Æskilegar viðbætur við aðgerðaáætlun
Eins og ég skrifaði um í gær er margt gott í drögum að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026, einkum áherslan á íslensku sem annað mál og íslenskunám innflytjenda. Vitanlega er ekki hægt að gera allt í einu, en í áætlunina vantar samt þrjár mjög mikilvægar og brýnar aðgerðir sem ég hefði kosið að hefðu verið hafðar með og mega a.m.k. alls ekki bíða fram yfir gildistíma áætlunarinnar. Þær eru þessar:
1. Mjög mikilvægt er að efla rannsóknir á íslensku máli og stöðu þess. Hér verður að benda á að eftir sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans fyrir 15 árum voru samtals 12 akademísk störf í íslenskri málfræði í sameinuðum skóla en núna eru þau aðeins sjö – hefur fækkað um fimm. Vegna þess að nemendum í íslensku hefur fækkað verulega að undanförnu, bæði á Menntavísindasviði og sérstaklega Hugvísindasviði, er ljóst að reiknilíkan háskólastigsins mun ekki leyfa fjölgun kennara á næstunni, og hætta er á enn frekari fækkun þegar kennarar fara á eftirlaun. Rannsóknir eru 40% af vinnuskyldu háskólakennara í akademískum störfum og því gefur augaleið að fækkun kennara leiðir til minni rannsókna.
Við vitum að miklar hræringar eru í málinu og málsamfélaginu um þessar mundir og gífurlega mikilvægt að fylgjast vel með því sem er að gerast til að unnt sé að grípa til aðgerða ef ástæða er til. Vissulega eru stærri rannsóknarverkefni að miklu leyti fjármögnuð af styrkjum úr samkeppnissjóðum, en eftir sem áður er nauðsynlegt að hafa fræðimenn í föstum störfum til að skipuleggja verkefnin, stjórna þeim, og tryggja samfellu í starfinu. Það er því mjög alvarlegt að á sama tíma og þörfin fyrir rannsóknir er meiri og brýnni en nokkru sinni fyrr skuli hafa dregið stórlega úr rannsóknargetu á þessu sviði. Við því verður að bregðast með fjölgun kennara í íslenskri málfræði sem fyrst, og æskilegt hefði verið að taka á því máli í aðgerðaáætluninni.
2. Í framhaldi af þessu verður að nefna að ekki eru í áætluninni neinar aðgerðir til að fjölga háskólanemum í íslensku, að því undanskildu að lagt er til að boðið verði upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs. Það er góðra gjalda vert en ræðst ekki að rótum vandans, sem er sá að íslenskunám virðist af einhverjum ástæðum ekki höfða til ungs fólks – e.t.v. vegna þess að það óttast að lenda í blindgötu og áttar sig ekki á því að íslenskunám gefur marga og fjölbreytta möguleika á framhaldsnámi og störfum. Nýnemum í íslensku til BA-prófs við Háskóla Íslands hefur farið ört fækkandi undanfarin ár og voru ekki nema svolítið á annan tug í vetur, og nemendum sem velja íslensku sem kjörsvið á Menntavísindasviði hefur einnig farið fækkandi.
Þessi fækkun hefur keðjuverkandi áhrif – leiðir miðað við fjárhagslíkan Háskólans til minnkaðra fjárveitinga sem aftur leiðir til minnkaðs námsframboðs sem leiðir svo til þess að námið verður ekki eins áhugavert og áður í augum nemenda og aðsókn minnkar enn. Ef svo fer fram sem horfir mun þetta ástand leiða til skorts á íslenskukennurum eftir nokkur ár. Það er brýnt að kanna hvers vegna íslenskunám höfðar ekki til ungs fólks og nýta niðurstöður úr þeirri könnun til að reyna að snúa þessari þróun við og vekja áhuga ungs fólks á íslenskunámi. Í því skyni er nauðsynlegt að skipuleggja öfluga kynningu í framhaldsskólum, en einnig getur þurft að breyta íslenskukennslu í framhaldsskólum og Háskólanum og grípa til ýmissa fleiri aðgerða.
3. Þótt vísað sé til Íslenskrar málnefndar á nokkrum stöðum í aðgerðaáætluninni er ekki fjallað sérstaklega um málefni nefndarinnar, en nauðsynlegt er að efla hana og hugsa upp á nýtt. Tíu af 16 fulltrúum í nefndinni eru fulltrúar félaga og stofnana sem vinna með íslenskt mál á einn eða annan hátt, og langflest þeirra sem nú sitja í nefndinni eru með einhverja háskólamenntun í íslensku. Þetta skipulag endurspeglar úrelt viðhorf til tungumálsins og hverjum það komi við. Það má segja að næstum allir nefndarmenn séu fulltrúar „framleiðenda“ (eða „eigenda“) tungumálsins, fólks sem hefur atvinnu af því að vinna með íslenskt mál, en fulltrúa „neytenda“ málsins, almennra málnotenda, vanti nær algerlega í nefndina. Þessu er nauðsynlegt að breyta.
Það mætti hugsa sér að í nefndina bættust t.d. fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks, Öryrkjabandalagsins, Samtakanna ´78, Kvenréttindafélagsins, Íþróttasambands Íslands, Heimilis og skóla, Landssamtaka íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Samtaka Pólverja á Íslandi. Þar með væru komnir jafnmargir fulltrúar „neytenda“ og „framleiðenda“ í nefndina. Slík nefnd er vitaskuld of stór til að hægt sé að gera ráð fyrir að hún fundi oft eða fundir hennar verði skilvirkir. Hins vegar byði þessi skipan upp á að nefndinni yrði skipt í undirnefndir þar sem fjölbreytt sjónarmið fengju að njóta sín í hverri nefnd. En auk þessa er mikilvægt að styrkja nefndina fjárhagslega og sjá henni fyrir skrifstofu og starfsfólki.