Förum varlega
Hér hefur undanfarna daga og einkum í dag verið mikil umræða um óþarfa og óeðlilega enskunotkun á Íslandi. Ég er sammála flestu sem hefur verið sagt í innleggjum um þetta mál og hef í einhverjum tilvikum átt frumkvæði að umræðunni eða tekið þátt í henni. Þessi umræða er eðlileg og mikilvæg – en hún er líka mjög viðkvæm og vandasöm og getur auðveldlega leiðst út á hættulega braut þjóðrembu og útlendingaandúðar. Ég hef ekki orðið var við slíkt í umræðunni hér í hópnum en í ljósi þess að þess háttar umræða veður uppi um þessar mundir á samfélagsmiðlum og jafnvel hjá ráðamönnum þjóðarinnar er vert að hafa varann á. Þess vegna bið ég ykkur þess lengstra orða að gæta vel að því hvernig þið hagið orðum ykkar.
Þótt við höldum á lofti þeirri eðlilegu og sjálfsögðu kröfu að íslenska sé alltaf í fyrirrúmi og ekki gripið til erlendra mála nema nauðsyn beri til má það aldrei leiða til þess að við látum fólk gjalda þess á einhvern hátt að tala ekki íslensku – eða heita ekki íslenskum nöfnum. Berjumst fyrir íslenskunni á jákvæðum nótum, með því að hvetja fólk til að nota hana þar sem þess er kostur og með því að vekja athygli á óþarfri og ástæðulausri enskunotkun. Jafnframt þurfum við þó að hafa í huga að hér búa tugir þúsunda fólks sem ekki kann íslensku til hlítar, auk þess gífurlega fjölda ferðafólks sem kemur til landsins, þannig að það er ekkert óeðlilegt að enskunotkun hafi aukist. En eðlilegar áhyggjur af því mega ekki leiða til útlendingaandúðar.