Grandvaraleysi
Í útvarpsfréttum í morgun var haft eftir viðmælanda að svo virtist „sem mikið grandvaraleysi hafi ríkt innan Íslandsbanka“. Vakin var athygli á þessu í Málvöndunarþættinum og spurt: „Ætli þarna hafi ekki fremur átt að vera orðið „andvaraleysi“ […] en orðið samsláttur við orðið „grandleysi“ […]“. Venjuleg mynd síðarnefnda orðsins er reyndar grandaleysi en það skiptir ekki máli hér – ástæðulaust er að efast um að uppruni orðsins sé sá sem þarna er nefndur. Einnig er til samsvarandi lýsingarorð, grandvaralaus, en um það sagði Gísli Jónsson: „Grandalaus og andvaralaus hafa sést í einni bendu: „grandvaralaus““ og bætti við: „Að þessum dæmum er hlegið, og þau hafa engri festu náð, hvað þá hefð eða viðurkenningu.“
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er grandalaus skýrt 'sem á sér einskis ills von, óviðbúinn, óaðgætinn' og andvaralaus er skýrt 'sem gætir ekki að hlutunum, er ekki á verði'. Þessi orð hafa því u.þ.b. sömu merkingu, og sama má segja um grandaleysi sem er skýrt 'það að hugsa ekki um aðstæður, óaðgæsla' og andvaraleysi sem er skýrt 'það að skeyta ekki um, hirða ekki um e-ð'. Athugun á dæmum um grandvaralaus og grandvaraleysi bendir til að þau séu notuð í sömu merkingu. Reyndar er grandvaralaus er gefið upp í Íslenskri orðabók með skýringunni 'grunlaus' – að vísu ekki sem sjálfstætt flettiorð, heldur undir nafnorðinu grandvari sem annars kemur varla fyrir. Skýringin 'grunlaus' er ónákvæm þótt hún sé ekki alveg fráleit.
Þótt Gísli Jónsson segi að grandvaralaus hafi „engri festu náð“ er ljóst að bæði lýsingarorðið grandvaralaus og nafnorðið grandvaraleysi eiga sér meira en hundrað ára sögu í málinu. Elsta dæmið um grandvaralaus er í Ísafold 1909: „hvort ekki komi sporvagn, hestavagn, vélavagn eða reiðhjól þeysandi með þeim elskulega ásetningi, að sletta heila grandvaralausra manna um steinbrúna.“ Elsta dæmið um grandvaraleysi er aðeins eldra, í Austra 1894: „Sú skýla er hann í grandvaraleysi sínu hafði bundið fyrir augu sér, var nú allt í einu horfin.“ Alla tíð síðan hafa orðin verið nokkuð notuð þótt þau hafi aldrei orðið algeng. Samtals eru rúm 200 dæmi um þessi orð á tímarit.is, og í Risamálheildinni tæp 100 dæmi.
Það er því enginn vafi á að grandvaraleysi og grandvaralaus hafa öðlast hefð í málinu, og jafnvel má halda því fram að sú hefð sé álíka gömul og hefðin fyrir grandaleysi og grandalaus (í núverandi merkingu) – elstu dæmi um þau orð á tímarit.is eru frá svipuðum tíma, 1893 (að vísu kemur grandalaus fyrir í fornu máli og nokkur eldri dæmi eru um það í Ritmálssafni Árnastofnunar en þar hefur orðið eldri merkinguna, 'saklaus'). Hins vegar má auðvitað deila um hvort orðin hafi hlotið viðurkenningu, en í því sambandi má benda á að dæmi um þau er m.a. að finna í verkum virtra rithöfunda og fræðimanna, í lagafrumvörpum, og ræðum á Alþingi. Því er engin ástæða til annars en líta svo á að þetta séu góð og gild íslensk orð.