár“ segir í Fréttablaðinu 2007. Orðið brekdans var andvana fætt, að ekki sé talað um brokkdans, en breikdans hefur hins vegar verið töluvert algengt alla tíð síðan 1984, þótt það hafi sótt verulega í sig veðrið eftir aldamótin.

En að lokum er rétt að vekja athygli á því sem Gunnar Salvarsson segir: „Þjóðin hefur enda ekki hingað til haft fyrir því að finna ný orð og algerlega óskyld því útlenda þegar tískudansar eiga í hlut: tvist, rokk, jenka, bömp, charleston og samba og hvað þeir heita nú allir, hafa einfaldlega verið stafsettir á íslensku eftir útlenda orðinu.“ Þetta er alveg rétt og áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna svona mikilvægt þótti að koma með nýyrði fyrir breakdance. Mér finnst líklegt að það stafi af því að við teljum okkur skilja orðhlutana break og dance og finnist þess vegna nauðsynlegt að íslenska þá – orð sem bera með sér enskan uppruna sinn eru verr séð í málinu en orð sem eru bara hljóðastrengir sem hafa enga merkingu fyrir okkur.