Aldaforn skeifa

Í gær var frétt á mbl.is undir fyrirsögninni „Fann aldaforna skeifu við gosstöðvarnar“. Í Málvöndunarþættinum var spurt hvort þetta flokkaðist ekki „undir tátólógíu eða tvíklifun“. Á bak við þá spurningu liggur væntanlega sú hugmynd að aldur skeifunnar komi fram í seinni lið orðsins, -forn, og fyrri hlutinn alda- sé því óþörf viðbót. En merkingin í forn er auðvitað mjög teygjanleg og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að bæta alda- þar framan við til að leggja áherslu á aldurinn og skilgreina hann nánar. Orðið aldaforn er vissulega ekki að finna í neinum orðabókum en það er samt ekki nýtt og ekki einsdæmi, og það er varla hægt að halda því fram að meiri tvítekning sé í aldaforn en í aldagamall sem er vitanlega alþekkt og viðurkennt orð.

En þrátt fyrir að tæpast sé meiri tvítekning í aldaforn en aldagamall er samt mikilvægur munur á orðunum sem getur verið ástæða fyrir því að sumum finnst fyrrnefnda orðið undarlegt eða hæpið. Þótt forn og gamall merki eða geti merkt u.þ.b. það sama hefur gamall miklu víðtækara notkunarsvið – það er notað sem ákvörðun eða viðmiðun um aldur sem þarf ekki að vera hár. Við segjum barnið er tveggja ára gamalt þótt það sé auðvitað ekki „gamalt“ í bókstaflegri merkingu orðsins – gamalt er þarna eins konar mælikvarði. Aftur á móti er forn ekki notað á þennan hátt, ekki einu sinni um háan aldur – við getum ekki sagt *hún er 90 ára forn eða neitt slíkt, og ekki heldur *skeifan er margra alda forn. Þar er eingöngu hægt að nota gömul.

En samsett orð eru ekki endilega „rökrétt“ – þau lifa oft sjálfstæðu lífi, án þess að endurspegla nákvæmlega þau orð eða orðhluta sem þau eru sett saman úr. Á tímarit.is er á áttunda tug dæma um aldaforn, þau elstu u.þ.b. hundrað ára gömul. Eitt elsta dæmið er úr erfiljóði um Bjarna frá Vogi eftir Stefán frá Hvítadal í Lesbók Morgunblaðsins 1927 – „aldaforna áþján rakti“. Þótt sjaldgæft sé kemur orðið fyrir í textum frá öllum áratugum síðan þá, og í Risamálheildinni eru 11 dæmi um það frá þessari öld, m.a. í formlegum textum – „Kenning gagnstefnenda sé líka í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar og aldaforna reglu lögbóka sem fræðimenn hafi gert skil og sé enn lögfest“ segir í landsréttardómi frá 2021. Það er ekkert að þessu orði.