Að þegja, þaga og þagga í hel

„Orðasambandið þegja e-ð í hel 'eyða málefni með því að ræða það ekki' á sér ugglaust rætur í norrænni goðafræði en það er ungt í íslensku, mun vera fengið úr dönsku (tie noget ihjel)“ segir Jón G. Friðjónsson. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta samband er í Skuld 1880: „með því, að ræða málið, styðjum vér þó alla daga til að varna því, að það sé „þagað í hel“.“ Þarna eru gæsalappir um þagað í hel sem bendir til þess að þetta sé nýtt í málinu og ekki fyllilega viðurkennt. Annað dæmi er í Þjóðólfi 1886: „málið hefur brátt dáið út aptur, rjett eins og menn hefðu tekið sig saman um að þegja það í hel.“ Allmörg dæmi má svo finna frá síðustu áratugum 19. aldar og orðasambandið hefur alla tíð síðan verið fremur algengt.

En það á sér líka aðrar birtingarmyndir. Nafnhátturinn þaga af sögninni þegja kemur stundum fyrir eins og ég hef skrifað um, einkum í vissum orðasamböndum. Eitt þeirra sambanda er þaga í hel sem oft hefur verið amast við. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þaga er frá 1928 en elsta dæmi um þaga í hel er í Vesturlandi 1939: „En út lítur fyrir að þaga eigi þessar leiguumleitanir í hel.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 1945: „Þetta er svo merkilegt mál, að ekki má þaga það í hel.“ Allmörg yngri dæmi má svo finna, t.d. í Skessuhorni 2021: „Allir afskekktir staðir á Íslandi geyma ljót leyndarmál sem búið er að þaga í hel.“ Í Risamálheildinni eru 57 dæmi um þaga í hel, langflest af samfélagsmiðlum sem ber vott um að þaga hefur ekki verið viðurkennt.

Þessi afbrigði þekkti ég, en við athugun á sögninni þagga áttaði ég mig á því að til er þriðja afbrigðið – þagga í hel. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Verklýðsblaðinu 1932 og því eldra en elsta dæmi um þaga í hel: „Þessi ógurlegu svik reyna sósíaldemókratarnir hér heima að þagga í hel.“ Annað dæmi er í Alþýðublaðinu sama ár: „að bráðum skyldi Vorwäts verða þaggaður í hel!“ Í sama blaði 1933 segir: „Er Clausen þar með úr sögunni fyrir fult og alt, þaggaður í hel af honum duglegri og slyngari mönnum.“ Fjölmörg nýleg dæmi má líka finna, t.d. í Stundinni 2016: „Svo virðist sem máttug öfl vilji þagga málið í hel.“ Í Risamálheildinni eru alls 110 dæmi um sambandið, meira en helmingur úr formlegu málsniði.

Sambandið þagga í hel er ekki að finna í neinum orðabókum en samkvæmt þessum dæmum hefur það bæði verið notað í merkingunni 'þagga eitthvað endanlega niður' og 'þagga endanlega niður í einhverjum'. Í nýlegum dæmum er merking sambandsins yfirleitt í samræmi við þá merkingu sem sögnin þagga hefur bætt við sig á síðustu árum, þ.e. 'halda niðri, hunsa, láta eins og sé ekki til'. Þarna hefur sögninni þagga sem sé slegið saman við sambandið þaga í hel, en athyglisvert er að aldrei virðist hafa verið amast við þagga í hel. Enda engin ástæða til – merkingarlega stenst það vel. Þarna hefur málið því bætt við sig nýju orðasambandi sem eðlilegt er að viðurkenna sem gott og gilt – og í leiðinni er sjálfsagt að viðurkenna þaga í hel.