Bankastjóri „stígur til hliðar“
Ég sagðist um daginn bíða „spenntur eftir framhaldi á skýringum bankastjórans þegar skýrsla fjármálaeftirlitsins verður birt í heild“. Nú er yfirlýsing bankastjórans (fyrrverandi) komin og ástæða til að greina hana nánar.
- „Ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem bankastjóri Íslandsbanka með hagsmuni bankans að leiðarljósi svo ró geti myndast vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.“
Hér er sagt „stíga til hliðar“ eins og nú tíðkast, sem eru skrauthvörf fyrir „segja af mér“ eins og áður var. En raunveruleg merking í „Ég hef ákveðið að stíga til hliðar“ er þó „Ég sé mér þann kost vænstan að hrökklast frá“. Og „vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanks Íslands“ er villandi – óróinn er ekki vegna sáttarinnar sem slíkrar, heldur vegna þess sem þar kemur fram um fjölmörg brot bankans á lögum og reglum.
- „Með því axla ég ábyrgð á mínum þætti málsins. Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum.“
Það er ekki mat eða ákvörðun þeirra sem um er að ræða hvort og hvernig þau axla ábyrgð á verkum sínum og þess vegna er ekki hægt að segja „Með því axla ég ábyrgð“. Með því að segja að umræða sé „óvægin“ er gefið í skyn að hún hafi verið ósanngjörn, og setningunni „Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum“ er ætlað að vekja samúð með bankastjóranum – þótt stjórnmálamenn hlífi henni ekki óskar hún þeim velfarnaðar af göfuglyndi sínu.
- „Það er með miklum trega sem ég yfirgef Íslandsbanka enda hef ég starfað hjá bankanum og forverum hans í um 30 ár. Starfsævi mín hefur nánast öll verið helguð bankanum og okkur hefur tekist að byggja upp eitt öflugasta fyrirtæki landsins með einstökum starfsmannahópi. Ég hef eignast marga góða vini bæði í hópi starfsfólks og viðskiptavina.“
Þetta kemur afsögninni og ástæðum hennar ekkert við en þjónar eingöngu því hlutverki að vekja samúð lesenda með bankastjóranum yfir því að hún skuli nú þurfa að láta af störfum. Það er í sjálfu sér mannlegt, en e.t.v. hefði verið heppilegra að sýna meiri auðmýkt.
- „Sátt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands snýr eingöngu að þessu eina verkefni, að öðru leyti hefur ferill minn hjá bankanum verið farsæll.“
Þótt sáttin snúi „eingöngu að þessu eina verkefni“ kemur fram í henni að óheilbrigðir starfshættir hafi þróast innan bankans. Þeir voru ekki bundnir við þetta eina verkefni þótt þeir kæmu í ljós í tengslum við það. Þess vegna er hæpið að segja að ferill bankastjórans hafi „að öðru leyti […] verið farsæll“.
- „Undir minni stjórn, sem bankastjóri, hefur eigið fé bankans aukist um næstum 150 milljarða auk þess sem ríflega 110 milljarðar hafa verið greiddir í arð til hluthafa.“
Þetta kemur afsögninni ekkert við, heldur er ætlað til þess að upphefja bankastjórann og sýna hversu mikill skaði sé að brottför hennar. En það er líka athyglisvert að eingöngu er talað um bankann sjálfan og hluthafa. Fróðlegt væri að vita líka hvað bankinn hefur gert fyrir viðskiptavini sína – hvernig hefur hann stuðlað að bættum hag fólksins í landinu? Það er ekki að sjá að bankastjórinn telji það mikilvægt.
- „Okkur hefur tekist að ná fram fjölda sigra á fjármálamarkaði með mannleg gildi að leiðarljósi. Ég kveð bankann með söknuði en sátt við mitt verk. Ég óska öllu mínu samstarfsfólki góðs gengis og vona innilega að með þessu skapist friður í kringum fyrirtækið og fólkið sem mér þykir svo vænt um.“
Að hafa „mannleg gildi að leiðarljósi“ er klisja sem merkir ekki neitt. Það er líka athyglisvert að bankastjórinn segist vera „sátt við mitt verk“ – í því hlýtur þá líka að felast að hún sé sátt við það hvernig staðið var að bankasölunni.
En svo vantar í yfirlýsinguna upplýsingar um það hvort bankastjórinn hafi fengið feitan starfslokasamning.