Ég sakna þess að sjá þetta ekki

Í Málvöndunarþættinum var í gær tilfærð setningin „Ég sakna þess að sjá þetta ekki“ og spurt: „Er þetta ekki röng notkun á sögninni?“ Ég hef áður séð því haldið fram að rangt sé að hafa neitun í setningum á við þessa – það eigi að segja ég sakna þess að sjá þetta, rétt eins og ég sakna þín. Á bak við þetta virðist liggja sú hugmynd að með því að hafa neitun í setningunni sé verið að neita merkingu sagnarinnar sakna, og þar með snúa merkingu setningarinnar við – rétt eins og gerist þegar við segjum ég sakna þín ekki í stað ég sakna þín. En í þessu felst tvenns konar misskilningur. Annars vegar sá að neitun í aukasetningu jafngildi því að sögn aðalsetningarinnar (hér sakna) sé neitað, og hins vegar sá að sakna hafi alltaf sömu merkingu.

Eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók hefur sögnin sakna tvær merkingar, vissulega náskyldar. Annars vegar merkir hún 'finna til eftirsjár vegna e-s sem er fjarverandi' (t.d. ég sakna þín, við söknum dvalarinnar í sveitinni) og hins vegar 'finna fyrir því að e-ð vantar' (t.d. hann saknaði heftarans af skrifborðinu). Í setningunni ég sakna þess að sjá Esjuna út um eldhúsgluggann er sögnin notuð í fyrri merkingunni – í þessu felst að ég hafi áður séð Esjuna út um eldhúsgluggann en geri það ekki lengur. En ef sagt er ég sakna þess að sjá ekki Esjuna út um eldhúsgluggann er um seinni merkinguna að ræða – í þeirri setningu felst ekki endilega að ég hafi nokkurn tíma séð Esjuna út um eldhúsgluggann, ég vildi bara að svo væri.

Vegna þess hversu skyldar þessar tvær merkingar eru getur oft verið erfitt að átta sig á muninum, enda er iðulega hægt að hafa sömu setninguna ýmist með eða án ekki eins og í dæmunum hér að framan. En svo er þó ekki alltaf. Þannig er aðeins hægt að segja ég sakna þess að hún skuli ekki vera hérna – það er ekki hægt að sleppa neituninni og segja *ég sakna þess að hún skuli vera hérna. Ástæðan er sú að aukasetningin að hún skuli vera hérna felur í sér að sú sem um er rætt er hérna og þá á hvorki við 'eftirsjá vegna e-s sem er fjarverandi' né að 'finna fyrir því að e-ð vantar‘. Aftur á móti er hægt að segja ég sakna þess að hún skuli ekki vera hérna vegna þess að þar getur merkingin 'finna fyrir því að e-ð vantar' átt við.

Hin merkingin, 'finna til eftirsjár', kemur hins vegar ekki til greina í setningunni ég sakna þess að hún skuli ekki vera hérna vegna þess að aukasetningin er í nútíð – eftirsjá getur ekki vísað til þess sem er, aðeins þess sem var. Aftur á móti getum við sagt bæði ég sakna þess að hafa hana hjá mér og ég sakna þess að hafa hana ekki hjá mér vegna þess að þar er ekki notuð nútíð, heldur nafnháttur sem vísar ekki til tíma á sama hátt og nútíðin. Án neitunar vísar setningin til eftirsjár eftir því sem var, en með neitun vísar hún til þess sem mér finnst vanta núna. Hvort tveggja er fullkomlega eðlilegt. Svarið við því hvort það sé röng notkun á sakna að segja ég sakna þess að sjá þetta ekki er sem sé: Nei, þetta er fullkomlega eðlileg notkun.