Nýtt skilti á leiðinni
Mér var bent á að við inngang Norræna hússins er skilti sem er eingöngu á ensku. Af því tilefni skrifaði ég kynningar- og samskiptastjóra hússins póst þar sem sagði m.a.:
„Það vekur furðu að skiltið skuli eingöngu vera á ensku en ekki á íslensku og einhverju skandinavísku máli. Er það ný stefna í norrænu samstarfi að hafa eingöngu ensku á skiltum? Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög dapurlegt. Enskan er yfir og allt um kring, en ég hef skilið það svo að tilgangurinn með norrænu samstarfi sé m.a. að efla norræn tungumál og ýta undir notkun þeirra. Enskunotkun af þessu tagi vinnur beinlínis gegn því markmiði. Ég treysti því að þarna eigi eftir að bætast við annað skilti með sömu upplýsingum á íslensku og skandinavísku máli, en ef svo er ekki vonast ég til að þetta séu einhvers konar mistök eða hugsunarleysi sem verði leiðrétt.“
Nú hef ég fengið svar sem ég þakka kærlega fyrir og gefur fyrirheit um breytingar:
„Nei þetta er ekki gott og á ekki að vera svona.
Þetta skilti var sett upp ekki fyrir svo löngu en samt fyrir mína tíð (og núverandi stjórnanda). Þú ert ekki sá fyrsti til að nefna þetta blessaða skilti. En þetta er engin afsökun, við höfum leyft því að standa óþarflega lengi.
Við stöndum í framkvæmdum á húsinu núna, löngu tímabærum endurbótum og þetta skilti verður látið fara og við erum að láta útbúa nýtt í samráði við Alvar Aalto stofnunina og Minjastofnun – því þetta skilti er ekki aðeins á ensku það er einnig mjög ljótt og stenst ekki fegurðarstaðla hússins. Að auki benda örvarnar í allar áttir og engar réttar.
Skelfingar skiltið er það kallað.
En það gleður mig að fá frá þér tölvupóst. [...] Bestu þakkir fyrir að skrifa til mín, ég vona að nýja skiltið muni gleðja gesti okkar.“
Vonandi líður ekki á löngu uns nýja skiltið kemur upp. En þetta sýnir enn einu sinni að við eigum ekki að láta okkur nægja að ergja okkur hvert við annað og á samfélagsmiðlum – við eigum að spyrjast fyrir og gera athugasemdir. Venjulega er brugðist vel við, og oft skilar þetta árangri.