Að óheimila
Í frétt á mbl.is í morgun var notuð sögnin óheimila: „að sögn Jaberi óheimiluðu öryggisverðir henni að sýna skilaboð aftan á kjólnum.“ Sögnin heimila er auðvitað vel þekkt, sem og lýsingarorðin heimill og óheimill, en sögnin óheimila er sjaldséð þótt hún sé vissulega rétt mynduð. En óheimila er þó ekki nýsmíði, heldur gömul sögn sem á sér rætur a.m.k. aftur á 19. öld. Elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen: „greiðir þú mér ekki landskuldina í fardögum, […] þá óheimila ég þér jörðina Hamar […] til allra nota og afnytja.“ Sögnin var nokkuð notuð á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20., og er flettiorð bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók.
Sögnin virðist ekki síst hafa verið notuð í lagamáli þótt hún sé ekki bundin við það eingöngu. Hún kemur t.d. fyrir í Lögum um takmörkun á fjárforræði þurfamanna, er þiggja sveitarstyrk frá 1885: „enda óheimili sýslumaður utanferð, nema þessum skilyrðum sje fullnægt.“ Einnig kemur hún fyrir í bannlögunum, Lögum um aðflutningsbann á áfengi frá 1909: „Brot gegn þeim ákvæðum í lögum þessum, er óheimila að veita, gefa, selja eða á annan hátt láta af hendi áfengi til annara manna, varða sektum 200-2000 kr.“ Í Andvara 1898 segir: „Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar í samfleytt 23 ár borið fyrir sig 1. gr. stjórnarskrárinnar sem skýlaus lög, er óheimili með öllu þá stjórnarvenju, að bera sérmál Íslands upp í ríkisráðinu.“
Það má vissulega færa rök að því að sögnin óheimila sé óþörf vegna þess að hún hafi sömu merkingu og sögnin banna, og sé mun óþjálli. En á sama hátt mætti þá halda því fram að sögnin heimila, sem er vitanlega mjög algeng, sé óþörf vegna þess að hún merki það sama og sögnin leyfa, og sé auk þess óþjálli. En síðustu hundrað árin hefur óheimila verið mjög sjaldgæf – aðeins eru rúm 20 dæmi um hana frá 21. öld í Risamálheildinni, flest úr lagalegu samhengi. Þannig er ekki með dæmið sem tilfært var í upphafi og vel má halda því fram að þar hefði verið eðlilegt að nota fremur sögnina banna. En þetta er samt gömul og eðlilega mynduð sögn sem ástæðulaust er að amast við – það er kostur að hafa á takteinum fleiri en eitt orð til að tjá sömu merkingu.