Óvirk lagaákvæði um íslenskt mál

Í viðtali á Bylgjunni í gær minntist Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir á það að áður hefði það verið lagaskylda að fyrirtæki bæru íslensk nöfn en það væri nú fallið úr lögum, og sagði „Það sem einu sinni var getur orðið aftur“. Þau lög sem þarna er um að ræða eru Lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð frá 1903 (!) og þar er umrætt ákvæði reyndar enn að finna í 8. grein sem hljóðar svo: „Hver sá er stundar atvinnurekstur skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, […] enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.“ Nú er það verkefni Fyrirtækjaskrár að meta hvort firmanöfn samrýmist lögum, m.a. hvað varðar umrætt ákvæði.

Á vef Fyrirtækjaskrár segir þó að hún telji sig „aðeins leiðbeinandi aðila í málum er varðar firmaheiti“ og ákvarðanir hennar sé hægt að kæra til menningar- og viðskiptaráðuneytisins og síðan til dómstóla ef því er að skipta. Í leiðbeiningum segir: „Fyrirtækjaskrá leggur ekki lengur bann við því að menn noti erlend heiti í firmanafni sínu“ og enn fremur: „Fyrirtækjaskrá hefur á sl. árum og áratugum hins vegar verið að draga úr kröfum að þessu leyti, sérstaklega með hliðsjón af því að ekki eru lengur aðeins skráð íslensk firmaheiti í skrána. Það kemur þó alltaf upp öðru hvoru að neitað er um skráningu á heiti þar sem það verður talið brjóta það sterklega gegn íslensku málkerfi að ekki er talið unnt að heimila skráningu þess í opinberar skrár.“

Lögin eru sem sé óbreytt, en slakað hefur verið á framkvæmdinni hvað þetta varðar. En meðan lögunum var fylgt fastar eftir – að nafninu til – var reyndar sífellt verið að fara í kringum þau, með því að skrá eitt nafn í firmaskrá en nota annað í kynningum og auglýsingum. Þetta var alkunna og oft um það rætt. Þekkt dæmi var Veitingahúsið Álfabakka 8 hf. sem svo hét í firmaskrá, en almenningur þekkti undir heitinu Broadway. Þetta er því dæmi um lagaákvæði sem í reynd var ekki hægt að fylgja eftir, og ekki virðist hafa verið vilji fyrir því hjá stjórnvöldum að breyta lögunum þannig að ekki væri hægt að fara kringum þau á þennan hátt. Niðurstaðan hefur í staðinn orðið að láta eins og þetta ákvæði sé ekki til. Það er ekki heppilegt.

Annað dæmi um vísun til íslensks máls í lögum er í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu frá 2005 en þar segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Við þekkjum samt fjölda dæma um auglýsingar sem eru að meira eða minna leyti á ensku. Stundum geta auglýsendur e.t.v. skákað í því skjóli að þeir séu ekki að höfða til Íslendinga, t.d. á veitingastöðum þar sem mikill meirihluti gesta er erlent ferðafólk, en eftir sem áður gengur það gegn íslenskri málstefnu að auglýsa eingöngu á ensku. En það er með þessi lög eins og firmalögin, að mikið skortir á að þeim sé framfylgt. Það er til lítils að hafa ákvæði um íslensku í lögum ef okkur skortir vilja og getu til að framfylgja þeim.