Yfirklór

Stjórn Íslandsbanka hefur sent frá sér stutta tilkynningu um væntanlega boðun hluthafafundar, en aftan í hana er hnýtt: „Bankinn og stjórnendur harma mjög þau brot sem fram koma í sáttinni. Á hluthafafundinum verður farið ítarlega yfir málsatvik og þær úrbætur og breytingar sem þegar hafa verið gerðar eða eru í vinnslu.“ Enn er reynt að draga úr alvarleik málsins og ábyrgð stjórnenda með því að nefna bankann fyrst og segja „bankinn og stjórnendur harma“. Fyrirtæki geta vitanlega ekki „harmað“ neitt. Þau hafa ekki tilfinningar. En að skýla sér á bak við fyrirtæki er auðvitað alþekkt aðferð til að draga athygli frá ábyrgð tiltekinna einstaklinga.

En svo er það sögnin harma. Hún merkir 'vera leiður (vegna e-s), þykja eitthvað leitt'. Við gætum sjálfsagt flest tekið undir það að við hörmum klúðrið í þessu máli. En í þessu orðalagi felst nákvæmlega engin yfirlýsing um ábyrgð stjórnenda bankans, hvað þá afsökunarbeiðni vegna margvíslegs skaða sem málið hefur valdið. Á fundinum á svo að fara yfir „úrbætur og breytingar sem þegar hafa verið gerðar eða eru í vinnslu“. Hér er eingöngu minnst á jákvæða þætti, „úrbætur“ og „breytingar“. Það virðist ekki standa til að ræða neitt um það hvernig stjórnendur bankans hafi hugsað sér að bæta fyrir þann skaða sem háttalag þeirra hefur valdið.

Er nú ekki nóg komið af yfirklóri?