Vinkonur og vinir
Í útvarpsfréttum áðan var sagt frá því að Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfisrétti, hefði nú „ásamt vinkonu sinni kært til innviðaráðuneytisins aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur vegna þessarar miklu loftmengunar. Vinkona Aðalheiðar er með doktorspróf í efnafræði og er einnig lögfræðingur.“ Það sem mér finnst sérkennilegt í þessari frétt er að tekið er fram að Aðalheiður hafi kært málið „ásamt vinkonu sinni“ – þegar fram kemur að vinkonan er ekki einhver ótiltekin saumaklúbbsvinkona heldur sérfræðingur á því sviði sem um er að ræða. Eins og fram kemur í fréttinni var kæran lögð fram á fundi heilbrigðisnefndar og í henni er „vinkonan“ nafngreind en ekki orð um að þær Aðalheiður séu vinkonur.
Hefði einhvern tíma verið notað sambærilegt orðalag um karlmenn? Hefði verið sagt „Eiríkur hefur nú ásamt vini sínum kært til innviðaráðuneytisins aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur vegna þessarar miklu loftmengunar. Vinur Eiríks er með doktorspróf í efnafræði og er einnig lögfræðingur.“ Ég held ekki – enda kemur það málinu ekkert við hvort um vini eða vinkonur er að ræða. Mér finnst orðalag af þessu tagi vera til þess fallið að draga úr vægi málsins – gefa í skyn að á bak við það liggi eitthvert vináttusamband frekar en kunnátta og þekking. Mér dettur samt ekki í hug að það sé gert vísvitandi í þessari frétt, en ég held að þetta sé dæmi um það hvernig við notum oft – án ásetnings – mismunandi orðalag um konur og karla.