Ábyrgðarleysi

Í haust var forsætisráðherra spurð um það í viðtali á Stöð tvö hvort það væri ekki fjármála­ráð­herra sem bæri ábyrgð á því sem hefði farið úrskeiðis við sölu á hlut í Íslandsbanka. Í svari sínu sagði hún að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra hefðu einmitt „axlað pólitíska ábyrgð“. Þegar þetta mál var rætt á Alþingi sagðist Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eiga „mjög erfitt með að skilja hvað hæst­virtir ráðherrar áttu við þegar þeir sögðust hafa axlað pólitíska ábyrgð.“ Í framhaldi af því spurði hún: „Hvernig skilgreinir hæstvirtur forsætisráðherra pólitíska ábyrgð? Hvern­ig telur for­sætis­ráð­herra að kjörnir fulltrúar axli pólitíska ábyrgð? Aukaspurn­ingin í þessu sam­hengi er: Hvernig í ósköpunum hefur ríkisstjórnin axlað pólitíska ábyrgð á bankasölunni?“

Forsætisráðherra fór um víðan völl í svari sínu og sagði m.a.: „Við getum sagt að pólitísk ábyrgð birtist í sinni ýtrustu mynd í því að ráðherra missi embætti sitt vegna vantrausts þingsins. […] Þegar horft er til þeirra sem fjallað hafa um þessi mál, t.d. á norrænum vettvangi, þá getur ráðherra axlað pólitíska ábyrgð með ýmsum öðrum hætti. […] [D]anskur hæstaréttardómari og einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í ráðherraábyrgð […] orðar það svo […] að þótt ýtrasta form pólitískrar ábyrgðar birtist í því að vantraust sé samþykkt þá geti pólitísk ábyrgð birst í ýmsum myndum, t.d. með gagnrýni á ráðherra í pólitískri umræðu, með­ferð mála í þinginu og eftir atvikum með snuprum svokölluðum […] í áliti þingnefnda.“

Tæpast er hægt að segja að þarna séu skýr svör við spurningunum. Í viðtali við Vísi lýsti Henry Alex­ander Henrysson siðfræð­ingur áhyggjum af kæruleysislegri umgengni ráðherra við hug­takið pólitísk ábyrgð og hvernig að bera ábyrgð og axla ábyrgð er ruglað saman. „[S]tundum berum við ábyrgð á einhverju að því leyti að okkur er falið verkefni. Þá berum við ábyrgð á því að úr því sé unnið. Ég tók eftir því að fjármálaráðherra valdi að tala um slíka ábyrgð […] þegar hann vísað til þess að hann hefði borið ábyrgð á því að selja hlut í banka. En þetta er kannski ekki að bera ábyrgð eða axla ábyrgð í þeim skilningi sem fólk hefur verið að tala um. Það er tengdara síðari merkingunni þar sem maður þarf að vera ábyrgur fyrir því sem gert hefur verið.“

Fólk ber ábyrgð á tilteknum hlutum, samkvæmt lögum, siðareglum eða almennum venjum í mannlegum samskiptum, og undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist, hún er ekki valkvæð – en hún hefur ekki endilega neinar afleiðingar. Fólk sem axlar ábyrgð tekur hins vegar á sig ábyrgð á ein­hverju sem það hefur ekki endilega komið nálægt. Ráðherra getur t.d. axlað ábyrgð á verk­um einhvers undirmanns síns eða undirstofnunar þótt honum hafi verið alls ókunnugt um þau og þau jafnvel verið í blóra við vilja hans. Stundum er hins vegar hægt að hafna því að axla ábyrgð, sem felur þá í sér að neita að taka ábyrgð á orðum eða gerðum sínum – eða eftir atvikum fjöl­skyldu­meðlima, undirmanna eða annarra sem fólk hefur á einhvern hátt í umsjá sinni.

Eitt er að þvo hendur sínar af tilteknum orðum eða athöfnum og neita því að axla ábyrgð á þeim, telja sig ekki hafa borið neina ábyrgð á þeim – það getur átt rétt á sér frá lagalegu eða sið­ferðilegu sjónarmiði. En annað er að segjast axla ábyrgð á þessum orðum eða athöfnum og láta þar við sitja – bregðast ekki við á nokkurn annan hátt. Þá er verið að nota orðasambandið í ann­arri merkingu en það hafði til skamms tíma, í sömu merkingu og bera ábyrgð. En á þessu tvennu er – eða var – grundvallarmunur eins og Henry Alexander benti á. Að axla ábyrgð felur í sér – eða fól í sér – afleiðingar. Ráðherrann í dæminu hér á undan gæti mátt þola hrakfarir í næsta prófkjöri eða kosningum, eða jafnvel þurft að segja af sér – í útlöndum. Ekki á Íslandi.