Nú dámar mér – eða ekki

Í gær var spurt hér um nafnorðið dámur og sögnina dáma sem fyrirspyrjandi þekkti í orðasambandinu nú dámar mér ekki, í merkingunni 'nú er ég aldeilis hissa'. Í nútímamáli er sögnin nær eingöngu notuð í þessu orðasambandi eins og ráða má af því að hún er ekki skýrð sérstaklega í Íslenskri nútímamálsorðabók, heldur er sambandið í heild skýrt eða umorðað 'ég á ekki orð, ja hérna!' og sagt tákna undrun og hneykslun. En dáma merkir upphaflega 'bragðast, falla í geð' og mér dámar þetta ekki merkti því 'mér líkar þetta ekki'. Nafnorðið dámur sem merkti 'bragð; lykt, angan; yfirbragð' er líklega alveg horfið úr málinu nema í sambandinu draga dám af einhverju sem merkir 'líkjast eða vera undir áhrifum frá einhverju'.

Í eldri dæmum merkir dáma venjulega 'líka' – „Ekki dámaði mjer sú bænar aðferð Þuríðar“ segir í Píslarsögu séra Jóns Magnússonar frá miðri 17. öld. Sama merking er í öllum eldri dæmum í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is. En ýmis tilbrigði má finna í notkun sagnarinnar. Þannig er hún stundum notuð í sambandinu dáma að – „Fór mönnum þá ekki að dáma að þessu“ segir t.d. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld, og „mér fer nú ekki mjög að að dáma, hvað menn eru latir og nota það lítt“ segir í Sunnanfara 1896. Einnig tekur sögnin stundum þolfallsfrumlag í stað þágufalls, eins og kemur fram í Íslenskri orðabók – „Vitaskuld er það eingin furða, þótt menn dámi ekki að því“ segir í Sunnanfara 1895.

Það er oft stutt frá merkingunni 'líka ekki' yfir í nútímamerkinguna 'fyllast undrun og hneykslun' og ekki alltaf ljóst hvor á við. Í Ísafold 1912 segir t.d.: „Eyjólfur, nú dámar mér ekki; nú held eg að eg hætti við að kjósa þig.“ Þetta voru viðbrögð kjósanda eftir ræðu frambjóðanda, og þarna getur merkingin verið hvort heldur er 'nú líkar mér ekki' eða 'nú er ég aldeilis hissa'. En í þýddri sögu eftir Mark Twain í Nýjum kvöldvökum 1914 segir: „Og þegar hún sá að búið var að kalka alla girðinguna svona vel, gekk alveg yfir hana. „Já, já! Nú ætlar mér ekkert að dáma!““ Konan sem segir þetta er ánægð með verkið, og því er ljóst að merkingin er undrun en ekki vanþóknun. Sú notkun er því komin fram í upphafi 20. aldar.

Merkingin 'bragðast' lifði einnig í dáma fram á 20. öld. Í ritinu Um tilfinningalífið eftir Ágúst H. Bjarnason frá 1918 segir: „Og enn segjum vjer á íslensku: »Nú dámar mjer ekki!« en það þýðir: þetta er ekki gott á bragðið; þessu geðjast mjer ekki að.“ En eftir því sem leið á 20. öld varð undrunarmerkingin algengari og sögnin kom æ oftar fyrir í sambandinu nú dámar mér ekki. Fljótlega fer sambandið einnig að koma fyrir án neitunar, en í sömu merkingu – í Lögbergi 1921 er að finna aðra þýðingu á sömu sögu og áður var vitnað til úr Nýjum kvöldvökum, en þar stendur „Nú dámar mér“ í stað „Nú ætlar mér ekkert að dáma!“. Það er ekki einsdæmi að neitun sé sleppt á þennan hátt – við segjum t.d. oft nú líst mér á í merkingunni 'mér líst ekkert á'.

Sögnin dáma í merkingunni 'líka' er algeng í færeysku – mær dámar hasa bókina. Merkingin 'líka' hefur einnig haldist í sögninni í íslensku fram undir þetta þótt hún sé orðin mjög sjaldgæf, en kemur t.d. fyrir í Fréttablaðinu 2019: „Einni fjölskyldunni hafi reyndar ekki dámað en hún hafi drifið sig yfir til annarrar fjölskyldu og þá liðið betur.“ Athyglisvert er að í krossgátu í Vikunni 1953 er dáma gefin sem ráðning á líka, en í krossgátu í Vísi sama ár er hún ráðning á ofbjóða. Á bak við síðarnefnda dæmið hlýtur að liggja sambandið nú dámar mér, án neitunar. Bæði nú dámar mér og nú dámar mér ekki eru algeng sambönd í óformlegu máli samkvæmt samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar, sambandið án neitunar þó töluvert algengara.