Að þagga umræðuna

Í dag sá ég á Vísi fyrirsögnina „Uppgangur öfgaafla verður í boði þeirra sem þagga umræðu“. Þarna tekur sögnin þagga andlag án nokkurrar frekari viðbótar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru sýnd dæmi um tvenns konar notkun sagnarinnar: þagga <málið> niður í merkingunni 'láta málið hverfa úr umræðu (t.d. fjölmiðla)' og þagga niður í <honum> í merkingunni 'láta hann hætta tali eða hávaða'. Í báðum tilvikum fylgir atviksorðið niður sem sé sögninni. Í Íslenskri orðabók er sögnin þó gefin með andlagi einu saman í sambandinu þagga einhvern í merkingunni 'þagga niður í einhverjum' en það er sagt „fornt/úrelt“. Allnokkur dæmi um þá notkun er að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is.

Það virðist hins vegar ekki hafa verið farið að nota sögnina með andlagi einu saman í merkingunni 'þagga eitthvað niður' eins og í áðurnefndri fyrirsögn fyrr en fyrir hálfum öðrum áratug eða svo. Eitt elsta dæmi sem ég finn um það er á Málefnin.com 2005: „Þær hafa reynt að þagga umræðuna á allan hátt, með allskonar tröllaskap.“ Í 24 stundum 2007 segir: „Til þess er og leikurinn gerður: Að valda hugarangri og reyna með því móti að þagga umræðuna.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Evrópufjölmiðlarnir þögguðu Váfugl.“ Í mbl.is 2015 segir: „En við þurfum að ræða þetta, ekki reyna að þagga þetta.“ Í Stundinni 2018 segir: „kirkjan hefur reynt að þagga kynferðisbrotamál sem komið hafa upp innan hennar.“

Á sama tíma hefur notkun sagnarinnar með andlagi einu saman um það að 'þagga niður í einhverjum' gengið í endurnýjun lífdaga – í dálítið breyttri merkingu þó. Í Veru 2003 segir: „Allt í einu sneru menn vörn í sókn og það blöskrar nógu mörgum til þess að ekki sé hægt að þagga þá og jaðra.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2003 segir: „Minnihlutahópurinn er þaggaður og meirihlutinn skrifar um og fyrir þá.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Það er reyndar hefð í íslensku menningarlífi að þegja menn, þagga þá gersamlega.“ Í Ritinu 2010 segir: „Samkynhneigðir voru sá samfélagshópur sem líklega var mest þaggaður á tíma fasismans.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „segir augljóst að reynt sé að þagga flokkinn og halda honum utan við umræðuna.“

Þarna er merkingin í samræmi við þá merkingu sem nafnorðið þöggun hefur haft undanfarna áratugi: „Hugtakið þöggun felur ekki í sér að hinn þaggaði hópur þegi, heldur að það sé eingöngu ríkjandi talsháttur sem heyrist, eða öllu heldur er hlustað ásagði Helga Kress í Morgunblaðinu 1993. Orðið þöggun kemur fyrir í Skírni 1832 og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en virðist annars ekki hafa verið notað fyrr en Helga tók það upp í merkingunni 'kerfisbundin aðferð til að koma í veg fyrir að fólk tjái skoðanir sínar' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er líka talað um að eitthvað sé þaggað, í merkingunni 'þaggað niður' – í Morgunblaðinu 2007 segir t.d.: „Geðhvarfasýki er þaggaður sjúkdómur.“

Það eru sem sé tvenns konar nýjungar í notkun og hegðun sagnarinnar þagga á þessari öld. Annars vegar er það merkingin – í viðbót við það að þagga bókstaflega niður í fólki, fá það til að þegja eða láta það þegja, merkir sögnin nú iðulega að látið sé eins og fólk sé ekki til, því haldið niðri, skoðanir þess hunsaðar o.s.frv. Hins vegar er það setningagerðin – í viðbót við að sögnin sé notuð með atviksorðinu niður, ýmist með andlagi (þagga eitthvað niður) eða forsetningu (þagga niður í einhverjum) tekur hún nú iðulega andlag eitt og sér, bæði þegar vísað er til fólks eins og hún gerði áður fyrr (þagga konur) og þegar vísað er til málefna (þagga umræðuna). Engin ástæða er til að amast við þessum nýjungum – þær eru gagnleg viðbót.